13.02.1986
Sameinað þing: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

213. mál, laun, samnings- og verkfallsréttur og lögverndun á starfsheiti kennara

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil bara nota tækifærið til þess að gera hér örstutta athugasemd vegna umræðna sem urðu á síðasta fundi hv. Sþ. í fyrradag, eða á þriðjudaginn. Þá kom hér fjölmenni á þingpalla vegna fréttar í Ríkisútvarpinu þar sem sagt var, sem er mjög óvenjulegt, að þetta mál sem nú er á dagskrá yrði tekið fyrir.

Í fréttinni í Ríkisútvarpinu var þess getið að þrjár fsp. frá hv. 5. þm. Austurl. yrðu teknar fyrir á þeim fundi. Eins og allir vita gat hæstv. fjmrh. ekki komið til þessa fundar og hann hefur þegar skýrt, hvers vegna, enda hafði hann fjarvistarleyfi, en afleiðingin af þessu kom m.a. fram í viðtali í Þjóðviljanum undir fyrirsögninni „Þorsteinn lét ekki sjá sig“ þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

"„Það voru okkur geysileg vonbrigði að fjmrh. skuli ekki hafa mætt í þingið þegar fjalla átti um launakjör kennara. Það er með endemum að ráðamenn þjóðarinnar skuli ekki hafa áhyggjur af því að skólahald er í upplausn," sagði Sigrún Ágústsdóttir, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, í samtali við Þjóðviljann í gær þegar ljóst var að Þorsteinn Pálsson mundi ekki mæta til að svara fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um málefni kennara.“

Af þessu tilefni, herra forseti, hringdi ég í Ríkisútvarpið og spurði hver væri heimildarmaður fréttarinnar og fékk þær upplýsingar að það væri ekki þingfréttaritari sem eðlilegt er því að hann þekkir starfsemi Alþingis. Hins vegar væru heimildarmenn Margrét Helgadóttir og Sigrún Ágústsdóttir, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, sem áðan var vitnað til viðtals við í Þjóðviljanum. Sjálfsagt er þetta gert í góðri trú. Allir vita, sem þekkja störf Alþingis, að fyrirspurnir eru mislengi á dagskrá og stundum er erfitt að svara þeim þegar spurningar eru til tveggja hæstv. ráðherra. Ég tel að Ríkisútvarpið hefði átt að leita til réttra aðila til að fá upplýsingar um hvaða mál átti að taka fyrir á viðkomandi þingfundi til að koma í veg fyrir þau leiðindi að hingað á þingpalla sé stefnt fjölda fólks sem síðan fer bónleitt til búðar.

Ég vil að lokum, herra forseti, vænta þess að slíkt þurfi ekki að koma fyrir aftur en lýsi því yfir að ég fagna því að fengist hefur botn í þetta mál og vonast til þess að kennarar séu sáttir við niðurstöðuna.