26.02.1986
Neðri deild: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2789 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er framhald umræðu um mikilsvert mál, þar sem er frv. til sveitarstjórnarlaga og sitt hvað sem því tengist. Ég ræddi þetta lítillega við 1. umr. málsins og nú erum við komin í 2. umr. og fyrir liggja nál. og brtt. við frv., m.a. frá meiri hl. félmn. Ég hefði kunnað því vel, herra forseti, ef við umræðuna væri einnig viðstaddur, auk hæstv. félmrh. sem hér situr dyggilega, talsmaður meiri hl. félmn. því ég geri ráð fyrir því að víkja í máli mínu einhverjum orðum að tillögum meiri hlutans og inna hv. 2. þm. Reykv. eftir viðhorfum í því sambandi. (Forseti: Vegna þessara ummæla hv. ræðumanns skal það upplýst að hv. 2. þm. Reykv., sem var frsm. félmn., er því miður fjarstaddur eins og er og lét þess getið. En staðgengill hans er hér, hv. 3. þm. Norðurl. e., og mun svara fsp. ef fram verða bornar, og þá er spurning hvort það nægi.) - Virðulegur forseti. Ég mun láta mér það nægja í bili a.m.k., en kannske rætist úr með viðveru hv. 2. þm. Reykv. og við sjáum þá til.

Ég vil í mínu máli aðallega gera grein fyrir brtt. sem ég flyt við þetta frv. á þskj. 545. En áður en að því kemur ætla ég þó að víkja að nokkrum þáttum málsins almennt eins og það liggur nú fyrir og sérstaklega brtt. af hálfu hv. félmn. Ég tel að eins og frv. liggur fyrir með brtt. meiri hlutans þá sé hér sannarlega orðið um veigalítið frv. að ræða. Það stendur í rauninni sáralítið eftir í þessu frv. sem stóru máli skiptir, hvað þá að tíðindum sæti, og sumt í rauninni fært til verri vegar og það allverulega frá því að frv. lá hér fyrir til 1. umr.

Það hefur líka komið hér fram við umræðuna og í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. að þetta frv. sé engan veginn fullrætt í öðrum þingflokki stjórnar, stuðningsflokki ríkisstj., þ.e. í þingflokki sjálfstæðismanna. Ég vænti að menn hafi lagt eyra við þessum orðum hv. 1. þm. Norðurl. v., því það sætir vissulega nokkrum tíðindum að hér skuli vera komið stjfrv. út úr nefnd án þess að þingflokkur sjálfstæðismanna sé búinn að taka til þess afstöðu. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hvatti ítrekað og eindregið í sínu máli til þess að ekki yrði reynt að knýja frv. fram með þeim hætti sem fyrir liggur og fram hefur komið frá talsmanni meiri hl. félmn., þ.e. að frv. verði lögfest hér í þeim búningi sem það kemur í frá meiri hl. félmn. á næstu dögum, fari héðan út úr þingdeild í þessari viku og síðan í gegnum Ed. þingsins í næstu viku ef ég hef getið rétt í málflutning talsmanns félmn. Þetta eru vissulega ótæk vinnubrögð, svo ekki sé meira sagt, í stóru máli og sannarlega í frásögur færandi hvernig stjórnarliðið stendur að þessu máli. Ég tek eindregið undir þær kröfur sem fram komu í máli síðasta hv. ræðumanns, Pálma Jónssonar, um að ekki verði reynt að taka afstöðu til þessa frv. eins og það liggur hér fyrir af hálfu meiri hl. heldur skoði menn sinn gang og leiti að þeim atriðum sem nauðsyn er talin á að lögfesta, tæknilegum atriðum svo sem varðandi kosningaaldur og kosningadag til sveitarstjórna, en ég hygg að það séu í rauninni þau atriði sem að mati meiri hl. félmn. reka á eftir í þessu máli og annað ekki, því að um alla aðra þætti skiptir auðvitað ekki nokkru máli hvort þeir fara í gegn hér fyrr eða síðar, þar sem í verulegum atriðum er verið að fjalla um tæknileg atriði sem mörg hver eru raunar þegar orðin hefðbundin í meðferð sveitarstjórna og í samskiptum milli sveitarstjórna.

