28.02.1986
Neðri deild: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2912 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það vill svo til að í dag, þegar menn stíga í stóla og lofsyngja þjóðarsáttina um lífskjörin, birtist í blaði allra landsmanna grein eftir Stefán Ólafsson lektor sem heitir „Ný launastefna“. Þessi grein er nokkuð skemmtileg greining á því hvers vegna hér ríkir láglaunastefna sem er algjört einsdæmi á Vesturlöndum að mati höfundar. Það vill svo til að það er einmitt þessi sama láglaunastefna sem allir gömlu flokkarnir á Alþingi hafa nú tekið höndum saman um að lofsyngja í þjóðarsátt um lífskjarasáttmála.

Við verðum, þegar við fjöllum um kjaramál, að ákveða hvað við ættum að hafa í huga, hver eiga að vera viðmið okkar. Eiga þessi viðmið okkar að vera frysting láglaunastefnunnar, áframhaldandi láglaunastefna, eða eigum við að spyrja hvers vegna svo er komið að á Íslandi, sem er í hópi 10-15 ríkustu þjóða Vesturlanda og hefur þjóðartekjur fyrir ofan meðallag OECD-ríkja, eru lægstu dagvinnulaun í þessum sama ríkjahópi. Við höfum lægst dagvinnulaun þeirra Vesturlanda sem birta skýrslur sínar í gögnum OECD, en við erum í hópi þeirra ríkustu. Ítalir eru t.d. hálfdrættingar okkar í þjóðarframleiðslu en þeir borga svipað kaup og við. Það eru eins og ég sagði áðan hvergi jafnlág dagvinnulaun meðal álíka ríkra þjóðfélaga. Hvergi á Vesturlöndum eru þó greiddar vinnustundir jafnmargar og hér. Þess vegna eiga menn ekki að setja sér að markmiði, þegar þeir setjast niður að semja um laun, hvernig þeir geta varið kaupmátt síðasta ársfjórðungs síðasta árs heldur eiga þeir að spyrja: Hvernig stendur á þessu misræmi í ríkidæmi þjóðarinnar og kjörum almennings? Það er spurningin sem menn eiga að fjalla um.

Hvað hefur þessi láglaunastefna, sem hér hefur ríkt í alla þessa áratugi, haft í för með sér - eða eigum við að orða það öðruvísi: Hvað kostar dekrið við illa rekin fyrirtæki í landinu? Það kostar t.d. vinnuþrældóm sem á sér enga hliðstæðu á Vesturlöndum. Það kostar t.d. aukavinnubasl sem ekki á sér neina hliðstæðu heldur. Það kostar átök á vinnumarkaði sem eru einhver þau mestu sem þekkjast á Vesturlöndum. Og þessi láglaunastefna kostar óvenjumikið vinnutap. Hún kostar svart hagkerfi sem allir þekkja, hún kostar minnkuð afköst vegna langs vinnutíma, hún kostar minnkaða framleiðni fyrirtækja og á endanum kostar hún upplausn fjölskyldunnar, gjaldþrot, hjónaskilnaði og sumir segja sjálfsvíg. Þetta er gjaldið sem við greiðum fyrir láglaunastefnu sem hér hefur ríkt í áratugi. Þetta eiga menn að hugsa um þegar þeir setjast niður til að semja laun. Það er viðhaldið hérna launastefnu 19. aldarinnar sem einkenndist af lágum launum og þrælkun þeirra sem unnu, þrælkun barna og fullorðinna. Þetta er einkenni íslenskrar launastefnu og um þetta hafa nú allir tekið höndum saman á Alþingi í gær og í dag og syngja lofsöng til dýrðar þjóðarsáttmála, lífskjarasáttmála.

Þessi samningur er t.d. blessun verkalýðshreyfingarinnar yfir því fyrirtækjadekri sem ég lýsti áðan og blessun verkalýðshreyfingarinnar yfir þeim einkennum láglaunastefnunnar sem ég lýsti áðan. Um þetta er orðin þjóðarsátt.

