24.03.1986
Neðri deild: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3275 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

300. mál, Rannsóknastofnun útflutnings- og markaðsmála

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 551 flyt ég ásamt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og Geir Gunnarssyni frv. til laga um Rannsóknastofnun útflutnings- og markaðsmála.

Frv. skiptist í tíu greinar og þar er gert ráð fyrir því í stuttu máli að komið verði á fót Rannsóknastofnun útflutnings- og markaðsmála sem hafi svipaða stöðu og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og aðrar rannsóknastofnanir skv. lögunum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

Ríkisstj. hefur á þessu þingi lagt fram frv. til laga um útflutningsráð og má segja að að baki frv. ríkisstj. annars vegar og þessu frv. hins vegar liggi svipuð hugsun, þ.e. tilraun til að samræma markaðs- og útflutningsstarfsemi á vegum íslenskra stofnana og fyrirtækja.

Í 1. gr. segir:

„Stofna skal Rannsóknastofnun útflutnings- og markaðsmála er skal vera sjálfstæð stofnun og heyra undir viðskrn.“

Eins og kunnugt er heyra Rannsóknastofnanir byggingariðnaðarins og landbúnaðarins undir viðkomandi fagráðuneyti. Ég tel að það fyrirkomulag út af fyrir sig orki tvímælis að þessar stofnanir séu undir mismunandi ráðuneytum, en ég held hins vegar að það að Rannsóknastofnun útflutnings- og markaðsmála heyri undir viðskrn. geti varla orkað tvímælis vegna þess að viðskrn. hefur með öll útflutningsmál og öll útflutningsleyfi að gera.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að í stjórn þessarar stofnunar sitji þrír menn skipaðir af viðskrh. til fjögurra ára í senn. Síðan er gert ráð fyrir því að stofnuninni verði sett ákveðin ráðgjafarnefnd og nánar er kveðið á um hana í 5. gr. frv., en þar segir:

„Við Rannsóknastofnun útflutnings- og markaðsmála skal starfa ráðgjafarnefnd. Ráðgjafarnefndin skal skipuð þannig að hagsmunasamtök og stofnanir, sem hlut eiga að máli að mati ráðherra, geti átt þar fulltrúa. Skal leggja áherslu á að samtök launafólks eigi fulltrúa í nefndinni til jafns við atvinnurekendur. Ráðgjafarnefndina skipi mest 15 menn, en minnst 11.“

Það er gert ráð fyrir því að forstjóri stofnunarinnar eigi sæti í ráðgjafarnefndinni og henni er ætlað það hlutverk að fylgjast með rekstri og vera tengiliður á milli stofnunarinnar og útflutnings- og markaðsstarfsemi yfirleitt. Nefndin á að vera forstjóra og stjórn til ráðuneytis og gera tillögur um starfsáætlun. Ráðgjafarnefndin er ólaunuð.

Í 6. gr. eru talin upp meginverkefni þessarar Rannsóknastofnunar útflutnings- og markaðsmála. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Verkefni Rannsóknastofnunar útflutnings- og markaðsmála skulu vera sem hér segir:

1. Að fylgjast með þróun útflutningsmála og að stunda markaðsrannsóknir erlendis, ýmist ein sér eða í samvinnu við einstök fyrirtæki og sölusamtök.

2. Að fylgjast með markaðsstöðu innlends iðnaðar og gera tillögur um að auka hlutdeild hans á innanlandsmarkaði.

3. Að fylgjast með verðlagi og gæðum innflutnings og setja reglur um gæði vöru á almennum innlendum markaði í samráði við viðkomandi rannsóknastofnanir.

4. Að stuðla að samstarfi annarra rannsóknastofnana um markaðsmál, tilraunaframleiðslu og vöruþróun.

5. Að taka þátt í og undirbúa ásamt fyrirtækjum og sölusamtökum reglulegt markaðsátak fyrir íslenskar vörur og þjónustu á alþjóðamörkuðum.

