28.02.1986
Neðri deild: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2904 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umræðu, er flutt í framhaldi af samkomulagi sem orðið hefur í fyrsta lagi á milli aðila vinnumarkaðarins og annars vegar á milli þeirra og ríkisstj. um aðgerðir í ríkisfjármálum til þess að greiða fyrir kjarasamningum.

Með yfirlýsingu ríkisstj. frá 11. febr. í framhaldi af málaleitan aðila vinnumarkaðarins, um ráðstafanir af hálfu ríkisstj. til þess að leggja nýjan grundvöll fyrir kjarasamninga í því skyni að semja mætti við lægra verðbólgustig en þjóðhagsáætlun gerði ráð fyrir, bauðst ríkisstj. til að beita sér fyrir lækkun á verði opinberrar þjónustu og lækkun beinna skatta, bæði tekjuskatts og með tilmælum um lækkun á útsvari sveitarfélaga til samræmis við nýjar verðlagsforsendur.

Jafnframt var því lýst yfir af hálfu ríkisstj. að hún væri reiðubúin til frekari viðræðna við aðila vinnumarkaðarins um annars konar aðgerðir af hennar hálfu ef þær samrýmdust þeim efnahagslegu markmiðum sem þetta tilboð ríkisstj. gerði ráð fyrir. Í framhaldi af því komu aðilar vinnumarkaðarins á fund ríkisstj. með erindi um verulega viðbótarfyrirgreiðslu af hálfu ríkisstj., fyrst og fremst í þeim tilgangi að hafa áhrif til lækkunar á verðlag í þeim tilgangi að styrkja þá viðleitni samningsaðila til að bæta kaupmátt við núverandi efnahagsaðstæður og stöðugt gengi.

Ríkisstj. svaraði aðilum vinnumarkaðarins með bréfi dags. 27. febr. þar sem fallist er á þessar aðgerðir sem kosta um 1450 millj. kr. Í því sambandi má geta þess að um 640 millj. kr. verður varið til að fella niður verðjöfnunargjald af raforku og fella niður launaskatt í fiskiðnaði og iðnaði. Um 590 millj. kr. verður varið til að lækka tolla á ýmsum hátollavörum sem vega þungt í neyslu almennings jafnframt því sem tekjuskattur verður lækkaður um 150 millj. kr. til samræmis við breyttar verðlagsforsendur. Þá verður um 200 millj. kr. varið til að lækka verð á búvörum.

Frv. þetta er flutt til þess að fylgja fram efnisatriðum þessa samkomulags. Hjá því getur ekki farið að það hefur veruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs og því var óhjákvæmilegt að fá heimildir til að breyta tekju- og gjaldalið frv. eins og mælt er fyrir um í 1. og 2. gr. þessa frv. Sú breyting verður frá fjárlögum, sem afgreidd voru fyrir þetta ár, að rekstrarafgangur, tekjur umfram gjöld, sem áætlaður var 163 millj. kr., verður að rekstrarhalla upp á 1487 millj. kr.

Þess er að geta í þessu sambandi að eins og frv. var lagt fyrir hv. Ed. var reiknað með því að lántökur frá lífeyrissjóðunum að upphæð 925 millj. kr. yrðu bókfærðar á þann veg að Byggingarsjóður ríkisins tæki þá upphæð alla að láni. En samkomulagið við aðila vinnumarkaðarins byggðist á því að 300 millj. kr. af þessum 925 millj. yrði varið til að auka ráðstöfunarfé byggingarsjóðsins í þágu þeirra sem hafa átt í greiðsluerfiðleikum en ríkissjóður gæti hagnýtt sér 625 millj. kr. til að fjármagna að hluta til þann halla sem verður á rekstri ríkissjóðs vegna þessara ráðstafana sem hér um ræðir.

