19.12.1985
Neðri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að svara efnislega þeim tveimur síðustu ræðum sem hér hafa verið fluttar úr ræðustólnum. Vel getur svo farið, vil ég þó segja við hv. síðasta ræðumann, að fjh.- og viðskn. komi til með að skipta sér af þessu máli. Það verður engum bókum lokað í þessu máli. Þær verða skráðar og það verður hægt að fletta upp í þeim ef mönnum þykir ástæða til.

Ég vil benda á að fjh.- og viðskn. er ekki rannsóknarnefnd í skilningi 39. gr. Nefndin hefur mikil verk með höndum. Við skulum einbeita okkur að því að leysa þau fyrst. Síðan í vor, þegar skiptaráðandi hefur lokið störfum - hann tjáði okkur seinast á fundi í dag að hann reiknaði með að hans starf mundi taka 3-5 mánuði - getum við tekið það til mats hvort okkur þykir ástæða til að taka málið upp eða óska nánari skýringa.