04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2328 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

Leiga á flugvél Landhelgisgæslunnar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Alexanderssyni fyrir að vekja máls á þessu hér. Ég held að hér hafi verið farið út á mjög hæpnar brautir, að ekki sé meira sagt, þegar eignir ríkisins eru notaðar til þess að leysa rekstrarvanda Flugleiða. Ef Flugleiðum er flugvéla vant í sínu innanlandsflugi eiga þeir auðvitað að leysa það mál sjálfir án atbeina ríkisins og kaupa þá nýja vél eða vélar til að anna þeim flutningum sem þeir telja sig þurfa að gera en ekki að skerða þjónustu og tækjakost Landhelgisgæslunnar. Það er verið að lama Landhelgisgæsluna að nokkru leyti þegar er verið að taka þetta sérhæfða tæki og flytja það yfir í flota Flugleiða - tímabundið. Það er auðvitað fáránlegt þegar hæstv. dómsmrh. kemur í ræðustól og heldur því fram að í rauninni sé verið að auka tækjakost Landhelgisgæslunnar og bæta. Þetta eru auðvitað hrein öfugmæli og ekkert annað. Hafi verið þörf á þessari flugvél á sínum tíma er þörfin fyrir hana ekkert minni núna. Það er ekkert sem rökstyður hvers vegna þetta skuli gert.

Ég vil við þessa umræðu minna á þál. sem samþykkt var hér á Alþingi 2. apríl 1981, till. sem upphaflega var flutt af þm. Alþfl., þeim Benedikt Gröndal og Árna Gunnarssyni, þar sem kveðið er á um að kjósa sjö manna milliþinganefnd um að kanna eflingu Landhelgisgæslunnar þannig að hún geti haft sem best eftirlit með 200 mílna lögsögusvæðinu og gegnt öðrum hlutverkum sínum á fullnægjandi hátt. Það hefur verið starfandi nefnd að þessu máli. Hún mun hafa skilað einhverjum áfangaskýrslum. En það segir hér í þáltill. eins og Alþingi samþykkti hana 1981: „Nefndin skal ljúka störfum áður en þing kemur saman að hausti.“ Nú vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvað líði störfum þessarar nefndar, hvenær hún muni ljúka störfum, hafi hún ekki gert það, séu þær upplýsingar réttar sem ég aflaði mér í morgun.

Ég bara minni á þetta mál í sambandi við þetta vegna þess að hér er verið að draga úr mætti Landhelgisgæslunnar til að gegna þeim hlutverkum sem henni er ætlað.