Ég vil taka það fram að ég er eindreginn stuðningsmaður þess, eins og ég hygg að sé um flesta alþm., að kosningaaldur til sveitarstjórna verði hinn sami og til Alþingis, en hitt get ég ekki látið hjá líða að nefna að mér finnst að tillögurnar varðandi kjördag til sveitarstjórna séu harla kynlegar og sérstaklega sú niðurstaða, sem hér birtist í till. meiri hl., að hafa annan kjördag til sveitarstjórna í þéttbýli en gert er ráð fyrir í alþingiskosningum. Ég hef ekki heyrt nokkur frambærileg rök fyrir því að gera þarna tillögu um annað og hygg að hér sé eitt dæmið um það hvernig flokki hæstv. félmrh. er þröngvað í máli sem þessu, líklega að vilja borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík, hentugleika Davíðs borgarstjóra um að láta kjósa fyrir lok maímánaðar en ekki annan laugardag í júní eins og lög gera ráð fyrir varðandi alþingiskosningar og raunar er gert ráð fyrir heimild til varðandi dreifbýlishreppa í landinu.

Ég ætla ekki að gera stórt mál úr þessu út af fyrir sig, en þetta er þó dæmi um einkennileg vinnubrögð að mínu mati og algerlega ástæðulaus. Það getur dregið til þess hvenær sem er að kjósendur í landinu þurfi að ganga að kjörborði með hálfs mánaðar millibili, annars vegar til að kjósa sveitarstjórnir og hins vegar til að kjósa til Alþingis. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hví ætla menn landsmönnum að búa við slíkt? Hvaða ástæða er til þess? Ég bið hv. 2. þm. Reykv., talsmann meiri hl., um rök í þessu máli og ég bið hann og einnig hæstv. félmrh. um að greina okkur frá hvort það sé tillaga beggja stjórnarflokkanna að standa svona að máli.

Í sambandi við sýslunefndir og það sem lagt er til um þau efni samkvæmt tillögum meiri hl. er þar sannarlega á ferðinni afturfótafæðing og hin mesta hrákasmíð sú tilhögun sem þar er lögð til um breytingar frá ríkjandi kerfi sem ég tek alveg undir að ástæða er til að breyta og tek inn í brtt. sem ég flyt við frv. að sýslunefndir verði af lagðar með þeim hætti sem þar er gert ráð fyrir. En sú tilhögun sem till. meiri hl. félmn. gera ráð fyrir um þetta efni eru sannarlega kynlegar, svo ekki sé meira sagt, og nær hefði verið að láta núverandi kerfi þó gilda áfram en hrapa að þeim breytingum, mjög óljósum og loðnum, sem þar eru fram settar um niðurlagningu sýslna og tilkomu héraðsnefnda á rústum þeirra. Ætla ég ekki að fara að rekja þann lopa hér nánar. Menn hafa heyrt um hann og menn hafa lesið sér til um hann.

Í þessu frv. er sáralítið að finna sem treystir stöðu sveitarfélaga í landinu, hvað þá landsbyggðarinnar í heild. Ég vildi fá rök fyrir því og dæmi um það hvaða stórmerki það eru í þessu frv. sem réttlæti þá málsmeðferð sem hér er lögð til og hvaða verulegur styrkur sveitarfélögum vítt um landið er í þeim breytingum sem hér liggja fyrir. Ég get alveg tekið undir að hér eru ýmis atriði sem eru til bóta á gildandi sveitarstjórnarlögum, minni háttar atriði, en þau sæta ekki tíðindum og breyta í rauninni engu varðandi stöðu sveifarfélaganna, engu teljandi. Frv. um tekjustofna sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga liggur ekki fyrir og það er þó kannske það mál sem einhverju skiptir, eða við skulum ætla það, um þær tillögur sem hæstv. félmrh. hefur boðað að liggi fyrir innan fárra daga. Hann sagði okkur á síðasta fundi Nd., hæstv. ráðh., að tillögur hans um þetta efni mundu liggja fyrir upp úr mánaðamótum og þau eru skammt undan. Mér finnst það í rauninni óhæfa að vera að fjalla um þetta mál sér á parti án þess að við höfum fyrir okkur tillögur ríkisstj. og stjórnarliðsins um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofna sveitarfélaga. Það er enn eitt atriði sem rennir stoðum undir það viðhorf að menn eigi ekki að hraða afgreiðslu þessa máls hér í þinginu.

