04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2972 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

286. mál, úrbætur í ferðaþjónustu

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur, Guðrúnu J. Halldórsdóttur, Helga Seljan, Karvel Pálmasyni, Kolbrúnu Jónsdóttur og Kristínu S. Kvaran hef ég leyft mér að bera fram till. til þál. um úrbætur í ferðaþjónustu. Till. er á þskj. 531 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta kanna hvaða aðstöðu vantar í tengslum við ferðaþjónustu víðs vegar um landið, svo sem gistiaðstöðu, veitingaþjónustu, samgöngur, leiðsögu- og leiðamerkingar, eftirlit, aðgang að áhugaverðum stöðum, upplýsingaþjónustu og hreinlætisaðstöðu. Gera skal úttekt í hverjum landshluta fyrir sig og áætlun um úrbætur í samræmi við niðurstöður hennar. Kostnaður við framkvæmd þessarar áætlunar greiðist úr ríkissjóði.“

Herra forseti. Ferðaþjónusta, sem sumir vilja reyndar kalla ferðamannaþjónustu, ferðamálastarf, ferðaútveg, eða eitthvað enn annað, er orðin býsna mikilvægur þáttur í atvinnulífi okkar og er mjög vaxandi atvinnugrein. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefur ferðaþjónustan tvöfaldað hlutdeild sína í atvinnulífi landsmanna síðasta aldarfjórðung og þetta hlutfall fer nú stöðugt vaxandi eftir nokkurra ára stöðnun. Til þess að fá samanburð við aðrar atvinnugreinar má til dæmis nefna að vægi ferðaþjónustu á vinnumarkaðnum er álíka og vægi málm- og skipasmíðaiðnaðar og nokkru meira en allrar bankastarfsemi í landinu.

Samkvæmt nokkuð þröngri skilgreiningu á þessari atvinnugrein munu ársverk beinlínis í ferðaþjónustu vera nálægt 3500. Er þá ferðaþjónusta skilgreind sem allt sem viðkemur hótelum og gististöðum, starfsemi ferðaskrifstofa, allur flugrekstur, helmingur þess sem fer fram á veitingastöðum, helmingur af rekstri langferðabíla og strætisvagna og fjórðungur annarrar starfsemi við fólksflutninga á landi. Miðað við þessa skilgreiningu hefur hlutdeild ferðaþjónustu á vinnumarkaði vaxið úr um 1,5% árið 1960 í um 3% á síðustu árum.

Auðvitað hafa ýmsir aðrir aðilar beinan og óbeinan hag af ferðaþjónustu og margir vilja skilgreina þessa atvinnugrein rýmra og telja hlutdeild hennar á vinnumarkaði allt að 6%. Í þessari skilgreiningu er t.d. ekki minnst á verslun sem hefur að sjálfsögðu mikinn hag af ferðaþjónustu. Það er svona eins og gengur með ýmsar atvinnugreinar að þær styðja hver aðra beint og óbeint. En við þessa skilgreiningu hef ég miðað hér þar sem Þjóðhagsstofnun hefur mótað hana.

En hvernig sem víð skilgreinum þessa atvinnugrein þarf enginn að velkjast í vafa um aukið mikilvægi hennar í atvinnulífi landsmanna, bæði hvað varðar innlenda og erlenda ferðamenn. Á einum aldarfjórðungi hefur tala erlendra ferðamanna hér á landi meira en sjöfaldast. Um 13 000 erlendir ferðamenn sóttu okkur heim árið 1960, en 97 443 árið 1985. Auk þess hafa Íslendingar sjálfir stóraukið ferðalög um eigið land á þessu árabili. Til er faglega unnin skýrsla, sem gerð var að frumkvæði ferðamálaráðs árið 1982-1983, um stöðu ferðamála og líklega þróun á þeim vettvangi allt til ársins 1992.

