10.02.1986
Neðri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. ræddi í löngu máli á síðasta fundi um frv. um Seðlabanka, en langur kafli fór þó í ræðuhöld um það sem í raun og veru kemur ekki þessu frv. við.

Hann gerði nokkrar fsp. til mín, m.a. um það hvort reglugerð um tryggingarsjóð viðskiptabanka hefði verið samin og jafnframt hvort hún hefði verið birt. Þessi reglugerð var undirrituð af mér 31. janúar s.l. og hefur verið birt en núna er búið að biðja um sérprentun sem mér er sönn ánægja að senda hv. þm. þegar hún kemur úr prentun.

Tryggingarsjóður viðskiptabanka er settur með stoð í 51. gr. laga um viðskiptabanka frá s.l. ári og öðlast þegar gildi. Tryggingarsjóður hefur að markmiði að tryggja full skil á innlánsfé við viðskiptabanka ef bú bankans er tekið til gjaldþrotaskipta. Það er stefnt að því með þessum tryggingarsjóði að eigið fé tryggingarsjóðs nemi 1% af heildarinnlánsfé viðskiptamanna bankanna á innlánsreikningum. Í þessu skyni skal hver viðskiptabanki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til tryggingarsjóðs er nemi allt að 0,15% af heildarinnlánsfé um næstu áramót á undan. Ráðherra ákveður nánar þetta hlutfall að tillögu stjórnar tryggingarsjóðs.

Í tryggingarsjóði verður þriggja manna stjórn skipuð til þriggja ára. Tveir stjórnarmanna skulu skipaðir af ráðherra samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. viðskiptabanka og skal annar þeirra koma frá ríkisviðskiptabönkum en hinn frá hlutafélagabönkum. Ráðherra skipar einn stjórnarmann án tilnefningar og er hann jafnframt formaður sjóðsstjórnar. Forstöðumanni bankaeftirlits er heimilt að sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétti. Þessi skipun hefur ekki farið fram. Það er leitað eftir tilnefningu bankanna á sínum tveimur mönnum. Ég hef þegar ákveðið hvern ég mun skipa formann stjórnar, en læt það ekki uppi fyrr en tilnefning er komin frá bönkunum.

Hv. 3. þm. Reykv. gerði að umræðuefni framlagningu frv. um Seðlabanka og kvartaði mjög undan því að skýrsla bankamálanefndar hefði ekki legið fyrir. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að bankamálanefndin lauk störfum og skilaði af sér 21. mars 1984. Þar með hefur hún lokið sínum störfum. Ég sé ekki ástæðu til, þó ég hafi tekið við starfi viðskrh. í október 1985, að krefjast þess af nefnd sem látið hefur af störfum hálfu öðru ári áður að hún skili ítarlegri skýrslu. Hún er búin að ljúka störfum og skila af sér því frv. sem fyrir liggur.

Hv. 3. þm. Reykv. býsnaðist mikið yfir 4. gr. þessa frv. sérstaklega. Ég tel að 4. gr. frv. um bindiskylduna sé mjög til bóta frá því sem var í því frv. sem fjh.- og viðskn. þingsins fengu seint á s.l. ári eða fyrir þinglok, fyrir afgreiðslu frv. um viðskiptabanka. Hér er tekið út það hlutfall sem Seðlabankinn getur ákveðið að binda. Ég tel að það sé af því góða. Seðlabankinn þarf undir högg að sækja. Hann þarf að hafa samþykki viðskrh. eða bankamálaráðh. fyrir ákvörðun um bindiskyldu. Ég get því ekki séð að það þurfi að yggla brún yfir þessari breytingu nema síður sé.

Minnst var á hugmyndir um almenna peningastjórnun. Af hverju á hún endilega að vera inni í seðlabankalögunum? Hún er að vissu marki inni í lögunum um viðskiptabanka það sem nær til þeirra. Hugmyndir um peningastjórnun eru mjög viðamiklar og þeim verða ekki gerð glögg skil í einni ræðu.