6. Að vera fyrirtækjum til ráðuneytis um markaðssetningu og vöruþróun. Heimilt er stofnuninni að greiða kostnað við markaðsmál og vöruþróun nýrra fyrirtækja allt að tveimur árum eftir að fyrirtæki er sett á stofn samkvæmt nánari ákvörðunum stjórnar stofnunarinnar og samkvæmt fjárhagsáætlunum hverju sinni. Þá er stofnuninni heimilt að styðja eldri fyrirtæki á sama hátt samkvæmt nánari ákvörðun stjórnarinnar.

7. Að vera viðskrh. og ríkisstj. til ráðuneytis um hvað eina er lýtur að markaðsmálum.

8. Að gera áætlanir um markaðsþróun til nokkurra ára í senn.“

Í 8. gr. kemur fram að gert er ráð fyrir því að stjórn stofnunarinnar geti ákveðið að stuðla að tilraunaframleiðslu á tilteknum vörum. Skal þá miða við að aðild stofnunarinnar standi aðeins skamman tíma, mest fimm ár, á meðan viðkomandi fyrirtæki er á reynsluskeiði.

Í 9. gr. segir:

„Árlega skal stjórn stofnunarinnar efna til hugmyndasamkeppni um verkefni er ætla má að geti aukið útflutningsverðmæti íslenskrar vöru og þjónustu.“

Í grg. er nokkru ítarlegar fjallað um þetta frv. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Eins og nú standa sakir er engum einum aðila falið að hafa heildaryfirsýn yfir markaðsmál íslenskra framleiðsluafurða eða þjónustu erlendis. Þetta er bagalegt og óeðlilegt hjá þjóð sem byggir stóran hluta lífsafkomu sinnar á útflutningi.

Hér á landi eru starfandi ríkisstuddar rannsóknastofnanir landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar eins og eðlilegt er, en markaðssetning og vöruþróun á markaði erlendis hefur orðið út undan að þessu leyti. Þó ber auðvitað að minna á og nefna myndarlegt framtak á vegum sölusamtaka og einstakra stofnana eins og Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins, en samræmingu skortir. Vafalaust er skipting rannsóknastofnana á hefðbundnar atvinnugreinar samstarfi fjötur um fót og við svo búið má ekki lengur standa.

Þetta frv. er flutt til að skapa umræðugrundvöll á Alþingi og annars staðar í þjóðfélaginu um þessi mál. Kann sitthvað í frv. að þarfnast sérstakrar athugunar, en aðalatriði þess eru sem hér segir:

1. Komið verði á fót Rannsóknastofnun útflutnings og markaðsmála sem hafi sömu stöðu og aðrar rannsóknastofnanir hafa í lögunum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Vel getur komið til álita að þessi nýja starfsemi hafi sjálfstæða stöðu, verði sjálfseignarstofnun, en þeirri hugmynd hefur áður verið hreyft á þingi varðandi rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Stjórnkerfi það sem hér er gerð tillaga um er að öllu leyti sniðið eftir lögunum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Þó er gert ráð fyrir því að ráðherra hafi með reglugerð heimild til að ákveða til fjögurra ára í senn hverjir skipi ráðgjafarnefndina skv. 5. gr., enda byggist reglugerðin á þeim grundvallaratriðum sem rakin eru í greininni.

2. Í 6. gr. eru talin upp verkefni stofnunarinnar og er ástæðulaust að endurtaka þá upptalningu í grg. Þó skal sérstaklega tekið fram að eðlilegt þótti að taka markaðsmál innanlands til sérstakrar athugunar því að hér er um nátengd mál að ræða. Er einnig eðlilegt að stofnunin athugi sérstaklega eftir því sem ástæða er til innfluttar samkeppnisvörur. Er henni ætlað að setja gæðareglur um innflutning í samráði við þær stofnanir sem um þau mál geta dæmt. Er hér átt við Hollustuvernd ríkisins, matvælaeftirlitið, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og aðrar slíkar eftir eðli og tegund þeirrar vöru sem flutt er inn hverju sinni. Þá skal bent á að stofnuninni er fyrst og fremst ætlað að vera samræmingaraðili, jafnframt því að laða fram frumkvæði, fremur en að hún eigi sjálf og ein að skipuleggja verkefnin.

