08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (3176)

Um þingsköp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er í valdi forseta að leyfa eða hafna beiðni um umræðu utan dagskrár. Ég vil að það sé ljóst að það er í valdi forsetans að ákveða hvort slík umræða verður eða ekki. Það er hins vegar ekki í valdi ráðherrans. Ráðherra getur ekki komið formlega í veg fyrir að slík umræða fari fram hvort sem hann er ánægður með það eða ekki. Þó að hann vildi gjarnan kannske koma sér undan umræðu, sem ég geri ekki ráð fyrir að hafi verið í þessu tilfelli, er það ekki, eins og ég hef skilið þessi nýju þingsköp, á færi ráðherrans að koma í veg fyrir að umræða fari fram og það er ekki hægt að takmarka málfrelsi þm. að því leyti til.

Þá er það spurningin hvort brýn ástæða hefði verið fyrir því að láta þessa umræðu fara fram núna og ég finn ekki að svo sé. Mér sýnist þetta mál vera í eðlilegum farvegi því að utanrrh. fer á mikilvægan fund í Stokkhólmi á morgun en hann fer ekki nestislaus. Alþingi ályktaði um þetta mál í fyrravor og ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa hér örstutta glefsu úr ályktun Alþingis, svohljóðandi:

„Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því, sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu. Því felur Alþingi utanrmn. að kanna í samráði við utanrrh. hugsanlega þátttöku Íslands í frekari umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.“

Með þetta nesti fer hæstv. utanrrh. til fundar utanríkisráðherranna í Stokkhólmi og ég sé ekki að það hafi verið ástæða fyrir Alþingi að gefa honum nákvæmari fyrirmæli heldur en þarna eru. Málið er sem sagt í athugun. Hæstv. utanrrh. og utanrmn. ber að fylgjast með framvindu málsins. Málið er ekki komið á ákvörðunarstig. Samþykkt danska þingsins verður væntanlega ekki til lokaafgreiðslu á þessum utanríkisráðherrafundi. Ég geri ráð fyrir því að hún verði kynnt þar og rædd þar að einhverju leyti en það verður væntanlega ekki ákveðið á þessum fundi - mér þættu það a.m.k. undarleg vinnubrögð, ef það yrði ákveðið á þessum fundi - að setja upp þessa embættismannanefnd eða setja hana ekki upp, sem væri hitt alternatívið. Utanrmn. fær þannig tækifæri til þess að fylgjast með málinu og það eru þau vinnubrögð sem ég held að við eigum að halda okkur fast við og halda okkur fast við þá ályktun sem Alþingi gerði sem er tvímælalaus og skýr. Ég tel að efnisleg rök fyrir því að taka málið til umræðu utan dagskrár hafi ekki verið það knýjandi að ekki mætti fresta því að ræða það þannig.