25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (2351)

254. mál, endurskoðun fjarskiptalaga

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans. Það kemur skýrt fram í þeim að endurskoðun fjarskiptalaganna er ekki hafin heldur hefur eingöngu verið unnið að samningu reglugerða. En tilefni fyrirspurnar minnar er það að í fyrra þegar útvarpslögin voru hér til umræðu var brtt. um boðveitur vísað á bug af þáv. hæstv. menntmrh. vegna þess að verið væri að endurskoða fjarskiptalögin, og ég sé mig knúinn til, herra forseti, að vitna hér í þingtíðindi frá 12. júní 1985, þar sem hæstv. þáv. menntmrh., núv. heilbr.- og trmrh. sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Annað atriði, sem umdeilt hefur verið og þá einkanlega á milli hv. þm. Alþfl. og annarra, varðar eignarhald á boðveitum. Í fyrsta lagi held ég að hv. þm. séu nú allir sammála um að ákvæði um boðveitur eigi í eðli sínu heima í fjarskiptalögum. Ég tel að við verðum að virða hina stjórnskipulegu verkaskiptingu milli ráðuneyta og þess vegna tel ég að það sé sjálfsagt að fela þetta verkefni samgrh. Við höfum æskt þess, sjálfstæðismenn, við hann að hin nýja nefnd sem vinnur að endurskoðun nýju fjarskiptalaganna taki þetta efni sérstaklega til meðferðar.“

Sá sem þetta mælir kallaði þá fram í: „Hefur sú nefnd verið skipuð?" Hæstv. þáv. menntmrh. svaraði: „Það má ég segja að hæstv, ráðherra," - hann á þá við hæstv. núv. samgrh. - „sem því miður fór utan í morgun, hefur margítrekað, bæði á flokksfundum og ég veit í viðtölum við hv. nm. og raunar í svari við fsp. fyrr í vetur, hver hans meginskoðun er á eignarhaldi þessara fjarskipta.“

Hér kemur sem sagt í ljós, herra forseti, að hæstv. menntmrh. í fyrra sagði okkur hv. þm. í Ed. að yfir stæði endurskoðun fjarskiptalaga. Nú kemur hæstv. samgrh. hér í stólinn og segir okkur að þessi endurskoðun sé ekki enn hafin. Það var aðalröksemd þeirra sjálfstæðismanna að fresta bæri öllum ákvörðunum um að taka boðveituákvæðið inn í útvarpslögin vegna þess að verið væri að endurskoða fjarskiptalögin. Nú er einfaldlega komið í ljós að sú staðhæfing að verið væri að endurskoða fjarskiptalögin var ekki sönn. Þm. í Ed. var hreinlega ekki sagt satt um það sem var að gerast. Hæstv. þáv. menntmrh. sagði orðrétt og ég ítreka það: „Við höfum æskt þess, sjálfstæðismenn, við hann að hin nýja nefnd sem vinnur að endurskoðun nýju fjarskiptalaganna taki þetta efni sérstaklega til meðferðar.“ Þetta er bara alrangt. Það var engin endurskoðun komin í gang og hún er ekki komin í gang enn þá og þessi fsp. hefur sem sagt leitt það í ljós að sú endurskoðun sem okkur var sagt í fyrra að væri hafin er ekki hafin enn.