07.04.1986
Neðri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3483 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

202. mál, verðbréfamiðlun

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar frv. til laga um Seðlabanka Íslands var til 1. umr. í hv. Nd. gerði hæstv. viðskrh. grein fyrir ýmsum málum sem óhjákvæmilegt væri að taka afstöðu til í tengslum við það frv. og viðskrn. hefði á prjónunum eða væri að leggja fram um það leyti. M.a. var þar um að ræða frv. til laga um verðbréfamiðlun, sem skömmu síðar var lagt fram í Ed., og frv. til laga um nafnskráningu skuldabréfa sem einnig var lagt fram í Ed. Nú hefur frv. um Seðlabanka Íslands verið til meðferðar í fjh.- og viðskn. hv. Nd. um nokkurt skeið, en hins vegar hefur sú nefnd af eðlilegum ástæðum ekki fengið til meðferðar 202. og 203. mál þessa þings sem hér er nú á dagskrá, þ.e. það fyrrnefnda, frv. um verðbréfamiðlun, er núna loksins komið frá Ed.

Hér er um að ræða gífurlega stórt mál og ég bendi á að Alþb. flutti snemma á þessu þingi frv. til laga um ráðstafanir til að koma í veg fyrir okurlánastarfsemi þar sem byggt var á sömu grundvallaratriðum og síðar birtust í þessum tveimur stjfrv. Annars vegar gerði frv. Alþb. ráð fyrir að verðbréfamiðlun yrði háð leyfum eftir alveg ákveðnum reglum, eins og gert er ráð fyrir í stjfrv., og hins vegar var í frv. Alþb. byggt á þeirri forsendu að skuldabréf væru alltaf skráð á nafn. Svokölluð handhafaskuldabréf, sem hafa verið uppspretta okurlánastarfsemi hér í landinu í vaxandi mæli á síðustu misserum, eru þannig felld niður.

Nú ber svo við að ofan úr Ed. berst okkur frv. til laga um verðbréfamiðlun, en frv. til laga um nafnskráningu skuldabréfa er hins vegar ekki komið hingað enn þá og mér er ekki kunnugt um að það sé komið út úr fjh.- og viðskn. hv. Ed. Ég tel að þessi mál séu svo skyld að það sé óhjákvæmilegt þegar við 1. umr. frv. um verðbréfamiðlun að spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort það sé ætlun ráðherrans og ríkisstj. að slíta þessi mál í sundur eða hvort einhver alvara var á bak við frv. ríkisstj. um nafnskráningu skuldabréfa og hvort það er þá ætlunin að reyna að knýja það mál til afgreiðslu ef nokkur kostur er á þeim tíu dögum eða svo sem eftir eru af starfsemi löggjafarsamkomunnar, þ.e. deildanna, ef þingi lýkur um sumarmál eins og gert hafði verið ráð fyrir og rætt hefur verið um.

Ég beini þessari spurningu til hæstv. viðskrh. því að ég tel óhjákvæmilegt að þessar upplýsingar liggi fyrir. Fari svo, mót vonum mínum, að ríkisstj. muni ekki leita eftir því eða meiri hlutinn á Alþingi að nafnskráning skuldabréfa verði að lögum mun ég fyrir mitt leyti beita mér fyrir því að flytja brtt. við frv. um verðbréfamiðlun sem fela í sér þau ákvæði sem gert er ráð fyrir í frv. um nafnskráningu skuldabréfa og láta þá á það reyna hvort hér í Nd. er meiri vilji til að koma þessu máli fram en virðist vera í hv. Ed. þingsins.