12.03.1986
Efri deild: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3081 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

302. mál, veð

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Þetta mál er nú til 3. umr. Það er ekki ætlun mín að tefja framgang þessa máls, síður en svo. Ég hef hins vegar orðið var við að menn eru e.t.v. ekki á einu máli um hvar mörkin eru sett, þ.e. hvenær fiskeldi er hafið, og þar með hvenær veðhæfni er til að dreifa á grundvelli þessa frv. ef að lögum verður. Að vísu er að því vikið í athugasemdum að hér sé átt við hvort tveggja, uppeldi seiða og fisks.

Nú er kunnara en frá þurfi að segja að í landinu eru reknar margar fiskeldisstöðvar sem í sumum tilvikum bera nafnið fiskræktarstöðvar, þ.e. þegar um fiskræktarstöð er að ræða er það í raun fiskeldisstöð þrátt fyrir allt sem ætlað er að ala seiði, annaðhvort sumaralin eða þá í göngustærð. Sum þessara fyrirtækja eru því ekki stofnuð með það fyrir augum eða í þeim tilgangi að ala fisk til fullrar stærðar. Enda þótt að þessu sé vikið í athugasemdum með frv. teldi ég eðlilegt að einhver af hálfu nefndarmanna í fjh.- og viðskn. tæki af öll tvímæli í þessu efni, þ.e. hvenær veðhæfni yrði til að dreifa í hinum einstöku tilvikum.

Ég get sagt það fyrir mitt leyti að ég teldi að í mörgum tilvikum, og kannske í öllum tilvikum þegar um er að ræða það sem ég hef hér áður nefnt fiskræktarstöð, væri í sjálfu sér eðlilegt að um veðhæfni yrði að ræða strax og hrogn eru komin inn í stöð. Nú er mér ekki fullkunnugt um hvort tryggingafélög tryggja viðkomandi verðmæti á því stigi. E.t.v. fást um það upplýsingar hér í umræðunni. En mitt erindi hingað í ræðustólinn er sem sagt að tekin verði af öll tvímæli um það og ég vil að sá skilningur minn á frv. komi fram, enda þótt ekki standi þar neitt um hrogn heldur sé aðeins vikið að seiðum, að vísu í grg., í lagagreininni sjálfri er aðeins vikið að fiskeldi, að það sé heimilt að túlka þetta á þá lund að strax og hrogn eru komin inn í stöð verði varningurinn veðhæfur.