04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

88. mál, iðnaðarlög

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að frjálshyggjan ríður ekki við einteyming. Talsmenn Framsfl. gerast nú harðir í stuðningi við þá hugsun og þykir mér að breyting hafi orðið á í þeim efnum hjá þeim stjórnmálaflokki sem kennir sig við framsókn.

Frv. sem hér liggur fyrir kallar á ýmsar spurningar, spurningar um hvort, ef af þessu yrði, það heimilaði ekki að útlendingar gætu komist á kaf í fiskiðnað hér á landi. Ég veit sjálfur að Þjóðverjar vilja gjarnan komast í slíkt hér á landi sem þýðir það aftur að þeir gætu stýrt því að skip lönduðu svo og svo mikið í Norður-Þýskalandi. Það kallar á hugleiðingar um hvernig farið yrði með þau mál ef til kæmi. Ég sé ekki annað en að ef þetta frv. yrði samþykkt kallaði það á slík fyrirtæki. Það er líka alveg eins víst að ef þetta væri svo í dag hefðu Rússar ekki þurft að spyrja að því hvort þeir gerðust meirihlutaaðilar í stálveri hér o.s.frv. Ég hygg að hvert mál þurfi að skoða fyrir sig og því sé óþarfi að breyta þessum lögum. Alþingi á að fjalla um það þegar útlendingar sækjast eftir að komast í atvinnurekstur hér á landi. Við verðum að hafa í huga smæð þjóðfélagsins, hversu það er miklu smærra heldur en þau þjóðfélög sem eru í kringum okkur, þjóðfélög sem hafa aðrar reglur en við búum við. Ég tel mjög varhugavert að samþykkja frv. sem þetta einmitt vegna þess að það gæti kallað á það að við misstum stjórn atvinnumála úr höndunum, misstum þau annað, sem aftur yrði til þess að íslenskt þjóðarbú myndi bíða tjón af.

Ég sé ekki fyrir mér hvaða þörf er á þessari breytingu og hef ekki fundið þau rök í grg. heldur. Ég er ekkert á móti því að útlendingar taki þátt í atvinnurekstri með Íslendingum en við Íslendingar verðum að hafa fullt forræði fyrir þeim fyrirtækjum þannig að við sjáum hvert þau leiða okkur.

Það mætti í gamni spyrja hvort þetta er alfarið stefna Framsfl. að opna útlendingum leiðir til atvinnustarfsemi hér á fullu, hvort það er einhuga stefna framsóknarmanna að gera svo. Mér dettur í hug að þm. eins og Páll Pétursson og Davíð Aðalsteinsson gætu svarað þessu og væri gaman að vita hvernig þessi stefnubreyting hefur átt sér stað. Ég vara við þeirri breytingu og sé ekki nein sérstök rök fyrir henni og bendi á þær hættur sem henni eru samfara.