19.12.1985
Neðri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að rannsókn fari fram í þessu viðamikla máli. Út af fyrir sig er ég ánægður með það að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir því þó að ég hefði að ýmsu leyti kosið að öðruvísi væri í þessa rannsókn farið. En með hliðsjón af því að hæstv. ríkisstj. hefur þverskallast við öllum óskum og öllum tillögum um að veita hv. Alþingi með einhverju móti aðild að rannsókninni og nú síðast hér í kvöld hefur hæstv. viðskrh. ekki tekið undir óskir um að fastanefndum Alþingis yrði gert kleift að fylgjast með framgangi rannsóknarinnar, með hliðsjón af þessum viðbrögðum hæstv. ríkisstj. og þeirri óþingræðislegu málsmeðferð, sem hér hefur verið viðhöfð, mun ég ekki styðja þetta frv. og greiði því ekki atkvæði.