3. Í 10. gr. er gert ráð fyrir því að þessi stofnun geti ein eða í samvinnu við aðra, t.d. aðrar rannsóknastofnanir, stutt stofnun tilraunaframleiðslu með tilteknar vörutegundir. Í greininni er tekið fram að slíkur stuðningur hljóti þó alltaf að vera tímabundinn.

Frá því frv. þetta var samið hafa tvö þingmál verið flutt þar sem tekið er á skyldum málum. Annars vegar er um að ræða frv. um útflutningsráð og hins vegar þáltill. um menntun og þjálfun starfsfólks sem sinnir útflutningsmálum sérstaklega. Augljóst er því að meðal þingmanna er vaxandi skilningur og áhugi á þeim viðfangsefnum sem frv. þetta fjallar um. Er æskilegt að sem flestar hugmyndir um fyrirkomulag þessara mála komi til meðferðar á Alþingi. Þetta frv. getur vafalaust orðið góður umræðugrundvöllur ásamt þeim frv. og þingmálum sem þegar liggja fyrir um skyld mál. Má því ætla að þessu þingi ljúki ekki án þess að Alþingi taki af skarið um þennan hornstein okkar efnahagslífs sem er útflutningsverslunin og árangur hennar.“

Þetta var úr grg. þessa frv., herra forseti, og ég ætlaði að fara síðan nokkrum almennum orðum um forsendur þess.

Á árunum 1968-1981 fjölgaði fólki á vinnumarkaði á Íslandi. Á 13 árum, sem formaður Alþfl. kallar hinn glataða áratug, fjölgaði fólki á vinnumarkaði á Íslandi um 22 000 manns. Þrátt fyrir það varð veruleg fækkun á þessum 13 árum á starfsfólki í landbúnaði, fækkaði úr 10 000 í 6600 manns á aðeins 13 árum. Í fiskveiðum fjölgaði fólki um 1100 manns á þessum tíma. Fjölgun starfsfólks í fiskiðnaði varð um 5000 manns. Fjölgun fólks í öðrum iðnaði varð um 6000. Fjölgun fólks í viðskiptum, sem svo eru kölluð, varð um 4000 manns. En fjölgun fólks í þjónustu, aðallega opinberri þjónustu og þá sérstaklega heilbrigðisþjónustu, varð úr 13 300 manns í 27 000 manns á þessum tíma. Því er nú spáð að fjölgun starfsfólks fram til aldamóta eða fram til ársins 2003 á vinnumarkaði verði um 33 000 manns, en 50 000 manns bætist við á vinnumarkaði okkar fram til ársins 2023.

Í umræðum um þessi mál höfum við í Alþb. lagt áherslu á það sem við köllum nýja sókn í atvinnulífinu. Við höfum bent á að það séu möguleikar á að taka við öllu þessu nýja fólki á komandi árum ef rétt er að málum staðið. Í þeim efnum höfum við m.a. bent á tvennt:

Í fyrsta lagi að í störfum tengdum svonefndri upplýsingatækni gætu orðið hér um næstu aldamót um 18 000 manns og framleiðsluverðmæti þessara greina gæti orðið á milli 15 og 20 milljarðar króna á verðlagi ársins 1985. Við höfum einnig bent á að með því að halda til haga þeim náttúrugæðum sem hér eru varðandi fiskeldi megi gera ráð fyrir því að hér verði í störfum við þá atvinnugrein um 3000 manns um næstu aldamót sem skapi 11 milljarða króna í þjóðarframleiðslu.

Þá hefur verið bent á margvíslega möguleika sem um sé að ræða í líftækni og efnistækni. Alls staðar þar sem þessi mál eru skoðuð kemur auðvitað í ljós að sjávarútvegurinn er undirstaðan.

Þá höfum við einnig bent á að það er brýn nauðsyn að gera sérstakt átak til að efla markaðsstöðu iðnaðarins hér innanlands. Íslenskur iðnaður hefur farið halloka fyrir innflutningi á síðustu misserum. Það er ekki nokkur vafi á því að ef rétt er á málum haldið er hægt að auka hlutdeild innlends iðnaðar á markaði og þar með að stórfjölga störfum í íslenskum iðnaði.