Staðreyndirnar sem ég lýsti áðan um samanburð þjóðarauðs og lífskjara fólksins eiga að vera viðmiðun bæði þeirra stjórnmálamanna sem setja ramma, búa til umhverfi sem fólk og fyrirtæki lifa í og þeirra samningamanna vinnumarkaðar sem semja um arðskiptin. Það á að vera viðmiðunin, ekki að viðhalda hungurbasli lágu launanna á síðasta ársfjórðungi eða einhverjum öðrum ársfjórðungi sem er kominn í skrár sögunnar fyrir basl og eymd.

En hvers vegna blindast menn svona? Hvers vegna taka menn röng viðmið? Ég held að það sé út af því m.a. að þeir treysta sér ekki til að takast á við þær stórvirku breytingar sem verða að verða á öllum sviðum til þess að raunveruleg bót lífskjara verði. Menn treysta sér t.d. ekki til að hætta að festa fjármagn og byrja að nýta fjármagn. Menn treysta sér ekki til að gera þær skattabreytingar sem þarf til þess að slíkt geti gerst. Menn treysta sér ekki til að hætta að styðja illa rekin fyrirtæki með ívilnunum eða meðaltalslaunaákvörðunum af ýmsu tagi vegna þess að það gæti leitt til þess að einhver fyrirtæki sem eru einhverjum þeirra kær færu á hausinn. Menn teysta sér ekki til að auka aðhald og virkni í opinberum rekstri, t.d. með því að veita stjórnum eða stjórum stofnana afmarkaðar fjárhæðir sem þeir ráðstafa síðan sjálfir milli fjárfestingar, launa og rekstrar og gætu t.d. notað til að hækka laun starfsmanna sinna með því að færa til fé á milli einstakra rekstrarliða eða á annan hátt breyta fyrirkomulagi innan fyrirtækjanna. Menn treysta sér ekki, eins og við höfum heyrt hérna undanfarið í sambandi við umræður um heimastjórn og fylki, til að breyta samskiptum ríkisvalds og fólksins í landinu þannig að þar komi til aukin sjálfsstjórn og aukin sjálfsbjörg en að það sé lagt niður að sama skapi forsjárkerfið sem hér hefur ríkt síðan í lok stríðsins. Og menn treysta sér ekki til að breyta launasamningum þannig að það sé samið í fyrirtækjunum sjálfum þar sem fólkið veit hver afkoman er. Fólkið sér Range Rover eða Range Rovera forstjóranna. Fólkið sér fjölskylduna sem er á launum og veit hvernig afkoman er. Fólkið sem vinnur í fyrirtækjunum getur sótt arð í fyrirtækin sem meðaltalssamningarnir uppi í Garðastræti geta aldrei. Þessar breytingar treysta menn sér ekki til þess að gera. Og menn treysta sér ekki til að gefa fiskverð frjálst og hætta þessum fjarstæðukenndu verðlagsgrundvallarmeðaltalsútreikningum sem eins og ég sagði áðan gera það eitt að dekra við skussana, setja á skussana.

Þetta eru dæmi um þær stórvirku og óumflýjanlegu aðgerðir sem menn verða að gera ef þeir eru að hugsa um að endurreisa lífskjör. En auðvitað treysta menn sér ekki í þetta og þá setjast þeir niður og fara að tuða um meðaltöl og vísitölur. Síðan hjálpast allir að við að koma upp þeirri blekkingu að það sé verið að gera eitthvað sem skiptir máli.

Það er fróðlegt að líta svolítið á hvernig blekkingin verður til.

Fyrir tveim vikum lagði ríkisstj. fram tilboð sem hún kallaði að lækka skattheimtu, lækka útsvarsinnheimtu og lækka gjaldskrár ríkisfyrirtækja. Þarna var í raun og veru um það eitt að ræða að ríkisstj. sagðist ætla að færa skattheimtu sína að breyttum verðlagsforsendum sem yrðu ef gerðir yrðu samningar sem færðu niður verðbólguna. Ríkisstj. var ekki að gefa neitt. Hún var einungis að segja að hún ætlaði að færa sínar áætlanir um tekjuöflun, sem voru gerðar miðað við 30-40% verðbólgu, niður að þeirri 9-10% verðbólgu sem mundi verða í landinu.

