25.03.1986
Efri deild: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3311 í B-deild Alþingistíðinda. (2914)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til þess að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég dró í efa að það væri rétt þegar hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði að allur þorri launþega nyti þessara réttinda. Ég hygg að ég fari rétt með það að hann bætti síðar við: í Reykjavík. (RA: En þetta á ekki við nema Reykjavík fyrst og fremst.) Ég aflaði mér upplýsinga um málið og þær upplýsingar eru á þá lund að iðnaðarmenn njóti þessara ferða- og fæðispeninga, en almennu verkalýðsfélögin ekki. Þær upplýsingar eru komnar frá hagfræðingi Alþýðusambands Íslands og ég hef enga ástæðu til að vantreysta þeim. Ég skal hins vegar viðurkenna að ég hlýddi ekki á fréttir Ríkisútvarpsins núna áðan. En upplýsingar mínar um að félagar í almennu verkalýðsfélögunum njóti ekki þessara ferða- og fæðispeninga eru komnar frá hagfræðingi Alþýðusambands Íslands og ég hef enga ástæðu til að draga þær í efa.