27.02.1986
Efri deild: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2857 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Fyrir jól samþykktum við hér á Alþingi fjárlög fyrir árið 1986. Við gengum einnig frá lánsfjárlögum fyrir árið 1986 og í dag, í lok febrúarmánaðar, stöndum við frammi fyrir þriðju fjárlögunum á þessu þingi. Það frv. til laga sem hér birtist í upphafi þingfundar er í raun og veru nokkurs konar endurskoðun á fjárlögunum, á lánsfjárlögunum og öðrum lögum sem tengjast þeim. Þessi nýju fjárlög, þessi þriðju fjárlög sem við erum hér að ræða, voru unnin utan Alþingis og hv. þm. hér í Ed. hafa í besta falli haft u.þ.b. tvo klukkutíma til að kynna sér þau. Um þessi vinnubrögð fjallaði ég í utandagskrárumræðunni fyrr í dag og vísa til orða minna þá, endurtek ekki það sem ég þá sagði.

Um þá samninga sem það frv. sem hér liggur nú fyrir er hluti af má ýmislegt segja og sumt þokkalegt. T.d. hefur í þessum samningum náðst fram það réttlætismál, sem reyndar er ekki stórt eða dýrt en réttlætismál engu að síður, að réttur foreldra til að vera heima hjá veikum börnum sínum hefur nú loksins verið ótvírætt tryggður þótt engan veginn sé ljóst hvort hann nær til þeirra foreldra sem eru í hlutastörfum úti á vinnumarkaðnum. Það gerði ég að umtalsefni hér í hv. deild fyrir fáeinum dögum, þegar frv. sama efnis var hér til umræðu, en miklu máli skiptir að þessi réttur nái til þessa hóps vegna þess að í honum eru konur langfjölmennastar og fyrir þær er þessi réttur hvað mikilvægastur.

Það er út af fyrir sig merkilegt og makalaust, eins og þeir sem á undan mér hafa talað hafa gert að umræðuefni, að lítil réttlætismál eins og þetta, sem hafa verið á ferð hér í þinginu árum saman og hvorki komist lönd né strönd, skuli loksins nást í gegn þegar aðilar uppi í Garðastræti leggja það til við ríkisstj. að nú skuli það gert. Þá hefst það og fyrr ekki. En þetta er samt áfangi sem ég fagna og vil að það komi hér fram.

Mér líst í fljótu bragði ekki illa á þær aðgerðir sem fyrirhugaðar eru í húsnæðismálum, en ég mun samt ekki leggja dóm á þær hér. Ég áskil mér rétt til að athuga betur hvernig þær koma út áður en ég segi nokkuð nánar um það. En ég vil minna á í þessu sambandi að þær 625 millj. kr., sem áætlað er að lífeyrissjóðirnir leggi til húsnæðismálanna, eru fé fólksins í landinu, þær eru fé fólksins sjálfs. Þarna er einfaldlega um að ræða millifærslu á fjármunum launþega, en ekki bein framlög eða aðgerðir af hálfu stjórnvalda.

Reyndar er það einkenni þeirra samninga sem þetta frv. tekur til og er hluti af að kjarabæturnar eru sóttar að stórum hluta til ríkisins sjálfs. Reikningurinn, sem við erum hér að ræða um, það frv. sem hér er til umræðu, hljóðar upp á hvorki meira né minna en 1 milljarð króna. Það er sá reikningur sem við höfum nú fyrir framan okkur. Og hvað er ríkið? Ríkið er fólkið sjálft. Í raun og veru þýðir þetta að launafólk er að sækja kjarabæturnar í sinn eigin vasa. Þetta er stefna sem ég vil hér og nú fyrir hönd Kvennalistans mótmæla.

Ég á ákaflega bágt með að skilja að það séu kjarabætur að færa féð úr sameiginlegum sjóðum landsmanna með óbeinum hætti yfir í launaumslögin. Síst af öllu nú á tímum fyrirsjáanlegs góðæris, góðra viðskiptakjara, lækkunar olíuverðs og annars sem skiptir miklu máli um íslenskan etnahag. Á slíkum tímum væri ofur eðlilegt að kjarabæturnar væru sóttar til þeirra sem launin greiða, þ.e. atvinnurekenda. Og ekki aðeins á slíkum tímum heldur er það eðlileg stefna ævinlega.