Ég vil þá varpa fram þeirri spurningu: Hvernig getum við þm. af landsbyggðinni í rauninni setið hér í þinginu, staðið í ræðustól og fjallað um þessa frumvarpsómynd ríkisstjórnarliðsins með tilliti til þess sem er að gerast á landsbyggðinni og með tilliti til þess sem við þyrftum að vera að fjalla hér um til þess að bregðast við þeirri vá, þeim ótíðindum sem við heyrum viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og fáum æ gleggri upplýsingar um hvert stefnir fyrir landsbyggðina? Við höfum fengið enn einar upplýsingarnar frá Hagstofu Íslands enn eitt árið í viðbót sem sýna ljóslega hvert stefnir í fólksflutningum í landinu. Hv. þm. hafa kynnt sér þau efni og ég ætla hér ekki að fara að hafa uppi langt mál um þá hluti, en breytingarnar á síðasta ári varðandi fólksflutninga í landinu og íbúafjölda eru viðbót við það sem hefur verið að gerast á undanförnum árum. Eftir stutt jafnvægisskeið í íbúatölu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu á árunum 1975-1980 eða svo, hefur verið hraðfara öfugþróun síðan, versnandi frá ári til árs, Íslandsmet slegið árið 1984 í þessum efnum þegar 1113 manns umfram aðflutta fóru frá landsbyggðinni, féllu út af íbúaskrá á landsbyggðinni, en höfuðstaðurinn tók þessa tölu og alla aukningu í fólksfjölda til viðbótar. Hún er 3500 manns nettófækkunin á landsbyggðinni frá 1980 talið. 1113 1984, á því eina ári, og á síðasta ári töpuðu Vestfirðir 212 íbúum. 212 var fækkunin á Vestfjörðum. Í Austur-Skaftafellssýslu einni saman 59 talsins. Það varð fækkun í öllum hreppum þar í sýslu nema einum og þar á meðal í þéttbýlinu á Höfn í Hornafirði. Þetta er dæmi um öfugþróun sem er slík að við þm. og umbjóðendur landsbyggðarinnar hér á Alþingi verðum að líta á þessi mál í ljósi slíkra talna.

Annað er það sem við blasir. Það er hvernig háttar um undirstöður atvinnulífs út um landið alveg sérstaklega. Hvernig komið er málefnum undirstöðugreina í atvinnulífinu í landinu, undirstöðu sem er að meginhluta úti á landsbyggðinni, rekstrarstaða og hagur fyrirtækja í sjávarútvegi. Um það hafa verið rakin dæmi hér. Ég ætla ekki að tíunda þau hér og nú. En mér sýnist að það sem er til umræðu í þjóðfélaginu núna séu engin sérstök fagnaðartíðindi heldur í þeim efnum, t.d. fyrir stöðu fiskiðnaðarins í landinu. Við höfum nýlega rætt hér hvar komið er í landbúnaði og hvert stefnir í landbúnaði. Hvaða áhrif skyldi það hafa á byggðaþróunina í landinu? Hvað ætli þeim fjölgi sveitarfélögunum á næstu árum þar sem íbúunum fækkar? Mörkin sem menn eru að tala hér um, 50, 100, 200, úreldast því ansi fljótt er ég hræddur um. Iðnaðarfyrirtæki á landsbyggðinni eru að hrynja hvert af öðru, stoppa rekstur, í gær á Akureyri, í dag í Vík í Mýrdal, svo dæmi séu tekin um það hvað er að gerast í iðnaði, og jafnvel verslunin, ef treysta má upplýsingum frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, verslunin í dreifbýli er sögð á horriminni á sama tíma og verið er að byggja yfir hektara í einu verslunarmusteri hér í Reykjavík, og er raunar verið að reisa slík musteri á einum tíu svæðum í borginni og sum hver kannske komin í gagnið sem eru innifalin í þeirri tölu.

