10.03.1986
Efri deild: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3009 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

321. mál, tollskrá

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Með lögum nr. 3/1986, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum, voru gerðar ýmsar ráðstafanir í ríkisfjármálum til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Einn þáttur þessara aðgerða fólst í því að lækka aðflutningsgjöld af bifreiðum í því skyni að ná niður framfærslukostnaði sem samsvarar 1,5% í framfærsluvísitölu. Ráð var fyrir því gert að ná þessu marki bæði með lækkun tolla og lækkun á sérstöku innflutningsgjaldi sem lagt hefur verið á eftir vélarstærð bifreiðar.

Í ljós hefur komið við framkvæmd þessara laga að í þeim meðaltalsútreikningum sem byggt var á við undirbúning og samþykkt löggjafarinnar var stuðst við upplýsingar sem ekki eru í fullu samræmi við breyttan innflutning. Í ljós hefur komið að innflutningur á minni bílum hefur aukist miklu meira en þær upplýsingar, sem stuðst var við þegar frv. var undirbúið, gáfu vísbendingar um. Því hefur komið í ljós að löggjöfin, eins og hún var samþykkt, hefur ekki skilað þeirri verðlagslækkun sem að var stefnt. Ríkisstj. vill fyrir sitt leyti standa við það samkomulag sem gert var við aðila vinnumarkaðarins og tryggja að sú lækkun framfærslukostnaðar sem að var stefnt með þessum aðgerðum nái fram að ganga. Því er nauðsynlegt að gera á nokkra breytingu og lækka tolla af fólksbifreiðum meir en ráð var fyrir gert, eða niður í 10%, og breyta innflutningsgjaldinu og leggja það á í 7 flokkum eftir sprengirýmisstærð véla, úr 0 og upp í 32%. Það frv. sem hér liggur fyrir miðar að því að gera þessar breytingar og þær eiga að tryggja fyllilega að það markmið náist sem um var samið og þau verðlagsáhrif komi til framkvæmda þegar í stað.

Ég vænti þess að góð samstaða náist um að hraða afgreiðslu þessa máls hér á hinu háa Alþingi og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og hv. fjh.- og viðskn.