Með þeirri breytingu, sem orðið hefur á frv. í Ed., er þessi lántaka bókfærð á annan veg, þannig að Byggingarsjóður ríkisins tekur að láni þær 300 millj. kr. sem fara til þess að auka ráðstöfunarfé hans en ríkissjóður tekur 625 millj. kr. að láni. Á móti verður framlag ríkissjóðs til byggingarsjóðsins óskert. En hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða og heildarlántökur opinberra aðila breytast ekki af þessum sökum.

Innlendar lántökur aukast úr 2100 millj. í 3575 millj. en erlendar lántökur verða óbreyttar áfram, 2550 millj., að því er ríkissjóð varðar. Með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í samræmi við breyttar verðlagsforsendur, hefur verið ákveðið að lækka erlendar lántökur til samræmis við nýjar gengisviðmiðanir. Þar að auki hefur verið ákveðið að Framkvæmdasjóður verji 500 millj . af ráðstöfunarfé sínu til að greiða niður erlend lán. Í heild lækka því erlendar lántökur um rúmlega 800 millj. kr. skv. ákvæðum þessa frv.

Í Il. kafla frv. er kveðið á um framkvæmd á lækkun tekjuskatts. Sá háttur, sem hér er á hafður, miðar að því að þessi lækkun komi skattgreiðendum nokkuð jafnt til góða burtséð frá tekjum. Barnabætur eru óbreyttar í krónutölu og þær aukast því nokkuð að raungildi.

Í III. kafla eru ákvæði um niðurfellingu launaskatts, en það er hluti af samkomulaginu að fella niður launaskatt í fiskiðnaði og iðnaði fyrst og fremst til að auðvelda útflutningsgreinunum að standa að því samkomulagi um launahækkanir sem gert hefur verið og byggir á stöðugu meðalgengi krónunnar.

Í IV. kafla er kveðið á um breytingar á tollskrá sem miða að því að færa niður tolla á ýmsum vörum, bílum og ýmsum mikilvægum matvælum, sem fyrst og fremst miða að því að koma heimilunum til góða.

Í V. kafla eru breytingar á öðrum aðflutningsgjöldum. Þar er fyrst og fremst um að ræða niðurfellingu á gjöldum sem hafa haft óverulega þýðingu fyrir tekjuöflun ríkissjóðs en rétt var talið að nota þetta tækifæri til að fella þau gjöld niður.

Í VI. kafla eru ákvæði um niðurfellingu á verðjöfnunargjaldi raforku en orkufyrirtækin fá að sjálfsögðu greiðslu úr ríkissjóði þó að ríkissjóður missi af þeim tekjum sem þessi gjaldstofn hefur gefið. Aðstaða þeirra verður því óbreytt þrátt fyrir þá breytingu sem hér er kveðið á um, en hún miðar að því hvoru tveggja að koma til móts við atvinnufyrirtækin með lækkun á raforkuverði og eins að koma til móts við heimilin í landinu með því að þessi ráðstöfun svo og sú ákvörðun, sem birt var með yfirlýsingu ríkisstj. frá 11. febr. um að lækka gjaldskrá rafveitna, hafa verulega þýðingu fyrir launafólk. Hér er um mjög umtalsverða lækkun að ræða.

Í VII. kafla frv. eru svo ákvæði um breytingar á lánsfjárlögum. Ríkissjóður verður af þessum sökum að taka aukin lán. Það er ákvörðun að taka þau á innlendum markaði. Yrðu þau tekin erlendis væri hætta á að slíkar ákvarðanir mundu ýta undir verðbólgu og grafa undan því meginmarkmiði þessara samninga að lækka verulega verðbólguna í landinu og skapa hér aukinn stöðugleika.