Ef láglaunasamningarnir hefðu fært verðbólguna niður í 9% hefði það verið hreinn stuldur og níðingsskapur af hálfu ríkisstj. að færa ekki þessa tekjuöflunarliði niður. Það kom aldrei annað til greina. En hvað gerist? Ríkisstj. túlkar þetta sem framlag og frumkvæði til að gera skynsamlega kjarasamninga og undir það taka fjölmiðlarnir allir gagnrýnislaust eins og páfagaukar. Blöð fjalla dag eftir dag í leiðurum sínum um að þetta frumkvæði verði aðilar vinnumarkaðarins að nota til að gera launasamninga. Hvaða frumkvæði? Það frumkvæði að ríkisstj. lýsti því yfir að hún ætlaði ekki að gerast sá níðingur að innheimta skv. 30-40% verðbólguáætlunum í verðbólgu sem væri bara 10%? Þetta er ekki frumkvæði.

Svona hófst eiginlega mesti hluti þessarar blekkingar. Síðan heldur hún áfram. Næsti þáttur þessarar blekkingar er samningamakkið um meðaltölin og vísitölurnar. Fólk er látið halda að það sé verið að semja um lífskjör, en í raun eru samningamenn í talnabrellum. Í fyrsta lagi leggja menn til grundvallar atkomu fyrirtækjanna sem er metin út frá meðaltölum sem eru byggð á skattframtölum þeirra. Í þessari stóru púlíu skattframtalanna er ekki spurt hvernig fyrirtækin eru rekin heldur einungis spurt hverjar eru niðurstöður þeirra skattframtala sem fyrirtækin hafa lagt fram. Þarna eru auðvitað allir með. Lélegu fyrirtækin eru með. Þau fara inn í meðaltalið með risnunni og Range Rovernum og öllu sem fylgir. Með þessu fæst úrskurður um greiðslugetu fyrirtækjanna og eins og ég sagði áðan er það úrskurður sem dekrar við skussana með illa reknu fyrirtækin og kippir þeim inn í púlíuna. Hver halda menn síðan að sé þá greiðslugeta þeirra sem eru með vel rekin fyrirtæki? Þeir komast auðvitað af með að greiða brot af því sem þeir gætu greitt ef það ríkti sæmilega sanngjarnt kerfi sem fólkið gæti sótt launin sín eftir inn í fyrirtækin.

Þetta voru útreikningarnir á greiðslugetu fyrirtækjanna. Svo eru útreikningar á lífskjörum fólksins. Þá er aftur byggt á meðaltölum og neyslukönnunum og vísitölum um líf þessa fólks. Menn gleyma því að þessar tölur eru vísbendingar og meðaltöl en þetta eru ekki lífskjör. Þessar prósentutölur eru ekki lífskjör. Þær eiga ekki við einn einasta mann í þessu landi. Þær eru meðalsumman af einhverjum meðaljóni sem er ekki til. En svo fara menn að semja um meðaltölin. Samningarnir fara þannig að snúast um vísbendingar í staðinn fyrir lífskjör. Þegar svo er komið fara menn að semja um verðlækkun á bíl og verðlækkun á dekkjum og verðlækkun á súpukjöti af því að það er inni í einhverju meðaltali á einhverri neyslukönnun. En ef maður fer og talar við fólkið sem lifir við þessi lífskjör segir kannske fólkið: Ég hef ekki efni á að kaupa bíl og þess vegna kaupi ég engin dekk. Og ég hef ekki efni á að kaupa súpukjöt. Það fer kannske svo að ég missi eitt af þessum prósentum í lífskjarauppsveiflunni af því að ég er ekki nógu ríkur til að eiga bíl. Svo eru sumir sem vilja ekki eta súpukjöt, finnst súpukjöt vont. Hvers eiga þeir að gjalda? Af hverju mega þeir ekki njóta útreiknuðu lífskjarauppsveiflunnar? En blekkingunni um að það sé verið að semja um lífskjör er haldið uppi með þessum hætti.

