27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2842 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

Kjarasamningar

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson:

) Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mjög, enda ekki beint til mín mörgum spurningum.

Ég verð að segja að mér þykir leitt að heyra hvað þessi tímamótasamningur veldur flestum í stjórnarandstöðunni miklum vonbrigðum, eins og kom fram í þeirra máli, nema hv. frummælanda. Þetta er kannske skiljanlegt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni eftir þær miklu yfirlýsingar sem hann gaf t.d. í sjónvarpinu 4. febrúar í þessu sambandi. Hv. þm. sagði að hér væri ekki staður eða stund til að fara út í almennar umræður um stjórnmál þó að í raun væri ræða hans öll hin harðasta árás á ríkisstj. og ekkert annað, en það verða vonandi tækifæri til að ræða það síðar.

Ég vil hins vegar segja við hv. þm. að að mínu mati er miklu skynsamlegra að semja á hinum almenna vinnumarkaði um ýmsar þær aðgerðir sem hefur verið fjallað um hér á þingi. Það er miklu betra að samkomulag náist en að þvinga slíkt fram með lögum. Það kann stundum að vera nauðsynlegt, en almennt held ég að þetta sé betri leið.

Ég er honum algerlega ósammála og öðrum sem hér hafa talað í þeim dúr að þessir samningar séu vantraust á ríkisstj. Þessir samningar eru gerðir í skjóli ríkisstj. og lýsa því fyrst og fremst að þessari ríkisstj. er treyst til að framkvæma þær aðgerðir sem um er fjallað og hér hefur verið lýst.

Ef hv. þm. halda að ekkert samráð hafi verið við aðila vinnumarkaðarins þegar þetta er unnið er það alrangt. Að sjálfsögðu hefur það verið. Ég hef áður vakið athygli á því að ég nefndi einna fyrstur að nú væri orðinn töluverður viðskiptakjarabati og grundvöllur til að taka öðruvísi á þessum málum.

Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir vildi fá að vita hvers vegna ríkisstj. hefði ekki þegar og án þess að aðilar vinnumarkaðarins kæmu að því, lækkað ýmis gjöld og ýmsa opinbera taxta þegar þessi viðskiptakjarabati lá fyrir. Því er til að svara að að sjálfsögðu verða slíkar aðgerðir að haldast í hendur við það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði. T.d. leyfi ég mér að fullyrða að ef samið hefði verið um launahækkanir eins og fyrst komu fram hjá Alþýðusambandi Íslands, þ.e. 10, 7, 7, 7, hefði hér orðíð verðbólga, þrátt fyrir þennan bata, ekki undir 30% og líklega vel yfir og aðgerðir til að lækka ýmis opinber útgjöld og opinbera taxta og skatta verið til lítils eða óraunhæfar.

Hér er því lögð á það megináhersla að samræma opinberar aðgerðir og samninga á vinnumarkaðnum. Það er grundvöllurinn að því sem hér hefur gerst. Á það höfum við lagt áherslu frá upphafi og það tókst núna. Ég fagna því sem hér hefur komið fram, t.d. hjá hv. frummælanda, að hann vill greiða götu þessa máls í gegnum þingið. Ég vona svo sannarlega að aðrir stjórnarandstæðingar geri það. Ykkur er svo sannarlega velkomið að fylgjast með framkvæmdinni. Ríkisstj. er ákveðin í því að standa við sinn hluta í þessum samningum.