En varðandi þá fsp., sem kom fram síðast í máli hv. þm., hvað liði tillögum og aðgerðum í sambandi við sameiningu banka eða stærri eininga í bankakerfinu, þá hafa farið fram ítarlegar viðræður á milli viðskrn. og fulltrúa allra ríkisbankanna, sömuleiðis fulltrúa þeirra tveggja einkabanka sem óskuðu eftir því að ræða þessi mál við ráðuneytið. Engar ákvarðanir hafa enn þá verið teknar. Hér er um afar vandmeðfarin og viðamikil atriði að ræða. Það er byggt á áliti svokallaðrar bankamálanefndar eða Gylfanefndar sem svo hefur verið kölluð. Þar er bent á tiltekin atriði sem ekki hefur verið neitt lagst á því að það nefndarálit hefur verið birt frá orði til orðs í flestum eða öllum dagblöðum landsins og þar koma ákveðnar hugmyndir til greina. Þessar hugmyndir allar verður að skoða.

Það er ekki hlaupið að því þó að á móti blási hjá einum ríkisbanka, eins og Útvegsbankanum sem hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli, að leggja hann niður svo að segja á engum tíma án þess að huga nánar að því hvernig sú starfsemi öll, sem hann hefur farið með, á að verða í framtíðinni. Í Útvegsbankanum eru fyrirtæki, einkum í sjávarútvegi, einnig í iðnaði og verslun, sem þarf að sjá fyrir að komist í viðskipti í öðrum bönkum. Það er engin ástæða til að óttast um þá sem innlánsfé eiga. Þeim eru allar dyr opnar á hverjum tíma. En hér er um að ræða t.d. heilu byggðarlögin í atvinnulegu tilliti sem þarf nánar að huga að og ná samkomulagi um hvernig komið verði fyrir.

Ég vil líka vekja athygli á því að þegar við tölum um að takmarka útlán til einstakra aðila, einstakra fyrirtækja eins og hafa komið hér til umræðu, skulum við einnig líta á það og miða þá við eiginfjárstöðu hvernig eigið fé í hlutfalli af niðurstöðutölu efnahagsreiknings bankanna hefur breyst á undanförnum árum. T.d. var það hjá viðskiptabönkum 10% á árinu 1960, en í lok árs 1984 er það komið niður í 5,6% . Sparisjóðir hafa hins vegar frá 1962 hækkað úr 7,4% í 12,5% á árinu 1984. Ef við lítum á eigið fé að frádregnum varanlegum rekstrarfjármunum í hlutfalli af niðurstöðutölu efnahagsreiknings að frátöldum varanlegum rekstrarfjármunum hefur það farið úr 9,1% hjá viðskiptabönkunum á árinu 1960 og er í árslok 1984 komið niður í 1,4%. Hins vegar má segja að það hafi heldur aukist hjá sparisjóðum eða frá árinu 1972 úr 3,6% í 5,3%. Allir sjá af þessu að eiginfjárstaða banka í þessu landi stendur mjög höllum fæti. Þegar maður heyrir talað um bankaauðvaldið eins og sumir gera held ég nú að það sé óhætt að segja að íslenskir bankar standi ekki traustum fótum. Landsbankinn, eftir 100 ára starf, er ekki kominn með nema hátt á annan milljarð í eiginfjárstöðu. Það tel ég að sé heldur léleg útkoma eftir 100 ára starf þrátt fyrir sáralitlar afskriftir á mörgum undanförnum árum.

Traust viðskipti byggjast auðvitað á því að bankarnir eigi eitthvað sjálfir, hafi eitthvað upp á að hlaupa. Það hljóta allir að skilja. Hv. 3. þm. Reykv. talar um að það þurfi skýrari ákvæði um skattamál Seðlabankans og af hverju hann borgi ekki eins og einstaklingarnir í landinu. Hvert fer það fé sem eftir er hjá Seðlabankanum? Er því dreift út um borg og bý? Það er í eigu þjóðarinnar. Það er til þess að styrkja peningastofnanir í landinu. Ég er hræddur um að ef Seðlabankinn hefði ekki átt neitt hefði orðið erfitt að halda uppi reglulegri starfsemi eins ríkisbankans undanfarna mánuði.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði að það hefði verið óskiljanlegt í minni framsöguræðu sem varðaði vaxtamálin.

Hann las það síðan upp og skýrði það nokkuð vel sjálfur. Ég var alveg hissa hvað hann skildi þetta vel. Þess vegna vísa ég því heim til föðurhúsanna að hv. þm. hafi ekki skilið nákvæmlega það sem ég var að segja. Ríkisbankarnir ráða ferðinni í vaxtamálum. Ríkisbankarnir á Íslandi eru alls ráðandi í bankaviðskiptum. Það vitum við allir. Með lögunum um viðskiptabanka er þeim fengið stóraukið vald í vaxtamálum og bankaráðum viðskiptabankanna er fengið það vald. Hverjir skipa bankaráðin? Það eru þeir sem Alþingi kýs. Það eru fulltrúar Alþingis, fulltrúar fólksins í landinu. Þeir hljóta að vera á hverjum tíma að meiri hluta stuðningsmenn ríkisstjórnar. Sama er að segja um seðlabankastjóra. Þessir aðilar hafa töglin og hagldirnar þegar vextir eru ákveðnir á hverjum tíma. Þetta veit ég að hv. 3. þm. Reykv. skilur mætavel.