Enn þá einu sinni hefur blessað lambakjötið þannig bjargað þessari þjóð. Í gamla daga lifði þjóðin á því að borða kjötið. Nú lifir hún á því að reikna það fram og til baka og búa til úr því lífskjör, enda sýnist manni að með þessum samningum og lögunum sem fylgja sé beinlínis ætlast til þess að menn borði lambakjötið til að njóta þessara bættu lífskjara og þá sannast hið fornkveðna að með lögum skal lamb tyggja.

Annað sem ég vil gera að umtalsefni í þessu sambandi er meðaltaladýrkunin í öllu efnahagslífi. Það sem þessi dýrkun gerir er að hún heldur okkur alltaf föstum við viðmiðanir gærdagsins, hinar gömlu viðmiðanir. Að binda sig við þessa meðaltaladýrkun minnir á strák sem fer í próf og fær aldrei nema 4 en það er ekki nóg. Hann er alltaf að hugsa um að hækka sig um 5% eða 10%. Þá fær hann 4,4. Hann er ekkert bættari með 4,4. Hann er líka fallinn með 4,4. Hann þarf að fá 8 eða 9 til að vera sæmilega stæður. Þess vegna þarf hann að byrja upp á nýtt. Hann má ekki binda sig við meðaltöl gamla tímans. Hann þarf að stokka málið upp á nýtt. Það er það sem við þurfum að gera. Það er það sem Íslendingar þurfa að gera í sínum launamálum.

Síðan nota menn meðaltölin til að meta afkasta- og greiðslugetu fyrirtækjanna eins og ég lýsti áðan og nota þessi meðaltöl til að finna hvað hæfir hverju fyrirtæki að greiða mikið. Ég vil nefna dæmi sem ég hef nefnt áður í þessum ræðustól. Þetta er eins og ég færi í Hagkaup til að kaupa buxur á eins árs gamalt barn, fimm ára gamalt barn, 14 ára gamlan ungling og 80 ára gamalmenni. Svo tæki ég meðalaldur þeirra, sem væri 100, deildi í með 4 og fengi út 25 og keypti fjórar buxur á rúmlega tvítuga. Þær passa engum. Meðaltölin uppi í Garðastræti eru ekki í neinu sambandi við hvorki fyrirtækin né fólkið í þessu landi, ekki frekar en buxurnar úr Hagkaupi yrðu með þessum framgangi. Svona er nú láglaunastefnan, blekkingarnar og meðaltölin.

Það er fróðlegt að líta sér aðeins nær og líta á þann króga sem við erum að fjalla um hérna í dag, þessa samninga. Við skulum kíkja aðeins á hvernig um þá er fjallað í dag. Um þá er fjallað í Staksteinum þar sem eru tínd til ýmis nýleg „komment“ fjölmiðlanna. Það stendur t.d., með leyfi forseta, í Morgunblaðinu í dag, í Staksteinum:

„Alþýðublaðið segir í sinni forustugrein: „Launþegar og vinnuveitendur hafa nú gert kjarasamninga sem væntanlega marka tímamót í samskiptum þeirra og í íslensku efnahagslífi. Hér er á ferðinni eins konar kjarasáttmáli, gagnkvæmur skilningur aðila á nauðsyn þess að gera samninga sem ekki eru verðbólguhvetjandi.“

Svo kemur: „Þessi niðurstaða er báðum samningsaðilum til sóma.“ Og síðan segir: „Alþýðublaðið fagnar þessum samningum.“

Svo er vitnað í sömu Staksteinum í Þjóðviljann. Þar gerir að vísu vart við sig svipaður geðklofi eða tvíhyggja og mér fannst vera í ræðu formanns Alþb. áðan, hv. þm. Svavars Gestssonar. Það er haltu mér, slepptu mér. Í byrjun tilvitnunar er talað um ýmislegt jákvætt við þessa samninga, en svo kemur en og en og en og sagt:

„Samkvæmt þessu mun launafólk ekki einu sinni halda hlutdeild sinni í auknum þjóðartekjum. Í miðju góðærinu á því herrans ári 1986 er því kjaraskerðing síðustu ára nánast staðfest.“ Og síðan segir, með leyfi forseta: „Það er hins vegar fráleitt að gefa upp vonina um að kjörin geti batnað.“ Svona fjallar málgagn Alþb. um þessa þjóðarsátt um lífskjarasáttmála.