Þá hefur verið bent á að það eru möguleikar á að auka mjög verulega þau verðmæti sem þegar eru fólgin í okkar útflutningi, m.a. var flutt um það till. á síðasta þingi af hv. 7. þm. Reykv. þar sem bent var á þá möguleika að auka verðmæti útflutnings af sjávarafurðum um 1/3.

Því fer því víðs fjarri að möguleikarnir séu tæmdir. Það eru gífurlegir möguleikar hér í efnahags- og atvinnulífi, bæði til að taka við hinu nýja fólki sem kemur á vinnumarkað á komandi árum og líka til þess að bæta kjör þeirra sem þegar eru á vinnumarkaði og til að stytta vinnutímann frá því sem nú er.

Ekkert af þessu fæst þó með einhverri „patent“ lausn. Hún er ekki til. Hér er um að ræða markvissa og þrotlausa vinnu. Gullgrafarahugsunarhátturinn gildir ekki lengur. Hér þurfa menn að setja sér langsæ markmið, mikið langsærri en við höfum oft gert á undanförnum árum og örugglega langsærri en skammtímasjónarmið gróðahyggjunnar eru gjarnan með efst á blaði þegar um er að ræða fjárfestingu í atvinnumálum.

Hér er um að ræða að mínu mati, herra forseti, eitt stærsta mál íslenskra stjórnmála og efnahagsmála um þessar mundir, þ.e. hvernig er hægt að auka framleiðsluverðmæti vinnunnar hér til að skapa betri lífskjör ásamt auðvitað því að jafna frá því sem nú er um að ræða.

Það er fróðlegt að bera saman hverjar eru þjóðartekjur á mann á Íslandi eftir hverja unna klukkustund í samanburði við önnur lönd. Ég hef orðið mér úti um tölur um þjóðarframleiðslu eftir hverja unna klukkustund á Íslandi og í nokkrum öðrum löndum. Það eru hrikalegar tölur í raun og veru. Ef við segjum að þjóðarframleiðsla eftir unna klukkustund á Íslandi sé 100 er talan í Bandaríkjunum 127 eða 27% hærri en hér, í Kanada 114 eða 14% hærri en hér og í Svíþjóð 131 eða 31% hærra en hér. Þetta er þjóðarframleiðsla, verðmæti eftir hverja skráða unna vinnustund.

Við höfum gjarnan stært okkur af því að vera með þjóðartekjur sem eru einhverjar þær hæstu í heimi og það er rétt. Hins vegar gleymist stundum að fara yfir hvað mikill hluti af þessum þjóðartekjum verður til með vinnuþrældómi. Ég held að það komi í ljós af þessum tölum hver munurinn er á verðmætasköpun eftir hverja unna stund hér á landi og annars staðar, í þeim löndum sem við viljum miða okkur við.

Ég hef einnig aflað mér upplýsinga um vinnutíma á Íslandi og í þessum þremur eða fjórum samanburðarlöndum. Ef vinnutíminn í Íslandi er 100 er hann 80 í Bandaríkjunum, 80 í Kanada og 77 í Svíþjóð.

Ef við tökum síðan þjóðarframleiðslu í heild á tímann kemur einnig margt fróðlegt fram. Á Íslandi er talan 100, í Bandaríkjunum 211 eða meira en tvisvar sinnum hærri en á Íslandi, í Kanada 194, í Danmörku 175 og í Svíþjóð 196.

Niðurstaðan verður því sú, herra forseti, að raunlaunamunur eftir hverja unna vinnustund á Íslandi og í samanburðarlöndunum sem ég nefndi er á bilinu 75-100%. Þá geta menn velt því fyrir sér hvað er að, hvernig stendur á því að okkar fólk vinnur þetta mikið og þjóðartekjur eru þetta háar alls á mann, hvað verður um peningana þegar þeir birtast ekki í lífskjörunum með sama hætti og í þessum samanburðarlöndum. Ég hygg að ástæðurnar séu mjög margar en ég vil nefna þessar, herra forseti:

Fyrsta ástæðan, sem skerðir það sem til skiptanna er áður en það kemur til launamannsins, er gífurlega þung yfirbygging á íslenska þjóðfélaginu. Hér er ég ekki að tala um hina félagslegu þjónustu heldur margs konar yfirbyggingu, m.a. banka og annarra slíkra aðila.