Þetta er einn þátturinn í stöðunni á landsbyggðinni sem við ættum að vera að ræða hér í staðinn fyrir það frv. sem hér á að knýja í gegn á næstu dögum.

Hvað segja okkur upplýsingar um framlög ríkisstjórnarmeirihlutans til opinberra framkvæmda í landinu, framkvæmda sem skipta sköpum fyrir byggðarlögin út um land? Um það fengum við svör alveg nýlega frá hæstv. fjmrh. Þau er að finna á þskj. 521, svar við fsp. frá mér um hver hafi verið þróun opinberra framlaga á fjárlögum frá árinu 1982 til ársins 1986 að telja, m.a. reiknað á föstu verðlagi ársins 1986. Þar blasir við sú mynd, sem ég ætla ekki að rekja hér í einstökum atriðum, að í stórum og mikilvægum þáttum hefur orðið 100% rýrnun og meira að raungildi á framlögum til stórra málaflokka opinberra framkvæmda þar sem ríkið stendur að málum með sveitarfélögunum. Í mennta- og fjölbrautaskólum hafa framlögin rýrnað frá árinu 1982 úr 123 millj. röskum niður í 54 millj. 1986. Í byggingum grunnskóla hafa þau rýrnað úr 218 millj. röskum niður í 120 millj. á þessu árabili. Í dagvistarheimilum, þar sem þó liggur fyrir staðfest áætlun um átak, hefur rýrnunin orðið úr tæpum 50 millj. í 40 millj., í byggingu sjúkrahúsa úr 403 millj. röskum niður í 240 millj . á sama árabili, til hafnarmannvirkja og lendingarbóta úr 271 millj. niður í 118 millj. 1986, til flugvalla úr 103 millj. niður í 61 millj. Ja, þetta eru nú tíðindi. Þetta eru svörin frá hæstv. fjmrh. Þau verða væntanlega ekki vefengd, enda gerð á grundvelli reynslunnar og liðins tíma og samþykkta varðandi fjárlög yfirstandandi árs.

Og hvernig skyldu málin standa í sambandi við húsbyggingar, byggingu íbúðarhúsnæðis, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni á undanförnum árum? Ég hef hér, herra forseti, fyrir framan mig tölur um þessi efni, sem ég hef fengið frá Húsnæðisstofnun ríkisins, og ég vil leyfa mér að nefna nokkrar tölur úr því yfirliti, sem ég fékk frá Húsnæðisstofnun fyrir nokkrum vikum, um byggingarstarfsemina á undanförnum árum yfir tímabilið frá 1978 til 1984 og sumpart lengra aftur í tímann. Hvað kemur fram á því yfirliti? Örfá dæmi:

Fyrst varðandi fjölda íbúða sem byrjað var á árlega á þessum árum. Árið 1978 var byrjað á 1065 íbúðum á landsbyggðinni, 1209 í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Hlutföllin voru: 47% á landsbyggðinni, 53% í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Samtals var byrjað á 2274 íbúðum þetta ár. Síðan er öfugþróun sem hefst á árinu 1981, en fer hraðfara versnandi síðan frá ári til árs og árið 1984, því tölurnar fyrir árið 1985 eru ekki komnar, er staðan þessi: Það var byrjað á 387 íbúðum á landsbyggðinni samtals á árinu 1984, en á Reykjavíkursvæðinu 1348. Hlutföllin eru komin niður í 22% af heildarfjölda íbúða sem byrjað er á á landsbyggðinni, en í 78% í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Talan lækkar á landsbyggðinni nær þrefalt, en hækkar tölulega í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, á því svæði sem við gjarnan köllum höfuðborgarsvæðið þó að Suðurnes séu þar vissulega í nokkrum sérflokki.

