30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

Um þingsköp

Kristín S. Kvaran:

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því að þann 21. nóvember á s.l. ári lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. eða fyrir réttum tveimur mánuðum. Þar lagði ég fram spurningu um kostnað Alþingis og ráðuneyta við utanlandsferðir þingmanna, ráðherra og embættismanna ráðuneytanna. Í þingsköpum kemur greinilega fram í 31. gr. að svar ætti samkvæmt öllum atriðum sem þar koma fram að hafa borist, en þar segir, með leyfi herra forseta:

„Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en sex virkum dögum eftir að fsp. var leyfð. Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið. Skal prenta fyrirspurn og svar í Alþingistíðindum.“

Ég vil því eindregið inna eftir því hvað tefur og hvað það er sem gert hefur það að verkum að ekki hefur reynst unnt að gefa svar við þessari spurningu. Ég álít að það geti varla verið vegna tíðra utanlandsferða því að yfirleitt er hæstv. fjmrh. á landinu.