Varðandi það hvort ég hafi í höndum yfirlit um gróða Seðlabankans í tíu ár reiknað til verðlags í dag, þá verð ég að segja hv. þm. að ég hef það ekki í höndunum. Ég skal líka segja honum að ég hef ekki heldur beðið sérstaklega um það í tíu ár. En þetta allt saman er til.

Mér fannst ástæðulaust hvernig hv. þm. talaði um þá grein sem fjallaði um gildistöku þessa frv. og að hann þyrfti að fara vítt og breitt um allt lagasafnið til að skilja hana. Svo skilgreindi hann hana með einu mannsnafni litlu síðar. Ég er alveg sannfærður um að hann hefur ekki flett öllu lagasafninu til að skilja greinina um gildistöku frv. Þar var hann að bregða á leik. Það má hann auðvitað eins og aðrir.

Mér finnst fulllangt gengið að tala um að það megi alveg eins setja eitt mannsnafn í sambandi við þetta. Ég tek ekki undir þetta sífellda neikvæða tal um Jóhannes Nordal seðlabankastjóra. Vitaskuld má eitthvað að honum finna eins og að okkur öllum hinum, en ég held að það fari ekki á milli mála að Jóhannes Nordal hefur unnið gífurlega mikið starf að efnahagsmálum og banka- og peningamálum þessarar þjóðar og að hann býr yfir mikilli þekkingu á þessu sviði og hefur meiri kunnugleika en flestir ef ekki allir aðrir í sambandi við þá sem við þurfum oft og tíðum til að leita. Ég sé því ekki ástæðu til að taka undir þessi sífelldu hnjóðsyrði í hans garð heldur öfugt.

Hv. 3. þm. Reykv. brá sér í alveg nýtt gervi þegar hann talaði um að það næði ekki nokkurri átt að fyrrverandi þingmenn eða stjórnmálamenn væru bankastjórar Seðlabankans og það ætti helst að reka þá alla og koma með einhverja fagmenn. Ég sé ekki neitt afhugavert við að fyrrverandi fjmrh. og fyrrverandi viðskrh. og lögfræðingur, eins og Tómas Árnason, sé einn af bankastjórum Seðlabankans. Ég sé heldur ekkert athugavert við að maður eins og Geir Hallgrímsson, lögfræðingur, einn af fremstu stjórnmálamönnum á liðnum áratugum í sambandi við þekkingu á efnahagsmálum, sé bankastjóri í Seðlabankanum. Báðir eru þetta traustir menn og öruggir starfsmenn ásamt fagmanninum Jóhannesi Nordal sem búinn er að vera öll þessi ár í Seðlabankanum. Ég bið hv. 3. þm. Reykv. að gleyma því ekki að það hafa fleiri flokkar en núverandi stjórnarflokkar tekið menn úr sínum herbúðum í bankastjórastörf. Menn mega ekki gleyma þó að viðkomandi Alþýðubandalagsmaður sé kominn yfir sjötugt að hann hafi verið bankastjóri. Þar var settur fyrir nokkrum árum bankastjóri Guðmundur Hjartarson sem lét af störfum fyrir aldurs sakir. Eftir því sem ég best veit um sér hann um byggingarframkvæmdir seðlabankahússins svo hann nýtur þó nokkuð góðrar vinnu í ellinni og mætti mörgum þykja það gott þegar þar að kemur. Ég bið formann Alþb. og hv. 3. þm. Reykv. að setja ekki upp algeran helgisvip og gleyma alveg því sem gerðist nokkrum árum áður. Ef hann er búinn að gleyma þessu skal ég minna hann á að sá sem skipaði Guðmund Hjartarson var Lúðvík Jósepsson sem hann vitnaði mikið til í sambandi við bankamálanefndina.