Í Morgunblaðinu í dag, með leyfi forseta, er líka haft eftir einum starfsmanna Alþýðusambands Íslands: „Samningarnir happadrjúgir félögum í ASÍ“

Þá er fjallað öllu meira um þessa samninga á þingsíðu Morgunblaðsins í dag. Þar er fyrirsögn, með leyfi forseta, sem er svona: „Jón Baldvin um samninga ASÍ og VSÍ: Samrýmast sjónarmiðum jafnaðarmanna.“ Hvaða jafnaðarmanna? Ég vissi ekki að það væru sjónarmið jafnaðarmanna að staðfesta viljann til þess að hér ríki áfram lífskjaraskerðing og lélegustu lífskjör á Vesturlöndum.

Síðan segir Morgunblaðið, með leyfi forseta, að formaður Alþfl. ræði um lífskjarasáttmálann og fari um hann fegurstu orðum og segi að jafnaðarmenn vilji allt til vinna að sá árangur sem að væri stefnt í hjöðnun verðbólgu og styrkingu kaupmáttar næðist í reynd.

Það er haft eftir hæstv. fjmrh. að hér sé á ferðinni þjóðarsátt. Minna má nú ekki gagn gera.

Ég verð að segja að það sem stendur eftir af þessu öllu saman er sú staðreynd að þegar þetta ár er runnið sitt skeið á enda, ef dollarinn breytist ekki, ef olíuverðshækkunin helst, ef aflinn helst og ef þorskverðið helst uppi í Ameríku, geti þeir sem best eru settir vænst 8% aukningar á kaupmætti. Hvað þýðir það fyrir konu eða mann sem eru með 17 þús. kr.? Það þýðir að viðkomandi fær rúmar 18 þús. kr. Hvernig halda menn að lífið sé hjá þeim sem fær núna 17 þús. kr.? Hverju halda þessir söngvarar dýrðaróðsins um lífskjarasáttmálann að viðkomandi væri bættur með 1000 kr. í viðbót? Það skiptir nákvæmlega engu máli vegna þess að sá sem lifir við 17 þús. kr. á mánuði lifir lífi sem jafnaðarmenn geta ekki sætt sig við og sem jafnaðarmenn geta ekki gert samninga um, hvað þá heldur sungið lofsöng til dýrðar um. Þannig líf er ekki á stefnuskrá jafnaðarmanna. Það er kannske hægt á einhvern hátt að lifa af 17 000 kr., en það er ekki mannsæmandi líf og það er líf sem menn ætla að útrýma úr þessu landi. Ef einhver er að gera slíkan lífskjarasáttmála fullyrði ég að hann er ekki í sátt við fólk sem er undir 25-30 000 kr. á mánuði. Þetta er sáttmáli um skömm. Þetta er sáttmáli um að dekra við illa rekin fyrirtæki. Þetta er sáttmáli um að dekra við þann hluta atvinnurekenda sem annaðhvort getur ekki rekið fyrirtæki svo vel sé eða getur það en hefur ekki næga félagslega ábyrgðartilfinningu til þess að greiða mannsæmandi laun. Jafnaðarmenn taka ekki þátt í þjóðarsáttmála um að heiðra skussana.

