17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3138 í B-deild Alþingistíðinda. (2709)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hér er verið að afgreiða lagabálk með 129 greinum. Ég spyr hæstv. forseta hvort það sé viðeigandi að halda þessu gríni áfram. Hér eru að mér telst til í kringum 30 hv. þm., þar af langt frá því helmingur sem styður þetta frv. Hér var afgreidd áðan lagagrein þar sem menn þvert gegn vilja sínum fóru að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Ég vil leyfa mér að spyrja: Er hægt að bjóða hinu háa Alþingi upp á afgreiðslu af þessu tagi? Ef stjórnarliðar geta ekki komið í salinn og stutt frv. ríkisstj. getur það varla verið skylda okkar að breyta ákvörðunum okkar, sem kannske ætluðum ekki að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu, með því að vera að rétta hér upp hönd til að vera á móti svo að segja megi að það sé hægt að drusla hverri lagagrein fyrir sig í gegnum þingið. Ég mælist til, herra forseti, að þessu verði hætt hér og nú og Framsfl. og Sjálfstf. safni liði svo að þeir nái sínum eigin málum hér í gegn.