Eitt eiga þeir sameiginlegt þeir félagar sem hér hafa talað, hv. 3. þm. Reykn. og 3. þm. Reykv., að þeir minntust hvorugur á það sem verið er að gera jafnhliða þessum málum og þessum málaflutningi öllum, en það eru þau frv. sem annaðhvort er búið að leggja fram á Alþingi eða eru væntanleg og marka á margan hátt nýmæli í peninga- og viðskiptamálum. Það var eins og það hefði farið fram hjá þeim báðum. En ég er alveg sannfærður um að það hefur farið fram hjá hvorugum. Þeir hafa talið það vera eitthvað skemmtilegra að reyna að telja það sem þeir töldu vera neikvætt en sleppa því sem er jákvætt.

Ég vil því minna hv. þm. á að fyrir Alþingi liggja frv. til l. um verðbréfamiðlun og nafnskráningu skuldabréfa. Í þeim frv. er að finna mikilvæg ákvæði sem ættu að stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum á þessu sviði.

Það er gert ráð fyrir að þessi starfsemi verði leyfisbundin samkvæmt frv. og mun veitingarvaldið vera í höndum ráðherra. Við veitingu leyfis til þessa starfa skal verðbréfamiðlari setja bankatryggingu allt að fjárhæð 2 millj. kr. til að standast greiðslu skaðabóta vegna skaða sem hann kann að valda viðskiptamanni sínum. Samkvæmt frv. skal verðbréfamiðlari veita viðskiptamanni greinargóðar upplýsingar um þá viðskiptakosti sem honum standa til boða. Einnig segir í sama frv. að verðbréfamiðlari beri ríka ábyrgð gagnvart viðskiptamanni vegna fjárhagslegs tjóns sem viðskiptamaður kann að verða fyrir og er verðbréfamiðlara skylt að bæta slíkt tjón eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Eftirlit með því að verðbréfamiðlari haldi skyldur sínar gagnvart frv. er í höndum bankaeftirlitsins. Til viðbótar má nefna ógildingarákvæði samningalagafrv. sem ríkisstj. mun leggja fram á Alþingi, rýmkun á misneytingarákvæði hegningarlaga og frv. um nafnskráningu skuldabréfa.

Samkvæmt gildandi lögum um verðlag, samkeppnishömlur og ólögmæta viðskiptahætti geta þeir sem telja óviðunandi viðskiptahætti viðgangast í verðbréfaviðskiptum snúið sér til verðlagsráðs sem getur gripið til aðgerða.

Ég held að eftirtektarvert sé og athyglisvert að leggja á það mjög þunga áherslu hversu veikt okkar bankakerfi er og að eiginfjárstaða bankanna er langt frá því að vera með þeim hætti sem sómasamlegt getur talist. Þess vegna þarf að stefna að því í bankamálum að efla bankakerfið sem fyrir er. Útlánaþörfin er svo mikil, miðað við þau lög sem núna eru, að jafnvel ber nauðsyn til að setja ákvæði um hámark lána til einstakra viðskiptaaðila, en það getur leitt af sér að þau viðskipti og þau fyrirtæki sem þurfa mikið fjármagn þurfi að geta leitað á erlendan peningamarkað. Ég tel það koma fyllilega til greina að gera breytingu í þá átt að gera stærri fyrirtækjum kleift að leita á peningamarkað erlendis. Jafnvel gæti ég hugsað mér fyrir mitt leyti að hér væri leyft að hafa skrifstofur frá erlendum bönkum sem flyttu inn peninga til að lána bæði íslensku atvinnulífi og til uppbyggingar. Það varð árásarefni á mig fyrir nokkru í einu dagblaði þessa lands er ég var spurður að því af fréttamanni hvort ég teldi ekki eðlilegt og sjálfsagt að leyfa þeim sem peninga eiga að færa þá í erlendan gjaldeyri þannig að þeir gætu keypt skuldabréf á alþjóðamarkaði fyrir peninga sína. Ég taldi það alveg fráleitt. Það kæmi ekki til greina að mínum dómi að allir peningamenn landsins fengju þau forréttindi að geta breytt íslenskum peningum í erlent fjármagn og þá í sterkustu myntir heims og stundað verðbréfaviðskipti á alþjóðamarkaði. Þetta var talið fráleitt af mér að segja og ganga ekki inn á að leyfa slíkt. Hvað mundi það þýða fyrir almenning og atvinnureksturinn í landinu? Samdrátt á öllum sviðum og fækkun fyrirtækja og stöðvun þeirra og þar með auðvitað stórfellt atvinnuleysi. Ég vil endurtaka hér að ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að fara inn á slíka stefnu. Ég tel hana meira en varhugaverða. Ég tel hana fullkomlega hættulega.