Ég tel að allt talið um þjóðarsátt hjá fjmrh. sé móðgun við þjóð sem er núna að ganga í gegnum hörmungarskeið félagslegrar upplausnar og efnalegra þrenginga. Menn gera enga samninga eða sátt um slíkt. Við vitum að það fjölgar gjaldþrotum launafólks, ekki aðeins fyrirtækja heldur launafólks. Það fjölgar hjónaskilnuðum. Starfsmenn félagsmálastofnana telja að álagið hafi aldrei verið meira en nú á einstaklingum og fjölskyldum. Ætla menn að fara að gera þjóðarsátt um það? Ekki ég. Ég tek ekki þátt í að gera lífskjarasáttmála sem blessar kjaraskerðinguna, lengir líf duglausra fyrirtækja og staðfestir að þessi ríkisstj. á ekkert erindi í pólitík. Þetta er þjóðarsátt um þjóðfélag þeirra þriggja fjórðu hluta sem kannske hafa efni á að njóta einhvers af þeim gæðum sem hér er boðið upp á.

Nú vil ég víkja talinu að umbúnaði málsins. Alþingi fær oft send ýmis mál og vissulega er það rétt að Alþingi á að vera opið og á að taka við málum og skoðunum smáum og stórum. Síðan fara menn yfir þessa hluti og menn setja lög eða fella frv. En fólk hefur kosið þingmenn til að fara hingað inn og nota samvisku sína og einhverja skynsemi til löggjafar. Það sem er að gerast hérna á ekkert skylt við löggjöf. Nú eru hér ekki frjálsir menn að setja lög. Núna er þingið beitt þvingunum. Aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstj. standa með byssuhlaup við gagnaugabeinið á mönnum og segja: Samþykkið þið. Þetta er nauðgun á Alþingi. Þeir segja: Ef þið réttið ekki upp hönd svona og svona gerum við allt vitlaust, förum í verkfall, verkbann eða einhverjar slíkar kúnstir.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa umboð til að semja um skiptingu arðsins úr fyrirtækjunum, en þeir setja ekki lög. Alþingi hefur verið niðurlægt. Það er ekki í fyrsta sinn. Kvótinn var ágætt dæmi. Kvótinn var mjög gott dæmi. Þá man ég að æmtu og skræmtu Alþýðubandalagsmenn og Alþýðuflokksmenn. Þá höfðu frv. gengið um allan bæ og allt land áður en þm. sáu stafkrók. Núna skrifa ASÍ, VSÍ og SÍS frv. og senda ríkisstj., ríkisstj. kynnir fjölmiðlum frv. kl. 3 í gær og sýnir þinginu það kl. 7 í gærkvöld. Og svo er sagt: Verið þið fljótir að afgreiða þetta, strákar. - Þannig gerist það að mál sem tók fjórar til sex vikur að kanna í viðræðum aðila, reikna út og búa til kemur hingað inn kl. 7 í gær og menn segja: Getið þið ekki hespað þessu af? Menn segja: Það er ekki hægt að láta þetta dragast fram yfir helgi. Menn segja: Þá verða stóru strákarnir farnir í Norðurlandaráð og það er ekki hægt að standa í að vera að samþykkja mikilvæg lög þá. Og menn segja: Þjóðin bíður eftir ykkur. Bílaviðskipti liggja niðri og það er allt í hönk með dekkin. Og það gerist ekki neitt. Drífið þið ykkur. Vídeóin seljast ekki. Verið þið fljótir. Klárið þið þetta fyrir helgi.

Nú er Alþingi til trafala. Ekki að menn óttist að Alþingi breyti eitthvað frv. Nei, Alþingi tekur bara tíma. Við erum stimpilstofnun eins og ríkismat sjávarútvegsins. En munurinn er sá að Ríkismatið stöðvar stundum slæmar sendingar, en Alþingi gerir það ekki. Það stimplar sjálfvirkt. Það er orðið nokkuð vel að sér í þessu stimpilhlutverki. Það hefur fengið áður plögg til að stimpla. Það voru send hér inn í haust plögg þegar Flugleiðir ákölluðu þingið. Þá stimpluðu menn lög um flugfreyjulaun. Stimpilstofnun.

