27.01.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í samræmi við bréf þingflokks Sjálfstfl. til mín dagsett 8. desember s.l. var gerð breyting á ríkisstjórninni s.l. föstudag á ríkisráðsfundi og hefur forseti Íslands gefið út eftirgreind bréf í því sambandi, með leyfi forseta:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt að Geir Hallgrímssyni er með bréfi þessu veitt lausn frá ráðherraembætti í ráðuneyti Íslands frá og með 24. janúar 1986 að telja.

Gjört að Bessastöðum, 24. janúar 1986.

Vigdís Finnbogadóttir.

Steingrímur Hermannsson.

Bréf er veitir Geir Hallgrímssyni lausn frá embætti utanríkisráðherra.“

Á þeim sama ríkisráðsfundi var jafnframt gefið út eftirgreint bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Að ég með bréfi þessu skipa Matthías Á. Mathiesen alþm. ráðherra í ráðuneyti Íslands og skal hann fara með utanríkisráðuneytið. Hann skal vera mér trúr og hlýðinn, halda stjórnskipunarlög landsins og gegna embættisskyldum sínum af trúmennsku og árvekni samkvæmt drengskaparheiti því er honum ber að undirrita.

Gjört að Bessastöðum, 24. janúar 1986.

Vigdís Finnbogadóttir.

Steingrímur Hermannsson.

Skipunarbréf til handa Matthíasi Á. Mathiesen alþm. til að vera ráðherra í ríkisstjórn Íslands.“

Í samræmi við það skipunarbréf sem ég hef nú lesið hefur Matthías Á. Mathiesen tekið við störfum utanríkisráðherra í ríkisstjórninni.