29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

47. mál, kynlífsfræðsla í skólum

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrri lið fsp. vil ég taka þetta fram:

Undanfarin fimm ár hefur verið unnið að aukningu og endurskipulagningu kynfræðsluþáttarins í menntun kennara í Kennaraháskóla Íslands. Allir nemendur á öðru námsári sækja nú námskeið sem ætlað er til þess að undirbúa þá undir að taka að sér kynfræðslu í grunnskóla. Námskeiðið er 8 klst. og er nemum ætlaður jafnlangur tími til heimavinnu. Líffræðikennari skipuleggur námskeiðið, en fær sér til aðstoðar kennara menntaðan í félagsvísindum. Á sama tíma og nemandinn sækir námskeið í kynfræðslu eru einnig haldin námskeið í unglingasálarfræði, trúarbragðafræði og vímuefnafræði sem öll nýtast við kynfræðslu.

Auk kynfræðsluþáttarins í grunnnámi kennaranema hefur Kennaraháskóli Íslands haldið líffræðinámskeið fyrir starfandi kennara og hefur kynfræðsla verið hluti af námsefninu. Slík námskeið voru haldin árlega 1974-1979, en hafa verið stopulli síðustu ár. Sérstakt námskeið um kynfræðslu var haldið fyrir starfandi kennara 1978. Endurmenntunarnefnd Kennaraháskóla Íslands hefur nú til umfjöllunar tillögu um kynfræðslunámskeið næsta sumar. Á undanförnum árum hefur nýtt námsefni í kynfræðslu verið kynnt rækilega á námskeiðum og fundum með kennurum.

Sem svar við öðrum lið fsp. vil ég taka þetta fram: Óhætt er að fullyrða að tími sá sem notaður er til kynfræðslu í grunnskólum hefur margfaldast á undanförnum árum. Áður en endurskoðun námsefnis hófst í kjölfar grunnskólalaganna nam kynfræðsla að meðaltali 10 kennslustundum á skyldunámsferli hvers nemanda. Nú má hins vegar ætla að lágmarkskynfræðsla sem grunnskólanemandi nýtur á skyldunámsferlinum séu 80 kennslustundir. Er þá miðað við það námsefni sem fyrir hendi er og vikið verður að hér á eftir.

Unnið hefur verið að aukningu og endurskipulagningu kynfræðslu á undanförnum árum á vegum menntmrn. Miðað er við að veitt sé heilstæð fræðsla um allar hliðar kynlífs og stefnt að því að nemendur öðlist þekkingu og skilning á líkamlegum, siðrænum, tilfinningalegum og félagslegum þáttum. Kynlífsfræðsla í grunnskólum hefur einkum tengst kennslu í líffræði en ýmsum þáttum hennar hefur einnig verið fundinn staður innan samfélagsfræði, kristnifræði og heimilisfræði.

Kynfræðsla í grunnskólum dreifist á námsárin en megináhersla er lögð á fyrstu námsárin og kynþroskaskeiðið. Sjö ára nemendur fá fræðslu í samfélagsfræði og í henni er fjallað um hvernig barn verður til í tengslum við umfjöllun um fjölskylduna.

11-12 ára nemendur. Í líffræði er fjallað um mannslíkamann og er u.þ.b. þriðjungur námsefnisins kynfræðsla.

13-14 ára nemendur: Í líffræði er stór hluti námsefnisins bein kynfræðsla og í kristnifræði er fjallað um siðfræði kynlífs.

15-16 ára nemendur. Fjallað er um kynsjúkdóma og getnaðarvarnir á grundvelli bæklinga um þessi efni sem landlæknisembættið hefur gefið út.