11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

188. mál, frysting kjarnorkuvopna

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Valdhafar í Bandaríkjunum, Sovétríkjunum og bandaríkjum beggja hljóta að finna til geysilegrar ábyrgðar gagnvart því að verja þjóðfélagsskipun sína, hagkerfið og landamæri sín. Þetta hljóta menn að álykta þar sem þau halda Evrópu og reyndar sjálfum sér sem gíslum andspænis gereyðingarógn kjarnorkuvopna í þessu skyni. Bæði stórveldin eiga fleiri kjarnaodda en þau gætu mögulega notað án þess að valda svonefndum kjarnorkuvetri og samt halda þau áfram að smíða og dreifa sífellt háþróaðri og hættulegri vopnum.

Um margra ára skeið var boðskapur dagsins ógnarjafnvægi. Okkur var sagt það lengi vel að það akkeri sem haldið hefði þjóðarskútunum stöðugum á úthafi hins eilífa ófriðar, a.m.k. í vesturheimi, væri hinn gagnkvæmi fælingarmáttur þeirra kjarnorkuvopna sem stórveldin hafa safnað af mikilli ábyrgðartilfinningu til þess að varðveita frið og velferð þjóða sinna. Þannig hefur okkur verið sagt að ógnarjafnvægið milli austurs og vesturs hafi tryggt frið í Evrópu um 40 ára skeið og forðað okkur frá þeim styrjöldum sem annars hefðu óhjákvæmilega orðið.

Herra forseti. Þetta er röksemdafærsla sem hvorki er hægt að sanna né afsanna. Þetta er í raun bæði fullyrðing og trú. Þessi röksemdafærsla minnir að sumu leyti, herra forseti, á hegðun prestaveldis hinna fornu þjóðfélaga Maya og Azteka í Suður-Ameríku. Þessar þjóðir áttu allt sitt undir árstíðunum og því að sá á réttum tíma. Þær áttu sér hæfa stjörnuspekinga. Valdhafarnir vissu að náttúran tók háttbundnum breytingum og þeir beittu athyglisgáfu sinni af alefli að því að uppgötva hvert eðli þessara hefðbundnu breytinga var til þess að þeir gætu lært að stjórna þeim og hagnýta þær, ekki einungis í þágu þjóða sinna heldur fyrir mannkyn allt svo það mætti lifa af.

Sérhver mínúta lífs þeirra var háð stöðu himinhnattanna, héldu þeir. Þeir óttuðust að væri guðunum ekki friðþægt mundu þeir eyða heiminum eins og þeir þekktu hann. Því var það að sérhverjum guði varð á réttum tíma að bera þær bænir og fórnir sem hverjum þótti hæfa. Eftirsóknarverðustu fórnirnar voru mannshjörtu sem slitin voru úr fórnarlömbunum meðan þau enn slógu.

Það var heilög skylda sérhvers Azteka að handsama fanga til fórna. Þegar stóri píramídinn hjá Huitzilopochtli var vígður í Mexíkó 1486 hafði Ahuitzotl konungur safnað meira en 20 þúsund föngum til fórna í tveggja ára herferð sinni til Oaxaca. Sú staðreynd að reikistjörnurnar héldust kyrrar á brautum sínum og árstíðirnar birtust með skilum sannaði svo fyrir valdhöfum að röksemdafærsla þeirra var rétt og því hélst áfram við lýði sú skuldbinding að útvega fórnarlömb til mannfórna þar til Spánverjar komu með sína útgáfu á kristindómnum.

Ef við notum svipaða röksemdafærslu, herra forseti, og segjum að fælingarmáttur kjarnorkuvopna hafi haldið friðinn milli stórveldanna síðastliðin 40 ár, er það þá ekki heilög skylda okkar að halda áfram að safna kjarnorkuvopnum til þess að tryggja friðinn? Hvað finnst ykkur um þessa samlíkingu, hv. þm.?