Og aðeins til viðbótar við þetta - ég mun veita mönnum aðgang að þessum tölum því þær eru upplýsandi um stöðuna og þróun í hverju einasta kjördæmi á landinu - varðandi fjölda íbúða sem fengu frumlán á þessu tímabili:

1978: Á landsbyggðinni voru veitt frumlán til 898 íbúða, í Reykjavík og Reykjanesi á sama ári 985. Hlutföllin 48% á móti 52% í seinna tilvikinu, Reykjavík og Reykjanes. 1984: Hæstv. félmrh. Hver ætli hlutföllin séu þá? Þá eru veitt frumlán til 362 íbúða á landsbyggðinni, en 1117 í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Hlutföllin eru 24,5% á móti 75,5%. (Félmrh: Það hafa allir hv. þm. undir höndum þessa skýrslu frá Húsnæðisstofnun). Það er ágætt, en það er líka ástæða til að koma þessari þróun á framfæri í sambandi við þá umræðu sem hér fer fram um sveitarstjórnarmál og það sem við þyrftum að vera að gera í þeim efnum. Það getur vel verið að hæstv. félmrh. finnist slæmt að heyra þessar tölur hér úr ræðustól og fá þær inn í þingtíðindi, en það væri ástæða til að lesa miklu fleiri um þróunina á þessum tíma og er ég þó ekkert sérstaklega að sakast við hæstv. félmrh. í sambandi við þessi efni. Hann hefur víst nóg að bera samt þó ég sé ekki að bæta þar á frekar í sambandi við umræðu um þetta frv.

Þetta segir ekki alla sögu. Þróunin varðandi verð fasteigna á landsbyggðinni, hver hefur hún verið? Við höfum fengið upplýsingar um það nýlega að markaðsverð fasteigna miðað við brunabótamat hefur farið hríðlækkandi að undanförnu. Mig minnir hlutfallið á Akureyri vera 68% og ég veit að víða úti um landið er það komið enn þá neðar, niður undir 60%, kannske enn þá neðar, þannig að veð eru ekki lengur til fyrir lánunum sem mönnum bjóðast í þessum efnum, enda skortir það ekki á í húsnæðismálum að lán standi til boða, það er annað sem við er að glíma þar, lánstími, vaxtakjör og misgengi.

Skólamálin hafa líka verið rædd hér í þinginu. Hvernig ætli staðan sé í þeim stóra málaflokki, annars vegar landsbyggð, hins vegar Reykjavíkursvæðið? Varðandi kennara með réttindi annars vegar og hina sem ekki hafa réttindi til kennslu standa mál þannig að í heilum landshlutum er það aðeins um helmingur kennara í skólum sem er með full réttindi til starfa og ástandið víða eftir því. Þó að ég taki skýrt fram að réttindamælikvarðinn einn segir engan veginn alla sögu, menn geta verið ágætlega starfi vaxnir þó þeir hafi ekki fengið ýtrustu réttindi, er þetta þó á heildina litið hin uggvænlegasta þróun.

Undirrót að þessari stöðu á landsbyggðinni er í fyrsta lagi stefna núverandi stjórnarflokka, ríkisstjórnarstefnan í atvinnumálum, í húsnæðismálum, í menntamálum og raunar nánast hvar sem á mál er litið, í atvinnumálum ekki síst, en það er líka röng stefna um langt árabil varðandi uppbyggingu stjórnsýslu, hinnar opinberu stjórnsýslu í landinu. Þar er ekki núverandi ríkisstjórn ein í sök. Þær rætur liggja lengra til baka. En erum við að fá einhverja bót í þeim efnum í þeim frv. sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir yfirstandandi þing? Hvernig líta málin út ef við lítum á frv. um Stjórnarráð Íslands sem nýlega var rætt hér í hv. deild? Það er jafnvel enn þá ómerkilegri pappír en það frv. sem hæstv. félmrh. lagði hér fyrir og hefur versnað í meðförum meiri hl. félmn. Frv. um Stjórnarráð Íslands skiptir nánast engu máli, enda eins víst að það sofni í meðförum og væri bættur baginn. - Hv. 2. þm. Norðurl. v. kom hér í gættina. Hann hefði gjarnan mátt taka þátt í þessari umræðu og hlýða á hana.

