06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

204. mál, bifreiðamál ríkisins

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tel mér skylt að leiðrétta hv. 5. þm. Reykv. því að þingmannslaunin fara ekki yfir 70 þús. kr. á mánuði, þau eru nákvæmlega 68 128 kr. á mánuði og lífeyrissjóðsiðgjald að sjálfsögðu dregið frá því.

En það má segja eins og skáldið að „aldrei var því um Álftanes spáð“ o.s.frv. Hér stendur þm. Alþb. og ver bifreiðafríðindi ráðherra svokölluð, enda vil ég leggja á það áherslu að ég er ekki að því. Það eiga auðvitað engin bifreiðafríðindi að eiga sér stað. Menn eiga að fá greidd laun fyrir sína vinnu. Og ég er hjartanlega sammála hv. 5. þm. Reykv. að sé þáltill. samþykkt hér á hinu háa Alþingi ber að sjálfsögðu að fara að henni.

En ég held að full ástæða sé til að ræða þessi mál opinskátt vegna þess að öll sú blekking, sem er höfð í frammi í launamálum hér á landi, er til algers vansa. Ég er alveg sannfærð um það, herra forseti, að ef aðilar vinnumarkaðarins kæmu sér nú saman um í yfirstandandi samningsgerð að greiða öllum Íslendingum 70 þús. kr. á mánuði yrði að því stór sparnaður því að launamismunurinn hér í landi er að verða ærið dýr og einmitt, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, fyrst og fremst með alls kyns hlunnindum, fríðindum og samningum undir borðum með tilheyrandi skattsvikum og öðru slíku sem þjóðfélagið tapar milljörðum á, eins og margsinnis hefur komið hér fram.

Þess vegna held ég að það sé mjög mikilsvert að umræða um kjör þeirra manna, sem valdir eru til þingstarfa og til ráðherrastarfa, séu rædd gersamlega fyrir opnum tjöldum. Hér er ekkert að fela. Vegna þess að ég yrði ekki hissa þó að vinir okkar hér uppi á þingfréttaritarapöllum gerðu sér þó nokkurn mat úr umræðu sem þessari vil ég minna þá á að þegar þeir fá minn góða félaga og hv. þm. Svavar Gestsson til að eyða heilu kvöldi í sjónvarpssal fær hann það ekki greitt en það fá þeir. Laun þm. eru einungis föst mánaðarlaun þeirra í velflestum tilvikum.

Eins og hér kom fram er vissulega eitthvað um það að menn sitji í launuðum nefndum. En við skulum heldur ekki gleyma því að það kynni að vera töluverð vinna unnin í þeim nefndum sem vert væri e.t.v. að greiða fyrir eins og vinnu annars fólks í landinu.

Minna má á að þm. eru ekki í öruggum sessi né heldur ráðherrar. Oft er það svo að menn hafa sagt starfi lausu sem þeir eiga ekki auðveldan aðgang að aftur ef þjóðinni sýndist svo að þeir ættu ekki að halda störfum áfram hér.

Við skulum heldur ekki gleyma því álagi sem því fylgir að vera eilífur skotspónn þjóðarinnar og undir sífelldri smásjá eins og vera ber. Það fylgir því visst álag sem gerir þessi störf afar ólík öllum öðrum störfum.

Fátt leiðist mér meira persónulega en þegar verið er að ýja að því hversu gífurleg laun við höfum hér. Ég leyfi mér að fullyrða að minn vinnudagur er sjaldan undir 14 vinnustundum og þjóðin mín má svo sannarlega vita það að ég fæ rúmar 40 þús. kr. upp úr launaumslaginu mínu. Hún má líka vita að það nægir mér ekki til framfærslu. Þetta er nefnilega ekki nóg handa nokkru heimili og þess vegna eru önnur laun skv. launatöxtum orðin gersamlega út úr kortinu, enda tæplega nothæf. Það segir sig sjálft að manneskja, sem hefur 16-17 þús. kr. á mánuði, er annaðhvort í verulegri aukavinnu eða í öðru starfi til því að það er óhugsandi að lifa af slíkum launum.

Ég held að það sé kominn tími til að þetta verði rætt og ég vil endurtaka það að ég er sannfærð um að ef hver einasti vinnandi Íslendingur fengi 70 þús. kr. á mánuði sem hann gæti lifað af, þá væri það stór sparnaður fyrir þjóðfélagið.

Umr. (atkvgr.) frestað.