Árlega hefur erlendum ferðamönnum fjölgað mun meira en gert er ráð fyrir í skýrslunni og brýnt að endurmeta stefnuna í ferðamálum með hliðsjón af þeirri staðreynd. Í fyrrgreindri skýrslu er gert ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi að meðaltali um 3,5% hér á landi frá 1984 til 1992. Fjölgun þeirra varð hins vegar um 10% árið 1984 og árið 1985 fjölgaði þeim um 14,4%. Til að mæta þessari miklu fjölgun erlendra ferðamanna þarf að leita allra hugsanlegra leiða til að lengja ferðamannatímann og auka nýtingu hótela og annarrar þjónustu sem þegar er fyrir hendi. Má þar nefna skipulegt átak til að laða hingað fjölþjóðlegar ráðstefnur sem mest utan aðalferðamannatímans, en slíkar ráðstefnur eru einn arðbærasti þáttur ferðamála þar eð ráðstefnugestir eyða meiri gjaldeyri að meðaltali en almennir ferðamenn, sumir segja allt að fimmfalt. Til þess er nú lag því að sýnilega eykst hótelrými mikið á næstunni, einkum hér á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.

Þá þarf að gera ráðstafanir til að hægt sé að gera ferðamönnum kleift að fara víðar um landið, en til þess skortir tilfinnanlega aðstöðu víða utan höfuðborgarinnar og brýnt að bæta úr því sem fyrst. Fyrsta skrefið væri slík könnun og áætlun um úrbætur sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Framhaldið væri svo komið undir áhuga og framtakssemi þeirra sem fyrst og fremst eiga hagsmuna að gæta á hverjum stað.

Því má svo auðvitað ekki gleyma að fjármagn er nauðsynlegt afl þeirra hluta sem gera þarf og enginn vafi er á því að fjárskortur er víða og mörgum fjötur um fót við uppbyggingu ferðaþjónustu. Það blasir auðvitað við að ef á að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn víða úti um land þarf að kosta nokkru til. Við komumst ekkert hjá því.

Á síðasta þingi flutti ég till. til þál. um eflingu ferðaþjónustu og voru reyndar meðflm. mínir þá flestir þeir sömu og nú. Sú till. kom nokkuð seint fram og komst aldrei úr nefnd, en hún fjallaði m.a. um eflingu Ferðamálasjóðs sem því miður hefur mátt sæta afar harkalegum niðurskurði og er því mjög vanbúinn til þess að standa undir lánveitingum til nauðsynlegra framkvæmda til uppbyggingar ferðaþjónustu. Á þessu ári eru t.d. lögboðin framlög til ferðamála skorin niður um meira en helming.

Í þeirri till. sem hér er til umræðu er um svolitla áherslubreytingu að ræða, en áfram erum við að reyna að treysta grunninn undir þessa atvinnugrein og koma til móts við þann áhuga sem við teljum mikinn víða úti um land til þess að byggja upp ferðaþjónustu. Það er víða fólk að vakna til vitundar um þá möguleika sem felast í þessari atvinnugrein.

Það sem fyrst og fremst skortir, fyrir utan nauðsynlegt lánsfjármagn, eru upplýsingar og ráðgjöf um hvernig best er að standa að þeirri uppbyggingu sem þörf er á, hvað helst vantar og hvernig á að standa að framkvæmdum.

Gistirými hefur aukist töluvert úti um land á síðustu árum, en víða eru eyður sem fylla þarf í. Vaxandi skilningur er á þörf fyrir vel búin tjaldsvæði og rétt er að hafa í huga í því sambandi að víða er hægt að nýta hreinlætisaðstöðu í félagsheimilum og skólum og þarf e.t.v. ekki að kosta svo miklu til. Á þessu sviði er þörf verulegs átaks og sama má segja um hin atriðin sem talin eru upp í þessari till.

