17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3141 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

231. mál, mötuneyti Pósts og síma í Thorvaldsensstræti

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur mikil gróska verið í tónlistar- og leiklistarlífi Reykjavíkur og til hefur orðið fjöldinn allur af tónlistar- og leikhópum sem með gífurlegri atorku og þrautseigju hafa staðið fyrir hverjum listaviðburðinum á fætur öðrum. Fyrir utan tvísýn rekstrarskilyrði eiga allir þessir leik- og tónlistarhópar við þann vanda að etja að hafa hvergi í öruggt hús að venda, hvorki til æfinga né til flutnings leikverka eða tónlistar. Hér er um fjölmarga aðila að ræða og vil ég hér aðeins nefna nokkra. Á leiklistarsviðinu: Alþýðuleikhúsið, Egg-leikhúsið, Revíuleikhúsið, Hitt leikhúsið, Gránufélagið og Svart & sykurlaust. Á tónlistarsviðinu: Tónlistarfélag Reykjavíkur, Kammersveit Reykjavíkur, Musica nova, Musica antiqua, Kammermúsikklúbbinn, alla kórana í bænum, Íslensku hljómsveitina o.fl.

Öll þessi listastarfsemi er í reynd húsnæðislaus og reyndar eru í höfuðborginni aðeins tvær byggingar sem ætlaðar eru sérstaklega til leiklistar, engin ætluð sérstaklega til tónleikahalds. Á meðan svo er ástatt stendur hins vegar hús hér í miðborg Reykjavíkur sem leyst gæti einhvern hluta þessa vanda. Það er núverandi mötuneyti Pósts og síma í Thorvaldsensstræti sem áður hét Sigtún og þar áður Sjálfstæðishúsið. Þetta hús hefur á að skipa prýðilegu sviði og sviðsaðstöðu og hefur marga eiginleika sem gert gætu það að bæði góðu og líflegu listahúsi í hjarta borgarinnar. Nú er það hins vegar eingöngu nýtt sem mötuneyti fyrir starfsmenn Pósts og síma í hádeginu og nýtist því engan veginn eins og efni standa til.

Þeirri hugmynd að nýta þetta hús til tónlistar- og leiklistarflutnings hefur áður verið hreyft og hefur núverandi hæstv. menntmrh. ítrekað lýst sig fylgjandi hugmyndinni og sýnt þessu máli hinn ágætasta skilning. Væri ekki verra að hæstv. menntmrh. léti hér skoðun sína í ljós á eftir, eftir því sem þingsköp leyfa.

Málefni Pósts og síma, sem hafa húsið nú til umráða, heyra hins vegar til vald- og verksviðs hæstv. samgrh. sem þar með hefur úrslit þessa máls í sinni hendi. Því beini ég þeirri fsp. til hæstv. samgrh. hvaða afstöðu hann hafi til þeirrar hugmyndar að gera núverandi mötuneyti Póst- og símamálastofnunar í Thorvaldsensstræti að tónlistar- og leikhúsi í hjarta Reykjavíkur. Vera kann að hæstv. ráðh. hafi þegar gert eitthvað í málinu og ef svo er væri fróðlegt að vita hvað það væri og með hvaða árangri.