17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

292. mál, fjármögnun rannsókna á hvalastofninum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Í Morgunblaðinu birtist 26. febrúar s.l. frétt og hljóðar fyrirsögnin svo, með leyfi forseta: „Japanir kaupa engar hvalaafurðir í ár“, segir Craig van Not talsmaður umhverfisverndarsamtaka í Bandaríkjunum.“

Frétt þessi er þess efnis að ég tel ástæðu til ef ég mætti, með leyfi forseta, lesa aðeins upphafið: „Japanir hafa tilkynnt bandarísku ríkisstjórninni að þeir muni ekki kaupa neinar hvalaafurðir á þessu ári, að sögn Craig van Not, talsmanns samstarfshóps umhverfisverndarfélaga um hvalavernd. Hann sagði að Japanir hefðu einnig tilkynnt Íslendingum um þessa ákvörðun en Halldór Ásgrímsson sjútvrh. vísaði því á bug í samtali við Morgunblaðið í gær, en sagði að alltaf hefði ríkt óvissa um kaup Japana á hvalafurðum. Aðspurður um hvort hægt væri að selja hvalafurðir annað kvað hann nei við.“

Ég skal ekki eyða tíma með því að lesa þessa frétt frekar, en þar segir einnig að ástæðan fyrir því að Japanir muni ekki kaupa neinar hvalaafurðir í ár, hvorki af Íslendingum né öðrum, sé sú að þeir eiga þá á hættu að glata fiskveiðiréttindum sínum í bandarískri lögsögu ef þeir gerðu það. Þar hafa Japanir veitt milli 600 þús. og 900 þús. lestir á ári og aflaverðmæti þess er um 400-500 millj. bandaríkjadala.

Þessi frétt kemur engum á óvart sem fylgst hefur með umræðunni um stöðvun hvalveiða. Því miður hefur sú umræða oft mótast af tilfinningalegum ofsa fremur en skynsemi, og eins og fram kom í máli hæstv. ráðh. áðan hættir honum mjög til að vísa til útlendinga sem hafa bæði látið uppi skoðanir og gert fyrirspurnir um þessi mál. Ég held að ég geti ekki á nokkurn hátt borið neina ábyrgð á því þannig að ég vænti þess að því ergelsi verði haldið utan við þá umræðu sem hér fer fram.

Að mínu viti er í þessu máli skynsemi nauðsynleg og alþjóðlegt samstarf um verndun og viðhald dýrastofna og virðing Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi það sem Alþingi þarf að líta á af ýtrustu alvöru. Það er því ekki til gagns að lesa ummæli Kristjáns Loftssonar í Tímanum í vetur, en hann er forstöðumaður Hvals hf. Ég held að þau orð séu ekki til styrktar því að skynsamlega sé á þessum málum haldið. Þar segir hann m.a. - og einmitt orð af þessum toga móta gjarnan þá umræðu sem hér er gerð að umtalsefni:

„Það er lítil ástæða fyrir okkur Íslendinga að óttast aðgerðir þeirra Grænfriðunga í Bandaríkjunum í sumar. Það er greinilegt að slagkraftur þeirra er ekki sá sem þeir segja hann vera. Grænfriðungar og önnur dýraverndunarsamtök hafa sagt að þau gætu valdið gífurlegum skemmdum á mörkuðum okkar víða í Bandaríkjunum þar sem þau eiga að hafa greiðan aðgang að stjórnvöldum og svo og svo mikil áhrif á stjórnsýslusviðið.“

Enn fremur segir: „Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru að friða þessa dýraverndarhópa með því að vera að andskotast í öðrum sem ekki eru á þeirra heimavelli. Baráttan gegn hvalveiðum og fleiru er pólitík sem er keyrð á erlendum vettvangi til þess að friða dýraverndunarhópa og tryggja að friður sé fyrir þeim heima í Bandaríkjunum.“ Umræða af þessu tagi á ekki erindi í þetta mál.

Eins og hæstv. sjútvrh. hefur margsagt er mikið í húfi að hér takist vel til. Íslendingar eiga jafnt æru sína og e.t.v. stórfellda hagsmuni undir því. Engin fjárveiting er fyrir áætluðum hvalarannsóknum og sölu hvalaafurða frá veiðunum er ætlað að standa undir kostnaði við þær. Fari hins vegar svo að sú sala bregðist sýnist mér málið í sérkennilegri stöðu. Því taldi ég ástæðu til að leggja fram fsp. á þskj. 538 sem hljóðar svo, með leyfi forseta, og ég bið forseta um augnabliksþolinmæði:

„1. Er sala á hval til Japans tryggð þann tíma sem áætlaðar rannsóknir á hvalastofninum eiga að fara fram?

2. Hvaða leiða hyggst ráðherra leita ef fjármögnun rannsóknaráætlana með sölu á hval til Japans bregst, t.d. fyrir þrýsting frá Bandaríkjamönnum?

3. Hver voru viðbrögð Bandaríkjastjórnar við erindi ríkisstj. um hvalveiðimálið í viðræðum við Shultz utanríkisráðherra 6. nóv. s.l. í Reykjavík?"