29.01.1986
Neðri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

208. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt að Byggðastofnun er ekki á dagskrá. Hins vegar hefur hún samt komist inn í þessa umræðu.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að ég hefði ekki látið í ljós neina skoðun á þessu máli. Það er ekki rétt. Ef hann hefur ekki heyrt það skal ég endurtaka það hér. Mín skoðun á flutningi Byggðastofnunar var augljós. Ég gerði grein fyrir atkvæði mínu. Ég sagði þá og meina það enn að það er réttkjörinnar stjórnar stofnunarinnar að taka ákvörðun um hvar hún skyldi starfa. Það er réttkjörinnar stjórnar að taka ákvörðun. - Hvað segir formaður Alþb.? (SvG: Hefur þm. skoðun á málinu?) Já. Hvaða mál ertu að tala um? Á hvoru málinu? Það eru nánast tvö mál sem við erum að tala um. En það er ekki víst að formaður Alþb. hafi fylgst með því því að hann hefur ekki verið í salnum. (SvG: Flutningi Byggðastofnunar.) Ég hef skoðun á því og er búinn að lýsa því hér yfir. Ég bíð eftir því að fá þá skýrslu sem við höfum óskað eftir að yrði unnin af Hagvangi. Þá mun ég taka afstöðu í því máli, en fyrr ekki.

Í sambandi við það mál sem við erum að tala um hér, sem er Hafrannsóknastofnun, getur hv. þm. verið rólegur. Mér skilst að það sé búið að ákveða að vísa því máli til sjútvn. Nd. Ég er formaður fyrir þeirri nefnd svo að ég mun fjalla um það í þeirri nefnd. (SvG: Vísa því til Hagvangs.) Ja, ég veit það ekki. Við skulum sjá til. Ég hugsa að við vísum því rétta boðleið til umsagnar, hv. þm.

Það kom fram hjá hv. flm. Sighvati Björgvinssyni að verið væri fyrst og fremst að skoða hvar væri ódýrast að reka Byggðastofnun eða Hafrannsókn. Það . er mikill misskilningur. Það er vitaskuld aðeins einn þátturinn sem verður athugaður. Það er miklu, miklu fleira sem þarf að skoða í þessu efni en kostnaðarhliðin ein. Og hún vegur ekki þyngst í mínum huga. Það skal ég taka fram. En það er mikil vanþekking á málinu ef menn halda að það sé það eina sem eigi að skoða, þ.e. hvort það sé ódýrara að reka Byggðastofnun á Akureyri eða í Reykjavík.

Hv. frummælandi og flm. er ekki í salnum svo að ég þarf ekki að segja miklu meira. Það sýnir kannske áhuga hans á málinu. En ég get sagt honum það, ef hann hefur ekki fylgst með því, ég hefði þó haldið að hann hefði gert það sem fyrrv. starfsmaður Byggðastofnunar eða Framkvæmdastofnunar ríkisins um tíma, að búið er að leggja Framkvæmdastofnun.ríkisins niður. Það eru að vísu engir flokksbræður hans hér inni heldur, en við reynum að koma þessu til hans sem hér sitjum ef það hefur farið fram hjá hv. þm.

Umr. (atkvgr.) frestað.