18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

216. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 444 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh. varðandi lánsfjármagn til mengunarvarna í fiskimjölsverksmiðjum:

„Hvernig hyggst ríkisstj. beita sér fyrir útvegun fjármagns til mengunarvarna í fiskimjölsverksmiðjum í framhaldi af ákveðnum tilmælum meiri hluta fjh.- og viðskn. Ed. um nauðsyn á útvegun lánsfjár til þessa verkefnis?"

Það er kannske rétt að taka fram að það má segja, miðað við það nál. sem þar kom fram, að það hefði verið fullt eins eðlilegt að beina þessari fsp. til hæstv. viðskrh., en ég treysti því engu að síður að það skipti ekki öllu og hæstv. fjmrh. svari þessari fsp.

Við afgreiðslu lánsfjárlaga í Ed., þar sem fyrir lá brtt. frá mér um nokkurt beint lánsfjármagn eða útvegun á lánsfjármagni til þessa verkefnis, kom fram að meiri hluti fjh.- og viðskn., og alveg sér í lagi formaðurinn, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, var á þeirri eindregnu skoðun að hér væri um hið þarfasta verkefni að ræða og brýn nauðsyn fjármagns til þessa, svo sem fram kemur bæði í nál. og framsögu hv. formanns. Það var því fullur skilningur á málinu. En í nál. segir að vísað sé á langlánanefnd og aðrar lánastofnanir varðandi verkefnið og því treyst að því sé sinnt á þeim vettvangi.

Nú er blessunarlega góð loðnuveiði og ekkert nema gott um það að segja, brætt sem aldrei fyrr. En við sjáum afleiðingarnar allt of víða í stórkostlegri mengun sem er íbúunum á þeim svæðum þar sem brætt er mest til ama, óþæginda og hefur jafnvel áhrif á heilsufar. Hagur verksmiðjanna ætti vissulega að batna og gera þeim betur kleift að ráðast í verulegar endurbætur og það fyrir næstu loðnuvertíð, en það er auðvitað alveg augljóst að það þarf vissa aðstoð til, visst lánsfjármagn, vegna þess að í upphafi er um nokkuð dýrar framkvæmdir að ræða og skal ekkert úr því dregið.

Ef ríkisstj. beitir sér nú fyrir því annars vegar að framkvæma samþykkt Alþingis frá s.l. ári og tryggir um leið eðlilega lánsfyrirgreiðslu kæmi hreyfing á málið. Ég treysti því á hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. að tryggja sem best framgang málsins, ekki síst í ljósi þess hve málinu var vel tekið af stjórnarmeirihlutanum í Ed. þó að brtt. mín um sérmerkt fjármagn næði ekki þar fram að ganga.