29.01.1986
Neðri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

208. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fór eins og títt er um þm. Framsfl. nú á árum að gleyma því að sá flokkur átti hlut að fyrrverandi ríkisstjórn og ríkisstjórnum, kannske þó ekki með hv. þm. og fyrrverandi ráðherra Sighvati Björgvinssyni. En ég verð að segja að staða byggðamálanna var með talsvert öðrum hætti á þeim árum en verið hefur í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Það væri hægt að segja margt um þau efni. En ég ætla ekki að gera það hér. Ég vænti þess að við ræðum byggðamálin við hentugt tækifæri, svo brýn þörf sem er á að taka þau mál til umræðu hér í víðu samhengi.

En varðandi minn hlut að þessu máli í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar vil ég aðeins minna á einn þátt, og ekki lítilsverðan þátt að mínu mati, sem lögfestur var á þeim árum og sem fellur einmitt að þeim sjónarmiðum sem ég mælti hér fyrir, en það er starfsemi iðnráðgjafa í landshlutunum. Þar var efnt til starfsemi með stuðningi ríkisins og samvinnu við samtök heimamanna til þess að renna stoðum undir iðnþróun úti í landshlutunum. Sú starfsemi er enn við lýði, en hefur ekki eflst og vaxið með þeim hætti sem æskilegt hefði verið að mínu mati. En það er einnig mál sem ég ætla ekki að ræða undir þessum dagskrárlið, stöðu iðnaðarmála, stöðu iðnaðarins og iðnþróunar í landinu hin síðustu misserin og horfur í þeim efnum.

Hv. þm. Stefán Guðmundsson gerði ekki annað en staðfesta það sem mig hafði minnt um fyrirtækið Hagvang sem ynni þarna að úttekt. Ég var út af fyrir sig ekkert að gagnrýna Hagvang öðrum fyrirtækjum fremur af þessu tagi heldur aðeins að minna á að ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi kinokaði sér við að taka pólitíska afstöðu til staðsetningar Byggðastofnunar, og hv. þm. átti hlut að þeirri ákvörðun, og er í staðinn að velkjast með þetta mál sem enn er í óvissu hér og nú. Hv. þm. lét ekki nokkra skoðun í ljós um þetta, enda er hann að bíða eftir hinni faglegu úttekt Hagvangs á þessu efni. Verður sannarlega fróðlegt að fylgjast með því hver verður framvindan á vegum stjórnar Byggðastofnunar. Kannske gæti verið þörf á því að taka þetta mál hér upp aftur á hv. Alþingi áður en langt um líður.