30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

16. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þegar í undirbúningi var frv. til l. um húsnæðissparnaðarreikninga var aflað upplýsinga úr næstu nágrannalöndum um það hvernig slíkum reikningum væri fyrir komið þar og ég minnist þess ekki að í þeim upplýsingum hafi legið fyrir að gert væri ráð fyrir að sparnaður með þeim hætti væri laus þegar um búseturéttaríbúðir væri að ræða. Ég hef ekki fullnægjandi upplýsingar tiltækar til að fullyrða að svo sé hvergi en mér er kunnugt um að svo er ekki t.d. í Svíþjóð. Skv. þeim skilningi, sem þar er á þessum svokölluðu húsnæðissparnaðarreikningum, er því ekki gert ráð fyrir að hægt sé að nota þá í þessu skyni. Ég skal ekki fullyrða hversu því er háttað um önnur lönd en ég minnist þess ekki að hafa séð það og það kom ekki upp í umræðunum um húsnæðissparnaðarreikningana, heldur ekki hér á hinu háa Alþingi á s.l. vori þegar þetta mál var til athugunar í fjh.- og viðskn. Það liggur því alveg ljóst fyrir að þessi hugsun lá ekki að baki þegar þessi löggjöf var sett, hvorki hjá Alþingi né hjá þeim mönnum sem undirbjuggu þetta frv.

Ég vil einnig taka það fram að ekki skiptir máli hvernig lögfræðingar úti í bæ skilgreina það sem þeir kalla búseturétt. Í lögum er engin ákvæði að finna um slíkan rétt og að sjálfsögðu ógjörningur að haga skattalögum svo að frádráttur eða skattahagræði sé gefið vegna réttar sem ekki er skilgreindur í lögum. Þetta held ég að öllum hv. þm. eigi að vera ljóst og ég tel nauðsynlegt að þessi athugasemd komi fram strax við 1. umræðu málsins.

Á hinn bóginn er t.d. svo í Noregi að húsnæðissparnaðarreikningar nýtast þeim sem vilja reisa sér sumarhús eða sumarbústað. Ég minnist þess einmitt að í Alþýðublaðinu fyrir ekki alllöngu var nákvæmlega skilgreint hver hugsun þeirra Alþýðuflokksmanna væri í sambandi við búseturéttaríbúðirnar. Þá var sérstaklega talað um að menn vildu fremur en leggja fé í íbúðir nota peningana til dýrs munaðar eins og lystisnekkja eða sumarbústaða. Skal ég ekki segja hvort það eigi að vera næsta stigið í sambandi við þessi mál.

Hugmyndin á bak við húsnæðissparnaðarreikningana er einmitt sú að reyna að efla almennan sparnað og til þess að gefa mönnum færi á því að eignast nokkurt fé áður en þeir ráðast í kaup á húsnæði, hvort sem það er nýtt eða gamalt. Er sú grunnhugsun í þessum lögum jafnframt því sem gert er ráð fyrir að fólk, sem er aldrað, hefur misst heilsu sína eða með öðrum hætti hefur ekki sömu möguleika og áður til að afla sér tekna, geti fengið fjármagnið laust eftir fimm ár. Sérstaklega er talað um öryrkja og fólk, sem er 67 ára að aldri, í því sambandi.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessi mál séu rædd sérstaklega hér á hinu háa Alþingi. Mér finnst það eðlilegt að þeir menn sem vilja fylgja þessu fram flytji frv. um það og þetta mál mun koma til skoðunar í fjh.og viðskn. En ég vek athygli á því að mér er ekki kunnugt um að þessi undanþága sé veitt í löndunum í kringum okkur en skal þó ekki um það fullyrða og hef gert ráðstafanir til að það verði kannað.

Ég vil jafnframt taka fram að það er algerlega útilokað, þegar veittur er sérstakur skattafsláttur vegna sparnaðar, að eitthvert félag, hvort sem það heitir Búseti eða eitthvað annað, geti gert um það sérstakan samning við einn banka að sparnaðurinn skuli fara fram í honum. Ef heimild yrði opnuð í lögum fyrir því að þessi afsláttur yrði útvíkkaður hlyti hann að sjálfsögðu að ná til allra lánastofnana jafnt og Alþýðubankinn gæti að sjálfsögðu ekki öðlast neinn einkarétt á slíkum sparnaði. Það kemur ekki til greina.

Ég skal svo ekki á þessu stigi hafa þessi orð fleiri. Ég geri ráð fyrir að frumvörp um búseturétt muni verða lögð fram á þessu þingi og þetta mál hlýtur að fylgja afgreiðslu þeirra og þeim hugmyndum sem menn hafa um þau efni í heild. En eins og sakir standa, þar sem ekki er til nein lagaskilgreining á því hvað búseturéttur er, er að sjálfsögðu tómt mál að tala um það að sá ímyndaði réttur geti verið forsenda fyrir sérstöku skattahagræði.