20.12.1985
Efri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstvirtur forseti. Það er velkomið að skýra aðeins það atriði sem hv. 3. þm. Norðurl. v. vék að í sambandi við breytingu á ákvæðum laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins og forfallaþjónustu bænda. Það er misskilningur að þarna sé verið að skila félagsmálapakka. Þessi þjónusta á að halda áfram. Hins vegar greiðist hún að hluta af því gjaldi sem hefur verið lagt á bændur og tekið af launum bænda til Stofnlánadeildar landbúnaðarins í staðinn fyrir að hún sé greidd úr ríkissjóði. En að sjálfsögðu mun sá hluti sem rennur til forfallaþjónustunnar koma inn í verðlagið. Þarna er því verið að koma til móts við óskir og samþykktir, sem bændur hafa gert, um að létta að einhverju leyti af þessum launaskatti sem hefur verið lagður á bændur og er 1% í hefðbundnum búskap og svarar þá u.þ.b. 3% af tekjulið þeirra. Gert er ráð fyrir að þetta muni vera u.þ.b. helmingur af gjaldinu sem til þessa þarf. Þarna er því verið að létta af hluta af launaskatti á bændur sem hefur verið allhár. Þetta mál var rætt á stjórnarfundi Stéttarsambands bænda, en hins vegar ekki gerð nein ályktun.

Ég ætla ekki að fara í almennar umræður um skuldastöðu bænda og fleira sem hv. ræðumaður vék að. Vitanlega má lengi deila um hvar uppruninn hafi orðið, en ég skal ekki fara út í þá umræðu á þessari stundu.