11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3063 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

293. mál, starf ríkissaksóknara

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 539 spyr hv. 8. þm. Reykv. um það atriði sem e.t.v. er grundvöllur að þeirri fsp. sem var hér síðast til umræðu. Til þess að gera svarið við þeirri fsp. sem skýrast las ég upp þá lagagrein sem kveður á um það hvernig ríkissaksóknari skal haga þessum störfum, en til skýringar skal ég lesa hana aftur, með leyfi forseta. Það er 130. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 7411974. Hún kveður á um að eftirtalin mál skuli sæta sókn og vörn ríkissaksóknara:

„1. Mál þar sem refsing fyrir brot getur varðað yfir 8 ára fangelsi samkvæmt hegningarlögum nr. 19/1940.

2. Mál sem sæta ákæru ríkissaksóknara samkvæmt 115. gr., sbr. 2. málsgr. 21. gr., ef:

a. brot getur varðað yfir 5 ára fangelsi samkvæmt lögum nr. 1911940 og lagaatriði eða sönnunar veita efni til slíkrar meðferðar, t.d. úrslit máls velta á líkum, mál er mjög umfangsmikið eða margbrotið;

b. sérstaklega þýðingarmikil vafaatriði eru í máli eða úrslit þess hafa annars mikla almenna þýðingu, hvort sem brot varðar við almenn hegningarlög eða önnur lög.

Ríkissaksóknari rannsakar og ákveður hverju sinni hvort mál er þess eðlis að það skuli sæta meðferð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar. Dómari skal í lok rannsóknar leita þess hvort ákærði æski þess að sókn og vörn verði flutt í máli hans ef dómara þykir vera mega heimild til að kveða svo á.“

Þetta er svar við fsp. á þskj. 539 um skyldu ríkissaksóknara að mæta í réttarhöldum. Ef ríkissaksóknari ætti að mæta í öllum málum sem hann ákærir í alls staðar á landinu mundi þurfa að margfalda hans starfslið og ég geri ráð fyrir að það sé af þeim ástæðum sem Alþingi hefur ákveðið að setja þessar skorður við þeirri skyldu sem hann hefur til þess.