Ég frábið mér þá gagnrýni, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að ég hafi verið að fela nokkurn skapaðan hlut við framlagningu þessa frv. Sérálit tveggja manna í bankamálanefndinni eru birt. Þau eru birt sem álit sem fylgdu nál. Hins vegar skýrði ég ítarlega hverja einustu breytingu sem gerð var á frv. frá því að bankamálanefndin skilaði af sér. Lengra var ekki hægt að ganga í þeim efnum. Það má kannske gagnrýna það helst að maður hafi birt þessi sérálit með frv. En hér er ekkert verið að dylja og ýmis atriði í þessum ræðum hljóta að koma til umræðu og umfjöllunar í þeirri nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar sem verður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.

Ég sé ástæðu til að gefa svolítið yfirlit um peningamál á s.l. ári. Þegar litið er á stöðu reikninga Seðlabankans um síðustu áramót og þær breytingar sem urðu á henni frá fyrra ári felast helstu breytingarnar í verulega bættri gjaldeyrisstöðu bankans sem eykst úr 2,1 milljarði í 7,6 milljarða. Kröfur á innlánsstofnanir minnka hins vegar úr 10 milljörðum í 5,7 milljarða og grunnfé eykst um 2,1 milljarð, úr 8,5 í 10,6 milljarða kr. Kröfur á ríkissjóð og ríkisstofnanir námu í árslok 1985 3,1 milljarði samanborið við 1,1 milljarð árið á undan. Aðrar stærðir, svo sem bundnar innstæður, seðlar og mynt, breyttust óverulega frá árinu á undan.

Í sambandi við kröfu Seðlabankans á ríkissjóð og ríkisstofnanir er rétt að líta á þróun þeirra mála frá t.d. árinu 1978 til ársloka 1985. Á þessu tímabili hefur staðan ætíð verið ríkissjóði neikvæð. Verst var staðan á fyrri hluta árs 1979, en skásts á árinu 1983. Síðan þá hefur heldur hallað undan fæti og nam skuldin um síðustu áramót um 3,1 milljarði kr.

Heildarinnlán innlánsstofnana námu um síðustu áramót 38,2 milljörðum kr. á móti 38,6 milljörðum í heildarútlán. Heildarinnlán jukust um 12,5 milljarða frá fyrra ári samanborið við 8,9 milljarða aukningu á útlánum. Þrátt fyrir þetta var lausafjárstaða innlánsstofnana neikvæð um 2 milljarða kr. um síðustu áramót.

Það er athyglisvert að skoða tölur frá 1978 til loka ársins 1985 um lausafjárstöðu innlánsstofnana. Þar kemur fram að lausafjárstaðan var yfirleitt jákvæð fram til fyrri hluta árs 1982, en hefur síðan verið neikvæð. Lökust var staðan síðari hluta árs 1984, en hefur frá þeim tíma heldur batnað, enda þótt hún hafi numið um 2 milljörðum kr. um síðustu áramót eins og ég sagði fyrr.

Úr reikningum viðskiptabanka má sjá að eignir og skuldir viðskiptabankanna námu í árslok 51,5 milljörðum miðað við 40 milljarða árið áður. Af eignaliðum eru útlán langstærsti liðurinn, 47,3 milljarðar. Þar af var endurlánað erlent lánsfé 13,5 milljarðar. Ýmsar innistæður í Seðlabanka námu 6,3 milljörðum og neikvæð lausafjárstaða viðskiptabanka nam um 2,2 milljörðum um síðustu áramót. Útlán jukust um 7,5 milljarða á árinu samanborið við 8,6 milljarða árið á undan. Af þessari aukningu munaði mest um mikla aukningu á víxlum og verðtryggðum útlánum. Af skuldum viðskiptabanka voru eðlilega innlán frá viðskiptamönnum langstærstar eða um 31,8 milljarðar og höfðu vaxið um 10,5 milljarða kr. Af þessu sést að innlán hjá viðskiptabönkum jukust talsvert meir en útlán og var þar með þróuninni frá árinu á undan snúið við sem betur fer. Mikil aukning innlána er að mestu til komin vegna mikillar aukningar á almennum bókum og öðru óbundnu sparifé. Einnig jukust innstæður á hlaupa- og gíróreikningum verulega svo og á verðtryggðum innlánum, sex mánaða, og á gjaldeyrisreikningum. Af öðrum skuldum viðskiptabanka má nefna fyrirgreiðslu Seðlabankans upp á 2,1 milljarð. Framleiðslulán vegna afurða eru 3,9 milljarðar, voru 1,4 milljarðar árið áður. Erlent lánsfé til endurláns nam tæpum 12 milljörðum kr., en 9,9 milljörðum kr. árið áður. „Annað“ er nettó tæpur 1 milljarður og eigin fé nam í árslok 2,7 milljörðum sem er nánast óbreytt frá árinu á undan.