Ég taldi ekki réttlætanlegt við þessar aðstæður, þar sem ríkissjóður er með sérstökum aðgerðum að koma til móts við launafólk með því að falla frá margs konar óbeinni skattheimtu og lækkun á beinum sköttum, að afla tekna á móti með nýrri skattlagningu á almenning í landinu. Fyrir því verður ríkissjóður að taka á sig nokkra áhættu. Auðvitað setur það okkur í nokkurn vanda og það er við því að búast að ríkissjóður verði af þessum sökum rekinn með halla á næsta ári einnig. Þess er ekki að vænta að við getum unnið okkur út úr þessum erfiðleikum á einu ári. Því er hér um að ræða áhættu sem ríkissjóður tekur til lengri tíma en þessa eina árs.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að með hliðsjón af þeim verulega ávinningi, sem við erum að öðru leyti að ná í efnahagsmálum með hjöðnun verðbólgu og með því á þann veg að geta styrkt kaupmátt, sé réttlætanlegt að taka þessa áhættu, enda eru þessi lán öll tekin innanlands og eiga þess vegna ekki að hafa áhrif til þess að auka á þenslu og grafa undan verðbólgumarkmiðum þessara ráðstafana.

Auðvitað koma þessar lántökur einhvers staðar niður. Að stórum hluta verða lánin tekin, eins og fram hefur komið, hjá lífeyrissjóðum. Við höfum þegar gert ráðstafanir til að undirbúa lántökur hjá bönkum og ég vænti þess að að öðrum hluta verði lánsfjár aflað í bankakerfinu. Það skerðir auðvitað ráðstöfunarfé bankanna og kemur kannske mest niður á atvinnufyrirtækjum sem þurfa að njóta þjónustu þeirra. En hjá því verður ekki komist að einhvers staðar komi þessar ráðstafanir niður, eigi þær ekki að auka þensluna í þjóðfélaginu.

Í þessum kafla eru einnig ákvæði, eins og ég hef áður greint, um lækkun á erlendum lántökum með tilliti til nýrra gengisforsendna og sérstök 500 millj. kr. lækkun á erlendum lántökum með því að skerða ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs umfram það sem áður var áformað.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fara miklu fleiri orðum um efnisatriði þessa frv. Ég tel að með því samkomulagi, sem hér hefur verið gert, og þeim ráðstöfunum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sé verið að stíga ný skref við lausn á kjaradeilum. Það hefur tekist mjög mikilvægt og markvert samkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. Það ber vott um góða samvinnu, áhuga og vilja til að takast á við mjög mikla erfiðleika sem þessi þjóð hefur lengi glímt við.

Við höfum á undanförnum misserum tekið þátt í umræðum um nauðsyn þess að brjótast út úr vítahring verðbólgunnar með nýjum aðferðum. Ég tel að með þessu samkomulagi sé verið að gera þá tilraun, við erum að stíga skref til nýrra vinnubragða og það veltur á miklu hvernig framkvæmdin verður og hverjar ytri aðstæður þjóðarbúsins verða.

Því er ekki að leyna að breytt ytri skilyrði, bæði styrkari staða á erlendum mörkuðum og bætt skilyrði hér heima fyrir með vaxandi afla, hafa auðveldað okkur að ganga til þessa samkomulags og brjóta upp á þessu nýmæli. Á sama hátt og versnandi viðskiptakjör á síðasta ári leiddu til þess að verðbólga fór vaxandi hafa betri ytri skilyrði í byrjun þessa árs gefið okkur möguleika á því að gera ráðstafanir af þessu tagi. Ég fagna því sérstaklega að náðst hefur um það víðtækt samkomulag að hagnýta sér þessi bættu skilyrði til þess að ná betri árangri í stjórn efnahagsmála og um leið að leggja grundvöll að því að styrkja betur en ella hefði orðið kaupmátt launafólks í landinu.

Ég vænti þess að hér í hv. Nd. takist gott samkomulag um að greiða fyrir framgangi þessa frv. með sama hætti og orðið hefur í hv. Ed. Alþingis. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu og til hv. fjh.- og viðskn. Fjh.- og viðskn. beggja deilda hafa í morgun haldið sameiginlega fundi um frv. og ég vænti að sú samvinna nefndanna geti greitt fyrir nefndarstarfinu og flýtt fyrir framgangi málsins.