29.01.1986
Neðri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

208. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að gefa mér tækifæri til að mæla fyrir þessu frv. Ég skal í staðinn vera mjög stuttorður.

Frv. er um það, eins og glöggt kemur fram, að aðalskrifstofur og stjórnstöð Hafrannsóknastofnunar skuli vera á Ísafirði, en stofnunin reka útibú í Reykjavík og öðrum landshlutum samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar stofnunarinnar. Í gildandi lögum um Hafrannsóknastofnun er ekki tekið fram hvar aðalskrifstofur stofnunarinnar eigi að vera né heldur að stofnunin skuli starfrækja útibú.

Út af fyrir sig þarf ekki að hafa mörg orð fyrir þessu frv., aðeins minna á að hér er hreyft máli sem er árvisst í sölum Alþingis með einhverjum hætti. Það gerist á hverju ári að þm. utan af landsbyggðinni flytji hér till. og frv. um flutning stofnana út á landsbyggðina. Fyrir liggur og hefur legið í mörg ár skýrsla sérstakrar nefndar sem sett var á laggirnar til að gera tillögur um slíkan stofnanaflutning. Það virðist vera, a.m.k. ef marka má ummæli manna og þá ekki síst landsbyggðarþingmanna, mikill stuðningur fyrir því að slíkur flutningur eigi sér stað. Þrátt fyrir þetta allt saman hefur hins vegar aldrei til þess komið að af slíkum flutningum yrði. Þar er því miður ekki síst um það að sakast að landsbyggðarþingmennirnir sjálfir geta yfirleitt hvorki komið sér saman um hvaða stofnanir eigi að flytja né hvert. Menn hafa að vísu hug á því að fá ríkisstofnanir fluttar heim í sitt kjördæmi, en það er eins og menn geti ekki unnt öðrum landshluta en þeim sem þeir eru sjálfir fulltrúar fyrir að fá einhverja tiltekna stofnun til sín ef þeir ekki fá hana sjálfir. Ef um það er að ræða að velja á milli þess að stofnun sé annaðhvort flutt út í eitthvert landsbyggðarkjördæmi annað en manns eigið ellegar að stofnunin verði áfram í Reykjavík, þá virðist valið oftar en ekki hjá landsbyggðarþingmönnum vera það að betra sé að hafa stofnunina áfram í Reykjavík en í einhverju öðru kjördæmi en viðkomandi. Þetta sjónarmið verður að sjálfsögðu til þess að það gerist aldrei neitt í málinu þrátt fyrir margvíslegan tillöguflutning og þrátt fyrir margvíslegar yfirlýsingar og margvísleg nefndastörf um nákvæmlega þetta. Þetta viðhorf verður að breytast.

Ég tek það sérstaklega fram í grg. að ég tel mjög eðlilegt að t.d. hin nýja Byggðastofnun verði staðsett á Akureyri. Það er orðið í valdi stjórnar Byggðastofnunar að ákveða það. Ef kæmi fram till. á Alþingi um að þeirri stofnun yrði t.d. valinn staður á Akureyri mundi ég styðja þá till. þó ég sé fulltrúi annars landshluta en Norðurlands. Mér finnst eðlilegt að Byggðastofnun yrði sett niður á Akureyri því að Akureyri er nokkurs konar höfuðstaður landsbyggðarinnar og þeir sem eru fulltrúar landsbyggðarinnar, sama hvaðan þeir koma, eiga að geta stutt hver annan í slíkum tilfærslum.

Með sama hætti finnst mér mjög eðlilegt að stofnun eins og t.d. Skógrækt ríkisins sé valið aðalaðsetur á Egilsstöðum og væri ég fús til að styðja slíka tillögu.

Meginatriði með þessum tillöguflutningi er að vekja enn á ný athygli á því að það er kominn tími til að menn fari að láta sjást eitthvað í framkvæmdum af þeim tillögum um stofnanaflutning út á landsbyggðina sem fyrir Alþingi liggja og m.a. er að finna í nál. sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson átti hlut í að semja á sínum tíma. Þetta gerist ekki nema þm. landsbyggðarinnar komi sér saman um að styðja hver annan í slíkum tilvikum. Það strandar oft frekar á andstöðu þeirra við slíkan flutning en á andstöðu þm. þéttbýlisins héðan af suðvesturhorninu. Það er nauðsynlegt, herra forseti, að þm. landsbyggðarinnar geti komið sér saman um slíka hluti. Það er m.a. til þess að gera tilraun til að koma slíkri samstöðu á sem þetta frv. er flutt nú.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál nú, herra forseti, og þakka aftur velvild forseta að leyfa þessu máli að koma á dagskrá. Mér er ekki alveg ljóst hvert eðlilegast væri að vísa frv. Það er sennilega eðlilegast að vísa því til allshn. Einnig gæti komið til greina að vísa því til sjútvn. Ég geri samt tillögu um að vísa frv. til allshn., en sætti mig vissulega við úrskurð forseta og mun draga þá till. til baka ef honum finnst eðlilegra að vísa frv. í aðra nefnd.