11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

123. mál, graskögglaverksmiðjan í Flatey

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. flm. að þörf sé á að athuga starfsemi graskögglaverksmiðjunnar í Flatey út frá því sjónarmiði að reyna að gera það sem hægt er til að nýta þá aðstöðu sem þar er til fóðurframleiðslu. Þetta mál er reyndar búið að vera til umræðu alllengi og hv. flm. er í nefnd sem ég hef óskað eftir að fjalli um þetta og ég veit ekki betur en að hann muni mæta til fundar m. a. nú í vikunni til að ræða þá stöðu sem er í rekstri graskögglaverksmiðjanna í heild.

Í máli flm. kom fram ástæðan fyrir því að ég féllst á þá tillögu stjórna verksmiðjanna að þar yrðu ekki framleiddir graskögglar á s.l. ári. Ástæðan sem hann nefndi var sú að geymslur voru allar fullar og sala mjög hæg. Og því miður var sala fram að s.l. áramótum a.m.k. einnig mjög hæg hjá þessari verksmiðju því heildarsala fjögurra verksmiðja var ekki nema 1700 tonn, að mér var tjáð, frá 1. september til áramóta. Nokkur hluti af því þar sem hafði verið blandað saman graskögglum og korni o.fl. var selt þannig sem blöndur. Ég tek undir það með báðum ræðumönnum, sem hér töluðu á undan, að auðvitað er nauðsynlegt að skoða hvort ekki er hægt að auka fjölbreytni og gera okkar íslenska fóður sem allra best. Hitt er svo annað, sem flm. vék reyndar einnig að, en það er sú breyting sem á hefur orðið þegar bændur sjálfir eru farnir að nýta sitt hey til kjarnfóðurframleiðslu að hálfu leyti með kögglun á heyi og íblöndun með korni, fiskimjöli og steinefnum. Ég veit að sumir sunnlenskir bændur framleiddu þannig allt sitt kjarnfóður úr eigin korni og grasi og fiskimjöli. Aðeins 10% voru steinefni og bætiefni innflutt til landsins. Bjuggu þeir þannig til blöndur af kjarnfóðri sem óhætt er að segja að er fyllilega eins gott og innflutt fóður og vissulega er það sem við þurfum að stefna að.

Þessar viðhorfsbreytingar í sambandi við graskögglaverksmiðjurnar sem orðið hafa síðustu árin eru aðeins eitt dæmi um það hvað viðhorf eru að breytast ört í landbúnaðinum og vegna þess hvers eðlis, hann er þá er það auðvitað erfitt fyrir hann þegar slíkar viðhorfsbreytingar verða og margt sem þá þarf að huga að.

Ég er síður en svo á móti því að heimamenn eignist meiri hlutdeild í rekstrinum ef vilji eða möguleiki er fyrir hendi á því sviði, þó að ég efist ekkert um að það sé rétt sem fyrri ræðumenn sögðu, að umgengni þeirra, sem hafa átt að sjá um verksmiðjuna, sé til fyrirmyndar og þeir hafi hugsað um hana eins og sitt eigið fyrirtæki. Af þeim sökum sé það kannske ekki brýn ástæða. Ég tek undir þörfina á að skoða rekstur þessarar verksmiðju og annarra graskögglaverksmiðja og reyna að finna þær leiðir sem allra bestar eru. Vissulega er það mikill munur að þannig skuli vera statt með fyrirtækið, að tiltölulega litlar skuldir hvíli á því og auðveldara við málin að eiga þar sem þannig hagar til, þó að grundvallaratriðið hljóti auðvitað alltaf að vera að framleiðslan seljist.