Hvernig standa mál varðandi störf hinnar svonefndu byggðanefndar þingflokkanna? Hv. 7. landsk. þm. ræddi það í sínu máli áðan, gerði því nokkur skil. Ég vil taka undir hennar málflutning að því leyti og reyndar í flestum ef ekki öllum efnum sem hún vék að í sínu máli. En byggðanefnd þingflokkanna, sem sett var á laggirnar líklega fyrir einum tveimur árum, hefur ekki komið saman í heila átta mánuði, ekki verið kvödd til fundar í átta mánuði. (Gripið fram í.) Það er full ástæða til, hv. þm. Karvel Pálmason, að ræða þau efni hvernig að þeim málum hefur verið staðið. Þessi þingnefnd undir forustu Lárusar Jónssonar bankastjóra og fyrrv. alþm. hefur ekki verið kvödd saman um átta mánaða skeið, nefnd sem samkvæmt yfirlýsingum ríkisstj. og formanna þingflokkanna átti að bæta úr ýmsum þeim efnum sem á hallaði í sambandi við meðferð frv. um kosningar og afgreiðslu kosningalaga. Ég ætla ekki að ræða þau efni hér sérstaklega, en það er óhjákvæmilegt að gagnrýna þessi dæmalausu vinnubrögð. Ég hef að vísu séð þær hugmyndir sem fyrir liggja í drögum frá starfsmanni þessarar nefndar, drög sem ekkert hafa verið rædd fyrr en nefndin loks var kvödd til fundar í gær eftir átta mánaða hlé, en mér sýnist að það vanti ansi mikið á að fyllt verði upp í eyðurnar í þeim hugmyndum sem þar liggja fyrir frá starfsmanni nefndarinnar, enda órætt mál í byggðanefnd þingflokkanna og mikil bjartsýni í rauninni hjá hv. 7. landsk. þm., ég hygg að það hafi komið fram í hennar máli, að það yrði kannske til skýrsla fyrir vorið, fyrir þinglok sem skipti einhverju máli. (KH: Ég lýsti nú ekki bjartsýni.) Kannske er það mistúlkun, en ég get a.m.k. ekki tekið undir slíka bjartsýni í þeirri stöðu sem mál eru fyrir þessari nefnd. Það er ástæða til að gagnrýna þessa stöðu verulega.

Herra forseti. Við þurfum á því að halda í ljósi þeirrar þróunar sem ég hef hér verið að rekja, og það er ekki að ástæðulausu að ég tengi það þessu máli, að hér verði gripið til aðgerða strax, aðgerða sem máli skipta, með lagasetningu á Alþingi og með ákvörðun af hálfu ríkisstjórnar og framkvæmdavalds til að stemma stigu við þeirri háskalegu þróun sem nú er í gangi varðandi hag landsbyggðarinnar og ég trúi ekki öðru en að þm. í öllum flokkum á Alþingi deili þessum áhyggjum með mér og átti sig á því að hér stefnir í slíkan ófarnað með búsetu út um landið, atvinnulíf og eignir manna að það er skylda okkar á Alþingi að taka á þessum málum hér og nú.

Ég hef, herra forseti, lagt hér fram till. á þskj. 545 til breytinga á þessu frv. til sveitarstjórnarlaga og vil leyfa mér að mæla fyrir þeirri brtt. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni.) Herra forseti. Ég hef farið almennt yfir sviðið í aðdraganda þess að ég ætla að mæla fyrir brtt., en það tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma. Að öðru leyti hef ég í rauninni lokið meginhluta af minni ræðu. (Forseti: Klukkan er nú fjögur og það er auglýstur þingflokksfundatími, en ef hv. ræðumaður verður ekki mjög lengi að þessu höfum við enn kannske tíu mínútur.) (FrS: Er ekki rétt að byrja á kjarna málsins á næsta fundi?) Ég legg það í vald forseta. Ég hygg að tíu mínútur nægi mér ekki því málið er allstórt sem hér er fjallað um og er alveg reiðubúinn að taka þráðinn upp í byrjun næsta fundar. (Forseti: Ef svo er vinnst ekki tími til að ljúka þessari umræðu nú eða þeirri ræðu sem verið er að flytja. Ég fer fram á það við hv. ræðumann að geyma ræðulokin til morguns.) Það er velkomið, herra forseti.

Umr. frestað.