Eignir og skuldir sparisjóða námu 6 milljörðum um síðustu áramót, sbr. 4,1 milljarð árið á undan. Lausafjárstaða þeirra var jákvæð um 0,2 milljarða, ýmsar innstæður í Seðlabanka námu 1,5 milljörðum og útlán námu 4,3 milljörðum kr. sem er aukning um 1,3 milljarða miðað við árið á undan.

Af heildarútlánum innlánsstofnana fór langstærstur hluti þeirra til fyrirtækja sem eru um 72% af heildarútlánum innlánsstofnana. Þar af er hlutur sjávarútvegs stærstur 31%, hlutur verslunar 27%, hlutur iðnaðar 17% og landbúnaðar 15%. Til þjónustustarfsemi var varið 6% og til annarra 4%. Til einstaklinga var varið 21% af útlánum innlánsstofnana. 3% fóru til annarra lánastofnana en banka, rúmlega 2% fóru til bæjar- og sveitarfélaga og tæplega 2% fóru til ríkissjóðs.

Við samanburð á útlánum á milli viðskiptabanka og sparisjóða kemur í ljós að viðskiptabankarnir lána mest af sínum lánum til fyrirtækja meðan sparisjóðirnir lána hlutfallslega mest af sínum útlánum til einstaklinga. Þannig námu lán til fyrirtækja sem hlutfall af útlánum viðskiptabankanna um 75%, en hjá sparisjóðum var þetta hlutfall aðeins 43%. Útlán til einstaklinga sem hlutfall af heildarútlánum námu hins vegar 48% hjá sparisjóðum, en hjá viðskiptabönkum 18%. Ef útlán eru flokkuð eftir tegundum lána kemur í ljós að u.þ.b. helmingur þeirra eru löng lán og eru vísitölubundin lán þar langþyngst á metunum. Fjórðungur þeirra eru afurðalán og fjórðungur önnur stutt lán. Bankar lána nærri öll afurðalán, en sparisjóðir lána hlutfallslega meira af sínu útlánsfé til langs tíma eða u.þ.b. 2/3.

Af einstökum bönkum er Landsbankinn langstærstur með 40% af öllum innlánum sem bankar hafa yfir að ráða og um 50% af öllum útlánum bankanna voru frá honum. Næststærstur er Búnaðarbankinn með 22% af innlánsfé bankanna og lánaði út 20% af heildarútlánsfé þeirra. Þá kemur Útvegsbankinn með 12% og 12% af heildarútlánsfé, Iðnaðarbankinn með 9 og 7%, Samvinnubankinn 8 og 6% og Verslunarbankinn 6 og 3%. Alþýðubankinn er þeirra minnstur með tæplega 3% af innlánsfé bankanna og 2% af útlánsfé þeirra.

Ef litið er á aukningu inn- og útlána á s.l. ári kemur í ljós að innlánsaukning banka og sparisjóða nam um 48% að meðaltali, en útlánsaukning banka nam 28% að meðaltali en sparisjóða 43%. Við samanburð á innlánsaukningu einstakra banka kemur í ljós að innlánsaukning var mest hjá litlu bönkunum, hjá Alþýðubankanum, Verslunarbankanum, Samvinnubankanum, og hjá Búnaðarbanka og Iðnaðarbanka var aukningin hvorki meira né minna en 57%, en var minnst hjá Landsbankanum 37%. Þetta er í hlutföllum. Auðvitað vega krónurnar í hlutfalli meira hjá litlu bönkunum en tiltölulega lítið hjá risunum eins og gefur að skilja. Það breytir engu að síður ekki þeirri staðreynd að Landsbankinn vegur hér langmest eins og ég sagði fyrr í minni ræðu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. að þessu sinni. Það fer til fjh.- og viðskn. og þar gefst nm. og fulltrúum flokkanna á Alþingi tækifæri til að óska eftir margvíslegum upplýsingum sem ekki mun standa á viðskrn. að útvega að svo miklu leyti sem það er á þess færi.