Nú hafa allar reglur í raun verið brotnar einu sinni enn og þá er sagt að menn skuli ekki vera að tala hér um formsatriði. Ég sá það haft eftir einhverjum. Það vill þó svo til að þessi svokölluðu formsatriði eru stjórnarskrá, grundvallarlög þessa samfélags. Það eru nú öll formsatriðin. Það eru þau formsatriði hvernig stjórnkerfið, hvernig stjórnskipanin í þessu landi vinnur. Það eru ekki ómerkileg formsatriði.

Við Bandalagsmenn höfum verið gagnrýndir fyrir að leggja áherslu á þörfina á breyttu stjórnkerfi, en hérna er sönnunin. Nú hefur framkvæmdavaldið verið tekið út fyrir þetta lýðræðislega kjörna stjórnkerfi og aðilar úti í bæ beita þessu framkvæmdavaldi til að knýja fram lausn á sínum vanda. Ef ég væri í sporum einhverra þm. fjórflokksins og tæki undir dýrðaróðinn um þjóðarsátt, um þjóðfélag þriggja fjórðu, mundi ég samt vera óánægður með stjórnkerfið vegna þess að á mig mundi sækja viss ótti við að missa núverandi framkvæmdastjóra VSÍ. Ég mundi spyrja: Hvaða tryggingu hef ég fyrir því að hann Magnús Gunnarsson verði þarna á næsta ári og sjái um þetta. (Gripið fram í: Hann er að hætta núna kl. 5.) Ég mundi þá spyrja: Er sá næsti nógu góður? Get ég treyst næsta framkvæmdastjóra VSÍ til að vinna þetta fyrir mig? Þess vegna er það svo að jafnvel þó mér þættu þetta góðir samningar mundi ég segja að þetta stjórnkerfi væri samt ónýtt því það er ekkert sem hindrar að næsta ár verði ekki gerðir „sólstöðusamningar“ eða 40% samningar eða 50% samningar. Ríkisstj. á allt sitt undir því að það séu góðir menn sem skrifa frumvörpin uppi í Garðastræti. Svoleiðis stjórnkerfi er ekki gott.

Nú eru ríkisstj. og þjóðin eins og stjórnlaust rekald. Þetta er eiginlega eins og að vera á skipstjóra- og stýrislausu skipi einhvers staðar úti á Kyrrahafi, reka af einni eynni á aðra og stundum taka á móti skipunum grenjandi mannætur og stundum dansandi Hawai-stelpur með blómaskrúð og banana og menn bara bíða og vona. Menn hafa enga stjórn á því hvert þessi fleyta fer. Svo þegar hún lendir á því sem þeim finnst vera góð eyja eru þeir ánægðir og segja: Við skulum ekki vera að ræða um það þó að skipið sé stjórnlaust. Nú fór vel. Við skulum ræða um innihald þess sem hér er á ferðinni, segja þeir.

Svona á ekkert stjórnkerfi að vera. Þetta er ekki ómerkilegt formsatriði. Þetta er grundvallaratriði í því hvort okkur á að takast einhvern tímann að hætta að vera á botninum meðal vestrænna þjóða í dagvinnulaunum. Ég hafna því að ég sé að tuða um form. Ég held því fram að ég sé að tala um grundvöll stjórnskipunarinnar.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Það er þegar orðið lengra en ég hugði. Þessi samningur samrýmist ekki sjónarmiðum jafnaðarmanna. Það er til hans stofnað á afar ólýðræðislegan hátt og hann innsiglar áframhaldandi kúgun lágu launanna. Það leitar stundum á mann að sumir svokallaðir vinstrimenn þurfi á láglaunafólkinu að halda á vísum stað til að geta geiflað sig framan í það við kosningar eða samninga. Þeir jafnaðar- og vinstrimenn mega eiga þessa samninga fyrir mér. Þessa samninga getur BJ ekki stutt. Við getum ekki tekið undir lofsöng gömlu flokkanna um þjóðarsátt um áframhaldandi fátækt vegna þess að svo miklir ójafnaðarmenn viljum við ekki vera.