Nú er það samt svo að boðskapur dagsins hefur skipt um vers. Reagan Bandaríkjaforseti telur nú að ógnarjafnvægið frá því í gær sé siðferðilega óverjandi og því beri að skipta um áherslu. Hann vill reisa ósamkomulag stórveldanna út í geiminn, hafa frumkvæði að því sem hann kallar geimvarnaáætlun, umdeild og draumórakennd áætlun sem ögrar heilbrigðri skynsemi alls þorra manna og hvetur til geigvænlegrar aukningar vígbúnaðarkapphlaupsins.

Nei, reyndin er sú að stór meiri hluti manna telur kjarnorkuvopn óalandi og óferjandi og sættir sig ekki lengur við að búa við þá ógn sem þau bjóða lífi og framtíð á þessari jörð, sættir sig ekki lengur við þær risafjárhæðir sem blæðir til vígbúnaðar frá nauðþurftum. Þess vegna krefst almenningur þess að stórveldin stöðvi vígbúnaðarkapphlaup sitt umsvifalaust og hefji síðan afvopnun. Annað er gjörsamlega óþolandi.

Það er sömuleiðis gjörsamlega óþolandi að stjórnvöld lýðfrjálsra landa, sem standa utan stórveldanna, skuli ekki beita öllum tiltækum ráðum til að þrýsta á stórveldin í þessum efnum og fara þannig að vilja þess fólks sem kaus þau. Þetta stendur þó til bóta meðal ýmissa þjóðþinga í Evrópu sem nú eru loks farin að hlusta á rödd fólksins og hlýða henni.

Það er sömuleiðis gjörsamlega óþolandi að stjórnvöld Íslands skuli ekki hafa hugrekki og dug til þess að beita sér í þessum efnum.

Í desemberbyrjun 1983 hóf ég umræðu utan dagskrár hér á Alþingi um tillögu Svíþjóðar, Mexíkó og fleiri ríkja á þingi Sameinuðu þjóðanna um frystingu kjarnorkuvopna. Tilgangur umræðunnar var að fá svar frá hæstv. utanrrh. um afstöðu Íslands til þeirrar till., en atkvæðagreiðsla um hana var væntanleg innan fárra daga. Hæstv. utanrrh. sem þá var sagði að Ísland mundi sitja hjá við atkvæðagreiðsluna eins og áður. Kvennalistinn taldi mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga tæki afstöðu til þessa máls og flutti því till. til þál. um frystingu kjarnorkuvopna sem byggð var á umræddri tillögu Svíþjóðar, Mexíkó og fleiri ríkja. Þessi tillaga var svo flutt aftur á næsta þingi og reyndar höfð til hliðsjónar ásamt öðrum þegar samin var ályktun um stefnu Íslands í afvopnunarmálum sem Alþingi samþykkti á s.l. vori.

Ég býst við því að fulltrúar flestra þingflokka hér á Alþingi hafi reiknað með því að samþykkt þessarar afvopnunartillögu mundi í raun tryggja að Íslendingar mundu styðja tillögu Svíþjóðar og Mexíkó um frystingu kjarnorkuvopna. Það kom þó í ljós eftir að afhent höfðu verið gögn á fundi utanríkismálanefndar s.l. haust að Norðmenn mundu styðja tillöguna en Íslendingar yrðu einir Norðurlandaþjóða til þess að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna ásamt fimm öðrum þjóðum, þ.e. Bahamaeyjum, Kína, Lúxemborg, Hollandi og Spáni. Þetta var tilefni utandagskrárumræðna hér á Alþingi í desember s.l., sem getið hefur verið um af hv. þm. Páli Péturssyni, þar sem þess var krafist að Íslendingar styddu þessa tillögu. Allt kom fyrir ekki. Metnaður fráfarandi utanrrh. var í veði, en hann hafði þegar gefið afstöðu Íslendinga til kynna og vildi ekki breyta henni. Þessi afstaða varð tilefni þess að þingflokkur Kvennalista ákvað að leggja fram tillögu sína eina ferðina enn í þeirri von að hún yrði samþykkt áður en svipuð tillaga yrði næst borin fram á þingi Sameinuðu þjóðanna.

