30.10.1985
Efri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

73. mál, varnir gegn mengun sjávar

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. skuli komið hérna fram því að það er ýmislegt í því sem er til mikilla bóta, en það er einnig ýmislegt sem þarf að athuga betur og getur orðið til verulegs kostnaðarauka og verið illframkvæmanlegt nema með verulegum kostnaði. Í þeim efnum viljum við fara mjög gætilega, eyða ekki meira en brýn þörf er á.

Ég held að það hafi verið misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni, Birni Dagbjartssyni, að það stafi einhver sérstök hætta af frystitogurum í þessu efni, en ég veit um áhuga hans á því að koma með alla afurð fiskjarins að landi í einhverju formi. Það yrði þá gert á þann veg að því yrði dælt í land ef búið væri að gera það að meltu. Ég hef aftur á móti miklu meiri áhyggjur af því hvernig við förum að því að framkvæma þetta hvað snertir t.d. netabáta sem koma með óslægðan afla að landi. Þar er mjög algengt að misjafnlega mikið blóðvatn kemur út í lensingu, svo að ég noti sjómannamálið, og það vill fylgja lifur og annað sem hlýtur að mynda feiti í höfnunum. Þetta sér maður í stórum netalögnum. Á sama hátt er þetta mikið vandamál með t.d. löndun loðnu, hvort heldur er landað með sjódælingu eða þurrdælingu. Því sem kemur upp til verksmiðjanna, á bryggjurnar eða í löndunartæki er hægt að halda alveg frá, en verra er með það sem skipin þurfa að losna við sjálf, þ.e. í lensingu, því að undir þann leka er ekki hægt að setja nema með miklum tilkostnaði. Það er að vísu fyrir hendi tæki til að skilja smurolíu frá lensivatni úr vélarrúmi og öðru, en ekki neinar skiljur, nema með miklum kostnaði, eða skilvindur sem tækju allt. Þarna yrði verulegur kostnaður við að halda höfnunum algerlega hreinum.

Þetta vildi ég benda á þannig að við stígum ekki þetta skref án þess að skoða málið betur. Málið fer til nefndar sem ég á sæti í, en það er sama. Ég vildi benda strax á að þarna er víðáttumikið mál á ferðinni, ef svo má segja, sem þarf að huga vel að.

Ég er síður en svo að mæla bót því ástandi sem er víða í höfnum landsins. Því er mjög ábótavant. Ég fagna því ákvæði sem leggur þá kvöð á hafnarstjórnir eða bæjaryfirvöld að byggja upp aðstöðu fyrir flotann í höfnunum til að geta losað sig við ýmsan úrgang sem liggur iðulega í drasli og fer í sjóinn meira af en þyrfti að vera, hreinlega vegna þess að það er ekki aðgengileg aðstaða til að losna við drasl frá bátum eða skipum, sem bæði eru í viðgerðum og ýmsu öðru, sem þeir þurfa að koma frá. Þess vegna fagna ég því og tek undir það, sem ráðherra sagði, að hafnarsjóðir ættu að fá 75% styrk til slíkra framkvæmda eða uppbyggingar á slíkri aðstöðu og það þyrfti að benda hafnaryfirvöldum mjög rækilega á það. Þá held ég að kæmi fyrr skriður á þessi mál og menn færu að gera betur í þessum efnum en er nú. Við sjáum allt of víða að ýmsum efnum er lætt í sjóinn vegna þess að menn láta undir höfuð leggjast að nota bíla til að koma úrgangi í burtu. Nær væri að hafnaryfirvöld á hverjum stað gætu bent þeim hiklaust á ákveðna staði sem lægju það nærri að það væri engum ofverk að gera slíkt.

Ég er heldur ekki enn þá búinn að átta mig á orðinu „varp“. Það er áreiðanlega mjög íslenskt en það verður óþjált í meðferð þegar menn fara að ræða um að varpa einhverju þarna fram og aftur.

Ég fagna því að þetta frv. er komið fram. Það er hægt að takast á við ýmis innri vandamál hjá höfnunum og koma upp aðstöðu til að hafa það snyrtilegra og betra. Hins vegar sé ég fram á ýmsa erfiðleika í þessu máli sem verður nokkuð dýrt í framkvæmd.