28.01.1986
Sameinað þing: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

Stjórnmálaástandið að loknu þinghléi

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Þm. hittast nú að loknu jólaleyfi og má ætla að þeir hafi ekki verið aðgerðarlausir en nýtt tíma sinn til þess að hafa samband við kjósendur, kynna sér ýmis mál og safna kröftum til að reka mál sín hér á þingi.

Það sem hér er fyrst og fremst til umræðu eru athafnir stjórnarinnar á þessum tíma sem þing hefur ekki setið. Það er lítil nýlunda í vinnubrögðum hennar, herra forseti, þar kveður allt við sama tón. Þó má segja að

offors hæstv. menntmrh. skeri sig nokkuð úr og hafa menn ekki lengi séð jafn fádæma hrokafull og skilningssljó vinnubrögð þó ýmsu séu þeir nú vanir. Er það bæði gagnvart Lánasjóði ísl. námsmanna, og bera margir nú kvíðboga fyrir afdrifum hans, og einnig við embættisveitingar. Þessi hæstv. ráðh. mun þó ekki sitja fyrir svörum í dag og því mun ég ekki beina orðum mínum frekar til hans, þó að brýn ástæða sé til, en bíða til fimmtudags.

Það eru mörg mál sem minnast mætti á í þessari umræðu en ég mun einungis minnast á nokkur þeirra. Sá halli á ríkissjóði, sem stjórnarandstaðan sá fyrir og boðaði við umræðu fjárlaga á sínum tíma, hefur nú verið staðfestur og nemur 2,5 milljörðum kr. Þessi staða er alvarleg og hefur ekkert heyrst frá ríkisstj. eða hæstv. fjmrh. hvernig á að mæta henni. Því vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. eða staðgengil hans, sem hér mun tala á eftir: Hvernig hyggst hann og ríkisstj. mæta þessum halla upp á 2,5 milljarð kr.?

Á sama tíma og þessi staðreynd er gerð kunn berast tölur um eyðslu vegna bílakostnaðar ráðherra. Auðvitað þurfa ráðherrar ekki síður en aðrir að komast leiðar sinnar snurðulaust svo að þeir megi reka erindi sín án mikilla tafa. Hins vegar eru þau samgöngumál bæði illa skipulögð og óhóflega dýr. Auk þess er þarna um óþarfa flottræfilshátt að ræða sem ráðherrar ættu ekki að láta glepjast út í. Það hlýtur að mega leysa þau mál öðruvísi en nú er, þó þannig að markmiðinu sé náð, þ.e. að flytja mennina úr einum stað í annan, en að minna fé sé til þess eytt.

Sama gildir um fríðindi til ráðherra varðandi bílakaup sem við vorum minnt á með mynd í dagblaði nú nýlega. Þetta er ósmekklegur óþarfi og undrast ég að ráðherrar geti varið slíkt fyrir samvisku sinni eða þá þjóðinni. Og ekki er það skárra þegar svo illa stendur á fyrir ríkissjóði eins og nú, það er beinlínis móðgun við þjóðina. Risna og eyðsla hins opinbera hefur ekki verið dregin saman sem skyldi og verður að standa mun betur að því að minnka hana.

Það var klaufalega staðið að skattaálögum og undarlegt að ekki skuli hafa verið betur hugað að framkvæmdum. Hvers vegna var ekki hugað betur að stöðu ferðamála áður en skellt var á flugvallarskatti? Prentaðir höfðu verið bæklingar og kynningarstarfsemi hafði verið rekin erlendis með venjulegum fyrirvara, sem er langur, þegar þessi skattur var lagður á. Þetta veldur ferðamannaþjónustunni svo augljósum vandræðum að undarlegt má teljast að svo illa skuli að málum staðið af ríkisstj. sem þegar hefur lýst sig hlynnta því að efla þann atvinnuveg sem ferðamannaþjónusta er. Má ég spyrja hæstv. fjmrh. eða staðgengil hans: Hvers vegna var svo illa að þessu máli staðið?

Aukið gjald á kökur og brauð er aðgerð sem stríðir ekki bara gegn þeirri innlendu iðngrein sem bakarar stunda og gæti leitt til aukins innflutnings á erlendum vörum sem þar að auki eru fullar af rotvarnarefnum, hún er líka fjandsamleg þeim sem reka heimili og hafa það innan verksviðs síns að útbúa kaffibrauð fyrir heimilisfólk. Þetta gjald vinnur því gegn konum, einkum þeim konum sem eru útivinnandi og hafa lítinn tíma til baksturs. Hugleiddi hæstv. fjmrh. það?

Málefni Þróunarfélagsins, sem hefur verið drepið á hér í umræðunni, kjötmálið og uppboð á togurum snerta öll það undarlega og fallvalta samstarfsmynstur sem ríkir á milli stjórnarflokkanna og jafnvel milli einstakra ráðherra eða þingmanna innan sama flokks. Sú þreyta, önuglyndi og vandræði, sem þetta stjórnarsamstarf hefur leitt af sér, minnir á slæmt hjónaband, þar sem ávinningur af sambúðinni er orðinn harla lítill eða hverfandi en neikvæðu áhrifin yfirgnæfandi. Og í þessari samlíkingu má heldur ekki gleyma því hve slæm áhrif slíkt hjónaband hefur á börnin. Og víst má vera að mörg landsbörnin eru orðin illa farin af þessari sambúð og mál að linni.

Það blés ekki byrlega fyrir Þróunarfélaginu í byrjun og virtist ætla að ganga erfiðlega að safna til þess nægu fé. Svo fór þó að lokum að það tókst að afla því nægilegs fjár til þess að orðið gæti lífvænlegt. Þetta fé og þau völd og áhrif, sem því og félaginu fylgja, hafa samt orðið bitbein fyrir pólitísk átök um hagsmunagæslu en það er tilbrigði við gamalt stef, eins og hv. 4. landsk. þm. reifaði hér áðan.

Það sem er þó e.t.v. alvarlegast við feril þessarar ríkisstj. eru ekki þær smágárur sem myndast á yfirborðinu á ferli hennar, ekki stormarnir í vatnsglösunum. Fregnir af slíkum veðrum eru í raun dægurmál. Það sem er alvarlegast er undiraldan. Það eru forsendurnar sem ríkisstj. byggir stefnu sína á, forgangsröðun þeirra markmiða sem hún hefur sett sér og aðferðir hennar við að ná þeim markmiðum.

Þrátt fyrir barlóm hafa ýmsar ytri aðstæður ekki verið betri í lengri tíma hér á landi. Eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir minntist á í umræðum um fjárlög er gert ráð fyrir lækkandi vöxtum og lækkandi olíuverði á heimsmarkaði á næstunni. Þessi spá er nú óðum að rætast og hlýtur sú staðreynd að koma íslensku efnahagslífi til góða, hlýtur reyndar að koma því jafnvel og háir vextir og hátt olíuverð komu sér illa áður.

Aflamagn hefur einnig verið meira á s.l. ári en nokkru sinni áður. Þetta er metaflaár í sögu landsins og þriðja hæsta aflaár í sögunni hvað varðar verðmæti afla.

Ytri skilyrði eru því batnandi og betri en oft áður. Þessi ríkisstj. hefur haldið illa á spilum sínum. Nú situr hún með nokkuð góða hendi og öllu skiptir hvernig úr er spilað. Ríkisstj. hefur ekki sýnt að hún verðskuldi það traust þjóðarinnar að hún fái að klúðra þeirri góðu stöðu sem nú býðst. Þess vegna á hún að fara frá.