Þessi tillaga er nú 188. mál þingsins á þskj. 224 og er flutt af þm. Kvennalista. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Sovétríkin og Bandaríkin lýsi yfir tafarlausri frystingu kjarnorkuvopna, annaðhvort með samtíma einhliða yfirlýsingum eða með sameiginlegri yfirlýsingu. Slík yfirlýsing yrði fyrsta skref í átt að yfirgripsmikilli afvopnunaráætlun sem felur í sér:

1. Allsherjarbann við tilraunum með framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna og skotbúnaðar þeirra. Enn fremur algera stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna til vopnanotkunar.

2. Frystingu sem er háð öllum þeim aðferðum til sönnunar og eftirlits sem þegar hafa verið samþykktar af málsaðilum í SALT I og SALT I1 samningunum, auk þeirra aðferða sem þeir hafa samþykkt í grundvallaratriðum í þríhliða undirbúningsviðræðum í Genf um algert bann við kjarnorkuvopnatilraunum.

3. Frystingu sem gildir í fimm ár til að byrja með, en gæti orðið lengri ef önnur kjarnorkuveldi slást í hópinn eins og vonir standa til.“

Ég ítreka að þessi till. er nánast samhljóða þeirri till. sem hér um ræðir og var flutt af Svíþjóð og Mexíkó á þingi Sameinuðu þjóðanna.

Það er að mati þingflokks Kvennalistans gjörsamlega óviðunandi að embætti hæstv. utanrrh. skuli vera þannig farið að hann er í raun einráður um slíkar ákvarðanir fyrir Íslands hönd. Hæstv. ráðh. hlýtur að verða að hlíta vilja þjóðarinnar og þar með þingsins og því er nauðsynlegt að þingið taki afstöðu í þessu máli.

Ég tek eindregið undir þau orð hv. þm. Páls Péturssonar að æskilegt sé að Norðurlönd séu samstiga í þessum efnum. Jafnframt legg ég áherslu á að Norðurlönd hafa sameiginlegt hlutverk á alþjóðavettvangi sem er mjög mikilvægt og má hvorki vanrækja né vanmeta.

Varðandi ummæli hæstv. utanrrh. hér áðan um þau skilyrði sem fyrrverandi hæstv. utanrrh. setti fyrir því að hægt væri að samþykkja slíka tillögu vil ég taka fram að það er tæknilega löngu mögulegt að framkvæma það eftirlit sem nægjanlegt er til þess að fullvissa sig um hvort kjarnorkuvopn felast á landi einhvers eða ekki. Það er löngu hægt að beita slíku eftirliti svo og eftirliti með öllum tilraunum með kjarnorkuvopn sem gerðar eru.

Hæstv. utanrrh. minntist líka á það að Íslendingar hefðu leitað breytinga á þessari tillögu Mexíkó og Svíþjóðar margsinnis, en ekki fengið, ekki fengið nægilega miklar breytingar fram til þess að geta staðið að tillögunni. Samt er nú svo komið að Ísland er eitt Norðurlandanna sem ekki getur staðið að tillögunni.

Hæstv. utanrrh. minntist á að Norðmenn hefðu breytt afstöðu sinni í atkvæðagreiðslu vegna þrýstings frá innanlandsstjórnmálum, þ.e. vegna innanlandsstjórnmála hefðu þeir breytt afstöðu sinni. Og ég spyr nú: Vegna hvers annars ættu þeir eiginlega að breyta afstöðu sinni ef ekki vegna þeirra stjórnmála sem eru í landi þeirra, þ.e. vilja þess fólks sem býr í landinu?

Ég er sammála hæstv. utanrrh. þegar hann segir að við eigum að halda okkar striki. En ég vil ganga lengra. Ég vil standa á þessu striki og beita mér. Þess vegna legg ég til, og ég styð það sem hv. þm. Páll Pétursson sagði áðan, að við þurfum að halda áfram í átt eftir þessu striki. Við þurfum að færa það áfram og vera óhrædd við að lýsa vilja okkar í þessum efnum.

Að loknum umræðum legg ég til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til hv. utanrmn.