08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3515 í B-deild Alþingistíðinda. (3160)

381. mál, umsvif erlendra sendiráða

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég flyt fsp. á þskj. 697 til utanrrh. um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða. Er fsp. svohljóðandi:

„Með hvaða hætti hefur verið staðið að framkvæmd þál. frá 13. júní 1985 um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða hér á landi?"

þál. frá 13. júní í fyrra sem hér er vitnað til var flutt af utanrmn. og hljóðaði svo, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að leggja áherslu á að umsvif erlendra sendiráða séu jafnan innan hæfilegra marka og felur ráðherra að fylgjast með því og gera, ef þörf krefur, með samningum eða einhliða, ráðstafanir í þessu skyni á grundvelli laga nr. 16 frá 1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, og laga nr. 30/1980, um breytingu á lögum nr. 60/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna með sérstakri hliðsjón af íslenskum aðstæðum.“

Það er um framkvæmd þessarar þál. sem hér er spurt. Það er ekki að ástæðulausu að þetta mál er tekið hér á dagskrá í framhaldi af ályktun Alþingis frá því í fyrrasumar. Umsvif erlendra sendiráða hafa farið mjög vaxandi hér á síðustu árum.

Utanrrn. tók saman yfirlit fyrir tveimur árum, í janúar 1984, yfir fjölda starfsmanna og húsakaup erlendra sendiráða hér í borg, sem var mjög fróðlegt aflestrar, og þar kemur einmitt fram þessi gífurlega aukning á umsvifum erlendu sendiráðanna. Þar kemur m.a. fram að Sovétríkin eru með langstærstan hóp erlendra sendimanna hérlendis og hefur þeim fjölgað um tvo frá því fyrir fimm árum en aðeins um einn hjá bandaríska sendiráðinu. Starfandi hjá sovéska sendiráðinu eru þá 37 erlendir starfsmenn, enginn íslenskur starfsmaður, en erlent skyldulið 43, samtals 80. Bandaríkin koma næst með 22 erlenda starfsmenn og jafnmarga innlenda. Erlent skyldulið er 21. Útlendingar eru alls 43. Næstir koma í röðinni Frakkar. Þar eru alls 20 útlendingar starfandi ásamt skylduliði sem er innifalið í þeirri tölu. Ég rek ekki fjölda hjá öðrum sendiráðum, en það má sjá á þessum tölum að hér er um stóra hópa að ræða og mikið starfslið.

Fasteignakaupin hafa einnig farið mjög vaxandi. Það kemur fram í upplýsingum frá ráðuneytinu að Sovétríkin eru með fasteignir í Reykjavík sem nema alls 8406 rúmmetrum og lóðir sem eru um 4 þús. fermetrar að flatarmáli. Bandaríkin eru með fasteignir sem eru um það bil helmingi minni að rúmmetrum, 4848, og 1400 fermetra lóðir. Alls eru lóðir erlendra sendiráða í Reykjavík 21 þús. fermetrar.

Sú þróun sem hefur gerst í þessum efnum og þessar tölur bera glöggan vott um ástæðurnar fyrir því að Alþingi sameinaðist um samþykkt þessarar þáltill. Það er full ástæða til þess, þegar nú er senn ár frá þeim atburði liðið, að spyrjast fyrir um hvernig gangi með framkvæmd hennar.