18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

241. mál, innkaup á innlendum iðnaðarvörum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda á í sambandi við þessa fsp. að nauðsynlegt er að þm. sé kunnugt um hvernig háttað er kaupum á svokölluðum innlendum iðnaðarvörum. Þegar stjórn Borgarbókasafns bauð út smíði húsgagna í hið nýja útibú í Gerðubergi varð nokkur deila milli formanns Félags ísl. iðnrekenda og stjórnar Borgarbókasafns vegna þess að til stóð að kaupa sérsmíðuð dönsk bókasafnshúsgögn. Stjórnin beygði sig fyrir rökum formanns Félags ísl. iðnrekenda - og ég minnist þess að hv. þm. Eggert Haukdal tók þetta mál einnig upp hér á Alþingi - og útboð fór fram að nýju og tvö íslensk fyrirtæki fengu smíði þessara húsgagna.

Nú verður þetta bókasafn tekið í notkun að stuttum tíma liðnum, en í ljós kemur að annað þessara íslensku fyrirtækja sem fékk þessa smíði hefur skilað húsgögnum sem að 70% eru innflutt frá Danmörku. Ég vil því benda hv. þm. á að ekki er alltaf allt sem sýnist með svokölluð innkaup á íslenskum iðnaðarvörum þegar fyrirtæki Hjalta Geirs Kristjánssonar, í þessu tilviki, lofar að smíða íslenskar iðnaðarvörur og kemur með þær að 70% innfluttar frá Danmörku.