En það sem er smánarlegast í þeim samningum, sem hér er um að ræða, eru þær launahækkanir sem þeim lægst launuðu eru skammtaðar. Og hverjir eru þessir lægst launuðu? Jú, það eru konurnar. Ég veit ekki hvort hv. þm. gera sér grein fyrir því en venjulegur saumakonutaxti er í dag 17 060 kr. Við undirritun þessara samninga hækka þessar 17 060 kr. um 5% eða um 853 kr. og verða 17 903 kr., 1. júní bætast 447 kr. við og saumakonan fær 18 350 kr., 1. september fær hún 550 kr. til viðbótar, eða 18 800 kr., og 1. desember er hún komin upp í heilar 19 272 kr. Þetta er það sem þessir kjarasamningar þýða fyrir þá sem lægstu launin hafa. Og ég spyr þá hv. þm. sem sjá ástæðu til að hlýða á þessa umræðu: Hvernig dettur nokkrum manni í hug að hægt sé að lifa af 19 272 kr. á mánuði og það í lok ársins? Hvernig dettur mönnum það í hug, ekki síst þegar Hagstofan reiknar það út fyrir okkur að meðalfjölskylda þurfi nærfellt 70 000 kr. fyrir nauðsynjum á mánuði?

Það sem tekur þó út yfir allan þjófabálk í þessu efni eru sárabæturnar, eins og verkalýðshreyfingin orðar það, fyrir þetta fólk, vegna þess að þetta er fólkið sem hefur farið á mis við launaskriðið. Sárabæturnar, eins og það er orðað af þeim ASÍ-mönnum, vegna þessara hluta eru tvisvar sinnum 3000 krónur á árinu. Þegar ég heyrði þetta fyrst taldi ég að nú hefðu menn loksins fallist á það að fara hina svokölluðu krónutöluhækkunarleið, að þessar 3000 bættust við launin sem föst krónutala, þ.e. að 1. apríl bættust við 3000 kr. og síðan héldu launin þeirri upphæð. En nei, þetta er ekki föst launahækkun, þetta eru nokkurs konar slettur. Það er tvisvar sinnum slett 3000 kr. í saumakonuna á árinu. Þetta finnst mér vera hámark skammarinnar. Og ég vil spyrja: Hvað á saumakonan, sem er kominn með 19 272 kr. í lok ársins í laun og hefur fengið 6000 kr. í sárabætur á árinu, að gera með þær tollskrárbreytingar sem þetta frv. kveður á um um lækkun gjalda á bílum, á bensíni og hjólbörðum? Ég fæ ekki séð að hún geti nýtt sér þetta. Það sem hér er í raun og veru á ferðinni er að það er verið að staðfesta þá láglaunastefnu sem þessi ríkisstjórn hefur rekið á undanförnum þremur árum. Ríkisstjórnin er samábyrg fyrir þeirri staðfestingu vegna þess að hún er þriðji aðilinn að þessum kjarasamningum nú. Og þótt hún sé ekki ein ábyrg fyrir þeim þá er hennar hlutur ekki minni en verkalýðshreyfingar eða atvinnurekenda.

Eins og launamál standa nú er stóra spurningin þessi: Hefur það fólk, sem er í lægstu launatöxtunum, einhverja möguleika á að lifa árið af? Þar fyrir utan er spurningin sú: Hvaða möguleikar eru á því að þær efnahagsaðgerðir, sem þessum samningum fylgja, geti staðist og það markmið í efnahagsmálum, sem sett er með þessum samningum, náist? Til þess tel ég að þurfi þrennt.

Í fyrsta lagi þarf trú fólks á að þessar aðgerðir muni takast. Mikil er nú reyndar oft trú manna en svo oft hafa núverandi stjórnvöld brugðist trausti fólks að það má mikið vera að sá þáttur haldist út það tímabil sem þessir kjarasamningar gilda.

Í öðru lagi er það forsenda þess að þetta geti tekist að gengið verði stöðugt á tímabilinu. Og nú langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh., sem ég sé grilla í hér í hliðarsal, - og ég vona að hann heyri orð mín - hvernig hann hafi hugsað sér að tryggja stöðugt gengi á árinu. Um það hef ég enn ekki heyrt neitt í þessum umræðum en hins vegar vitum við að gengi dollarans er óstöðugt um þessar mundir og væntanlega verður það áfram á þessu ári.

Í þriðja lagi sé ég ekki að í þeim aðgerðum og því samkomulagi, sem hefur verið gert, gefist í raun og veru neitt „garantí“ fyrir því að verðbólgan stansi og færi sig niður í þessi 7-9% sem verið er að semja um. Einn mikilvægur þáttur þess að svo geti í raun og veru orðið er að verðlagi sé haldið í skefjum. Ég hef engar tillögur séð og ekkert heyrt um verðlagseftirlit af neinu tagi eða aðhald í verðlagsmálum - og nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort til standi einhverjar aðgerðir í þeim efnum.

Herra forseti. Ég á sæti í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar og þar mun gefast tækifæri til að fjalla um þetta mál í fyrramálið og væntanlega að lesa það í nótt.