25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

155. mál, lækningarmáttur jarðsjávarins við Svartsengi

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fyrirspurnin á þskj. 169 hljóðar svo: „Hverjar eru niðurstöður rannsóknar, sem gerð var á vegum heilbrrn. á liðnu sumri, á lækningarmætti jarðsjávarins við Svartsengi?"

Landlæknisembættið hefur unnið að þessari rannsókn mánuðum saman. Tilgangurinn var að kanna hvort reglubundin böðun í hinu svokallaða Bláa lóni í fjórar til sex vikur hefði bætandi áhrif á psoriasis. Hér var um forrannsókn að ræða og samvinna var við Samtök psoriasis- og exemsjúklinga, húðsjúkdómalækna og við Landspítalann um alla framkvæmd rannsóknarinnar. Frá miðjum júlí fram í septemberbyrjun böðuðu 10 einstaklingar sig reglulega í Bláa lóninu. Þar sem sá hópur þótti of lítill til að hægt væri að draga ályktanir um árangur var í byrjun september óskað eftir fleiri þátttakendum. 14 einstaklingar voru í þeim hópi sem þá myndaðist. Fjöldi skipta sem hver einstaklingur baðaði sig var mjög mismunandi, 12-44 skipti. Niðurstöður sem liggja fyrir úr þessum hluta rannsóknarinnar eru þær að hjá flestum hafa útbrot minnkað, afhreistrun verið allgóð og töluvert dregið úr kláða. En eins og menn vita fylgja þau einkenni þessum sjúkdómi. Hins vegar varð einn einstaklingur að hætta þátttöku þar sem útbrot og kláði jukust og tvo varð að leggja inn á sjúkrahús að lokinni meðferð þar sem líðan versnaði. Enginn hefur alveg gróið við meðferðina.

Landlæknisembættið hefur litið á þennan hluta rannsóknarinnar sem forrannsókn og því talið nauðsynlegt að fara út í ítarlegri rannsókn. Forsendur þess eru einkum að forrannsókn hefur ekki fært sönnur á árangur böðunar en gefið vísbendingu um jákvæðan árangur.

Vitanlega er vísbending ekki nægileg í þessu tilfelli. Við verðum að fá meiri vitneskju. Gerð hefur verið rannsóknaráætlun um samanburðarrannsókn í samvinnu við húðlækningadeild Landspítalans. Tilgangur þeirrar rannsóknar er að kanna lækningarmátt jarðsjávarvatns við Svartsengi með því að bera árangur af daglegri böðun í Bláa lóninu í þrjár vikur saman við hefðbundna meðferð á psoriasis á göngudeild húðlækningadeildar Landspítalans. Þátttakendur eru valdir út frá ákveðnum skilyrðum og þeim skipt í tvo hópa og hending ræður í hvorum hópnum einstaklingurinn lendir.

Niðurstaðna úr þeirri rannsókn er að vænta á þessu ári en þær liggja því miður ekki enn þá fyrir. Ég hef margoft spurt um þessar niðurstöður þannig að það er alveg ljóst að á það er knúið að fá þessa vitneskju. Því miður hafa fagmenn ekki treyst sér til að ljúka þessum niðurstöðum enn þá þannig að á þeim væri nægilega byggjandi, og ég tel sjálfsagt að við dokum enn við til þess að fá þeim mun áreiðanlegri niðurstöður.

Svona stendur málið og það er mála sannast að svari við þessari fsp. hefur verið frestað æ ofan í æ því ég hef ævinlega búist við að niðurstaðna væri að vænta a.m.k. fyrir næsta fyrirspurnafund. En þar sem niðurstöðurnar lágu ekki fyrir enn þá vildi ég skýra frá því, herra forseti, hvernig þetta mál stæði. En að sjálfsögðu yrði það kynnt Alþingi, e.t.v. með skriflegum hætti, þegar niðurstöðurnar liggja fyrir, undir eins og það verður.