24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

Um þingsköp

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég sagði hér áðan að þetta væri einsdæmi og ég stend við það. Ég get viðurkennt að það hefur komið fyrir að umræður um mál hér í deildinni hafi dregist svo á langinn að komið væri fram á nótt þegar afgreiðslu þeirra lyki. Það hefur líka komið fyrir að afgreiðslu máls væri svo langt komið að það væri talið forsvaranlegt að hafa 2., jafnvel 2. og 3. umr. eftir að var farið að halla á nýjan dag. En hitt er aftur á móti einsdæmi að það sé farið af stað með umræðu, með 1. umr. máls klukkan þrjú um nótt. Ég skora á hv. þm. að nefna mér nokkur dæmi slíks hér í Ed. í þingsögunni.

Ég minnist þess að þegar við vorum að ljúka þingi hérna á s.l. vori var farið að halla í tvö og þá komu tvö mál úr Nd. - ég býst við að margir hv. dm. muni þetta - og áttu að koma hér til 1. umr. En því var andmælt og forseti taldi að úr því að andmæli hefðu komið fram og svo seint væri orðið, þá væri ekki fært að taka málið til umræðu. Það var fallið frá því að ræða þessi mál, (Gripið fram í: Þetta er rangt.) bæði þessi mál. (Gripið fram í: Þau voru bæði rædd.) Þau voru ekki útrædd. Það var fallið frá umræðunni, en ég minnist þess hins vegar að hv. þm. fékk að segja örfá tiltölulega óviturleg orð. Það er önnur saga.

Ég held að það hafi ævinlega verið tekið tillit til andmæla sem stjórnarandstaða hefur borið fram undir svona kringumstæðum, eða einstakir þm., og hafi ævinlega verið þá reynt áð taka málið til meðferðar daginn eftir. En ég ætta ekki að orðlengja þetta frekar.

Ég lýsi því yfir og ítreka það sem ég sagði hér áðan, og er í fullu samræmi við það sem fram kom hjá talsmönnum Bandalags jafnaðarmanna og talsmanni Kvennalista, að við Alþýðubandalagsmenn mótmælum þessum vinnubrögðum að stjórnarliðið skuli ætla að hespa þessu frv. hér í gegn. Við mótmælum þessari aðför að frjálsum samningsrétti og við munum ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls. Við munum ganga út af þessum fundi ef afbrigðin verða samþykkt og málið verðurtekið á dagskrá.