Enginn vafi er á því að helsta aðdráttarafl ferðamanna á Íslandi er hin óspillta náttúra landsins, hreint loftið og tært vatnið, fámennið og öræfakyrrðin. Þessi verðmæti ber umfram allt að varðveita. Því miður er ástand víða bágborið á ferðamannastöðum í óbyggðum, jafnvel svo að náttúran er í hættu sökum ógætilegrar umferðar og ónógra varúðarráðstafana. Má þar nefna fjölsótta staði eins og Landmannalaugar, Þórsmörk, Hveravelli og Herðubreiðarlindir. Líklegt er að þar og víðar þurfi að stórauka gæslu og jafnvel beita ítölu til að koma í veg fyrir of mikinn átroðning. Þá mætti létta af þessum stöðum með því að koma upp góðri gistiaðstöðu í grennd við þá. Enn má nefna að með nýjum vegaslóðum, fræðslu og leiðamerkingum mætti beina umferð að einhverju leyti á fleiri áhugaverða staði og minnka þar með álagið á þá fjölsóttustu. Rétt er að minna á að Ísland er í rauninni opin og lifandi kennslubók í náttúrufræði og jarðfræði og um þau atriði ætti að veita fræðslu ekki síður en um vegi og kennileiti.

Líklegt er að könnun muni leiða í ljós þörf fyrir aukna gæslu í óbyggðum og er þá átt við hvort tveggja, gæslu náttúrunnar og aðstoð við ferðafólk. Í þessu sambandi má einnig minna á samþykkt Alþingis frá síðasta ári um bætta merkingu akvega.

Áreiðanlega er einnig víða þörf á bættum aðgangi að hinum ýmsu náttúruundrum lands okkar, fossum, hverum, gljúfrum og hellum, með t.d. göngustígum, klifrum og handriðum eða handfestu á stöku stað. Slíkt er nauðsynlegt til að tryggja öryggi og þarf síður en svo að spilla umhverfinu ef vandað er til frá upphafi.

Loks má nefna hreinlætisaðstöðu sem óvíða er þannig að hægt sé að nefna hana því nafni og ber þetta ástand þjóðinni ófagurt vitni. Þessi nauðsynlega þjónusta verður víða út undan, e.t.v. vegna þess að hér er ekki um arðbæran rekstur að ræða, og er tími til kominn að taka á þessum vanda og leysa hann til frambúðar því að víst er að erlendir ferðamenn dæma þjóðina ekki síst af atriðum sem þessum.

Herra forseti. Vöxtur og viðgangur ferðaþjónustu hefur farið langt fram úr bjartsýnustu spám og fært okkur Íslendingum aukin atvinnutækifæri og dýrmætar gjaldeyristekjur. Tekjur af erlendum ferðamönnum á síðasta ári námu rúmlega 3 milljörðum kr. samanborið við rúmlega 2 milljarða árið 1984. Til þess að fá hugmynd um mikilvægi þessa tekjuliðar má bera gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum saman við ýmsar heildarstærðir í þjóðarbúskapnum.

Árið 1980 námu gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu í heild sinni 12,2% af heildarútflutningi sjávarvöru, en 26,5% árið 1984 og á síðasta ári er áætlað að þetta hlutfall hafi verið um 28%. Sem hlutfall af útflutningi vöru og þjónustu í heild námu gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu 7,1% árið 1980, 12,2% árið 1984 og nálægt 14% árið 1985. Loks má skoða gjaldeyristekjur ferðaþjónustu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, en það var 2,6% árið 1980 og hefur síðan farið jafnt og þétt vaxandi, var 5,1% árið 1984 og er áætlað um 6% á síðasta ári. Það er að vísu alltaf erfitt að gera nákvæman samanburð, en sem dæmi má nefna að ferðaþjónustan skilaði svipuðum gjaldeyristekjum árið 1984 og loðnuvinnslan og helmingi meiri tekjum en járnblendiverksmiðjan á Grundartanga.

Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein sem mun færa okkur ómælda björg í bú, ekki síst ef við berum gæfu til að búa henni viðunandi skilyrði, en þótt atvinnusköpun og tekjuöflun séu mikilvægir þættir er þó mest um vert að búa svo um hnútana að við getum tekið á móti gestum okkar eins og sæmir góðu íslensku heimili og án þess að ganga of nærri íslenskri náttúru. Að því miðar þessi till.

Herra forseti. Að lokinni umræðu um þessa till. legg ég til að henni verði vísað til hv. atvmn.