Önnur meginástæðan er rándýrt milliliðakerfi. Það hefur komið í ljós að innflutningsverslunin á Íslandi skilar vörum sem eru 25-30% dýrari en innflutningsverslun nágrannalanda okkar gerir.

Í þriðja lagi er ástæðan er sú að hér höfum við á undanförnum árum og áratugum varið verulegum fjármunum til fjárfestingar í landinu sem ekki hefur skilað sér í batnandi lífskjörum. Hér er ég ekki fyrst og fremst að tala um sjávarútveginn eins og er mikil lenska. Ég held að í sjávarútveginum sé ekki yfirfjárfesting sem svo er kölluð um þessar mundir. Þvert á móti held ég að það megi með rökum benda á að það þurfi að setja fjármuni í að endurnýja sjávarútveginn, fiskiskipaflotann og fiskvinnsluna, til þess að þessar greinar skili meiri verðmætum eftir hverja unna vinnustund en er í dag.

Fjórða ástæðan fyrir því að ekki er unnt og ekki hefur verið unnt að greiða hér miklu hærra kaup en hér er um að ræða nú er hrottaleg og vaxandi misskipting á Íslandi. Fyrir fáeinum dögum komu fram upplýsingar um að 17% launamanna væru fyrir neðan svokölluð fátæktarmörk á alþjóðlega mælikvarða í tekjum sínum. Og það kom einnig fram að um 20 000 af 70 000 fjölskyldum, sem töldu fram laun eftir árið 1984, lifðu á tekjum sem væru innan við þessi svokölluðu fátæktarmörk. Fátæktarmörkin og þessi mikli fjöldi fyrir neðan þau, hvað segir það okkur á sama tíma og tekjur á mann eru jafnháar hér og raun ber vitni um? Það segir okkur að sumir hafa miklu meira en nokkru sinni fyrr. Fátæktin hjá fjölda fólks, 20 000 fjölskyldum eða hver talan nú er, sýnir okkur að það eru stórfelldir fjármunir sem hafa runnið til tiltölulega lítils hóps manna í þjóðfélaginu. Það er litli forríki minni hlutinn sem heldur meiri hluta þjóðarinnar um þessar mundir í skuldafangelsi.

Þetta eru, herra forseti, þrjár eða fjórar meginástæður þess hve kaupið er lágt miðað við grannlönd okkar. Ein leiðin til að bæta úr er að útflutningsstarfsemin verði markvissari, að við sækjum fram á þá markaði sem skila okkur mestum tekjum, þjóðarbúinu í heild, launamönnum sjálfum og fyrirtækjunum sem slíkum.

Ég tel að með markvissri vinnu á næstu árum og áratugum, því að þetta er ekki skyndiverk, megi ná hér sambærilegum lífskjörum við það sem er í grannlöndum okkar bæði í kaupi og félagslegri þjónustu.

Við höfum orðið fyrir verulegum vanda í efnahagsmálum seinni áratuga. Það hafa verið stöðugar sveiflur, mikil verðbólga, hagvöxtur var hér verulegur um skeið og síðan fall í þjóðartekjum. Við þurfum að gera það sem við getum til að stuðla að stöðugleika. Það sem gerst hefur í efnahagsmálum á síðustu dögum er ósköp einfaldlega að aðilar vinnumarkaðarins náðu samkomulagi um að nota góðærið til að taka verðbólguna niður, til þess að ná stöðugleika í efnahagsmálum sem margir telja forsendur þess að unnt sé að byggja upp sæmilegt þjóðfélag til frambúðar.

Hvað sem því líður er hitt ljóst, herra forseti, að ég held að frv. sem ég mæli hér fyrir eigi erindi við þingheim og almenning í þessu landi vegna þess að þar er tekið á mikilvægu máli. Útflutningsverslunin er vissulega einn meginhornsteinn okkar efnahagskerfis í heild. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að þetta mál fái hér meðferð á hv. Alþingi um leið og aðrar tillögur fá hér meðferð, bæði frv. ríkisstj. og þingmannatillaga sem komið hefur fram um svipað mál.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.

Umr. (atkvgr.) frestað.