29.10.1985
Sameinað þing: 9. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

7. mál, skipulag svæðisins umhverfis Gullfoss og Geysi

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 7 leyft mér ásamt hv. þm. Kjartani Jóhannssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur að flytja till. til þál. um þjóðgarð við Gullfoss og Geysi, en till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja nú þegar undirbúning að stofnun þjóðgarðs á svæðinu umhverfis Gullfoss og Geysi. Jafnframt verði hafin vinna við heildarskipulag svæðisins og undirbúin kaup á þeim jörðum og landspildum á svæðinu sem ekki eru þegar í eigu ríkisins.

Frv. til l. um þjóðgarð við Gullfoss og Geysi verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Till. efnislega samhljóða þessari var lögð fram á síðasta þingi en náði þá eigi fram að ganga, varð ekki útrædd og því er hún endurflutt hér með svolítið breyttri grg.

Efni tillögunnar er afar einfalt og skýrt. Það er að fela ríkisstj. að undirbúa stofnun þjóðgarðs á svæðinu umhverfis Gullfoss og Geysi, einhverjar þekktustu perlur íslenskrar náttúru og að ríkisstj. leggi síðan frv. þess efnis fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Það er með ráðnum huga að flm. gera ekki ákveðnar tillögur um stærð eða mörk þessa fyrirhugaða þjóðgarðs. Þar koma vissulega mjög margir kostir til greina, raunar svo margir að eðlilegt er að þeir sem fá það verkefni að vinna að undirbúningi þessa máls hafi þar nokkurt svigrúm. „Þó mætti“, eins og segir hér í grg., t.d. „hugsa sér að fyrirhugaður þjóðgarður yrði a.m.k. 40 ferkm að stærð og þá yrðu innan hans jarðirnar Haukadalur, Torta, Bryggja, Laug, Helludalur, Brú, Kjóastaðir, Hólar og skógræktin í Haukadal. Af þessum jörðum á ríkið tvær, Haukadal og Laug, en þrjár eru í eyði“. Með þskj. 7 er prentað kort sem fskj. sem sýnir hver gætu hugsanlega verið mörk þjóðgarðs á þessu svæði, en það skal ítrekað að hér er aðeins um að ræða einn kost af mörgum.

Á þessu svæði sem hér um ræðir og er sjálfsagt einna fjölsóttast allra staða af ferðamönnum, jafnt innlendum sem erlendum, þarf að vera fyrir aðstaða fyrir ferðafólk þannig að það geti notið þess og farið þar um, notið þeirrar þjónustu sem eðlilegt er að ferðafólk óski eftir við slíkar kringumstæður. Líka þarf að koma í veg fyrir að þarna verði ráðist í byggingar og framkvæmdir eins og ég hef grun um að hafi verið á döfinni í grennd við Gullfoss t.d. Ég hugsa að okkur brygði í brún ef þaðan blöstu við mismunandi hrjálegar sumarhúsabyggingar sem vissulega mundu spilla þeirri mynd sem þar blasir nú við ferðamönnum.

Þegar þessi till. var til umræðu í fyrra var hún send ýmsum aðilum til umsagnar, og sú vinna sem í hana var lögð liggur þá fyrir nú og ætti að gera umfjöllun málsins nokkru auðveldari.

Vegna þess hve skammt er á milli Gullfoss og Geysis má í rauninni segja að þessir staðir séu samliggjandi og eðlilegt er að þjónusta við ferðafólk á þessu svæði verði aðeins á öðrum staðnum og nærtækast og eðlilegast er, hvernig sem á málið er litið, að sú þjónusta yrði við Geysi.

Auðvitað þarf að undirbúa stofnun þjóðgarðs á þessu svæði afar vandlega og þar þarf að hafa samvinnu við mjög marga aðila, sveitarstjórnir, landeigendur, Náttúruverndarráð, Skógrækt ríkisins, Landgræðsluna og skipulagsyfirvöld, svo og aðra þá er málinu tengjast.

Hér er ekki lagt til að hrapað verði að einu eða neinu eða rasað um ráð fram, heldur verði haft samráð við þá aðila sem málið snertir. Og það skal enn ítrekað, herra forseti, að sú tillaga sem hér er rissuð upp á fylgiskjalið er einungis umræðutillaga, en sýnir þó, að mati þeirra sem býsna vel þekkja til, hvernig mætti vel hugsa sér mörk þjóðgarðs á þessu svæði.

Ég held að það sé afar brýnt að svæðið verði verndað með þeim hætti sem vera mundi ef þarna yrði komið á fót þjóðgarði, en mér er alveg ljóst að samfara því er að sjálfsögðu einhver kostnaður. En ég held að þegar við erum að ræða um Gullfoss og Geysi tjói ekki að gerast allt of smámunasamir um krónur því að þau náttúruverðmæti sem þar eru verða auðvitað aldrei í krónum talin.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg til að að fyrri umræðu lokinni verði þessari till. vísað til hv. allshn. Sþ.