25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3315 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

283. mál, sláturhús á Fagurhólsmýri

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 519 hef ég leyft mér að bera fram ásamt hv. þm. Helga Seljan fsp. til landbrh. um starfsleyfi fyrir sláturhús á Fagurhólsmýri. Fsp. er svohljóðandi:

„Er landbrh. reiðubúinn að stuðla að því í samvinnu við heimamenn að gerðar verði viðunandi endurbætur á sláturhúsinu á Fagurhólsmýri í Öræfum og að veita því síðan starfsleyfi til frambúðar, sbr. ályktun Alþingis frá 8. maí 1984 og umsögn sauðfjársjúkdómanefndar um tillögur Búnaðarfélags Hofshrepps frá 2. des. 1981?"

Þetta er fsp.þál. sem vitnað er til var samþykkt á Alþingi 8. maí 1984. Ég leyfi mér að hafa hana hér yfir: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga hvernig bæta megi rekstrargrundvöll sláturhúsa, m.a. með því að tryggja sláturhúsunum önnur verkefni svo að lengja megi nýtingartíma þeirra. Enn fremur verði kannað hvort hagkvæmt sé að endurbæta eldri sláturhús svo að viðunandi sé eða ráðast í nýbyggingar.“

Ég átti hlut að þeirri tillögu sem varð kveikjan að þessari þál. Alþingis og þar var m.a. vitnað til aðstæðna eins og þeirra sem ríkja í Öræfum og reyndar víðar þar sem starfrækt eru tiltölulega lítil sláturhús sem þarfnast endurbóta.

Búnaðarfélag Hofshrepps hefur ítrekað fjallað um þessi mál á sínum vegum og sú umsögn sauðfjársjúkdómanefndar sem vitnað er til er viðbrögð við tilmælum Búnaðarfélagsins á sínum tíma en þar sagði í erindi frá sauðfjársjúkdómanefnd 4. apríl 1982:

„Sauðfjársjúkdómanefnd er sammála 1. lið tillögu Búnaðarfélags Hofshrepps. Frá sjónarmiði Sauðfjárveikivarna væri æskilegt að hægt verði að starfrækja vel búið sláturhús á Fagurhólsmýri.“

Á vettvangi Búnaðarfélags Hofshrepps hefur verið fjallað um þessi efni, ítrekað, eins og ég gat um, síðast á fundi 8. des. s.l., og gerð um það ítarleg ályktun og m.a. beint tilmælum til þm. og fleiri að taka á þessum málum af því tilefni að héraðsdýralæknir í Austur-Skaftafellssýslu gerir ekki ráð fyrir að geta veitt sláturhúsi á Fagurhólsmýri starfsleyfi lengur en út þetta ár eða vegna slátrunar haustið 1986.

Herra forseti. Það er ljóst að hér þurfa að koma til viðbrögð til þess að hægt verði að standa að úrbótum á þessu húsi og tryggja rekstur þess til frambúðar eins og ég tel æskilegt og því er þessi fsp. fram lögð.