04.11.1985
Neðri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það má ræða þetta mál býsna ítarlega þó það skuli ekki gert hér í 1. umr. Ég vara við þeirri kenningu, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að bera saman endilega einstakar stéttir. Tekjuskatt má líta á frá öðru sjónarmiði. Tekjuskattur getur verið beint hagstjórnartæki. Svo er háttað á landi hér með t.d. bændur, og tek ég það fram til þess að verða ekki kallaður bændafjandmaður og ítreka það, sem ég hef áður sagt, að meginþorri þeirra er síður en svo ofhaldinn, fjarri því, að skattalöggjöfinni er það snyrtilega fyrir komið gagnvart þeim að það er hrein hending ef bóndi borgar tekjuskatt. Ýmis atriði i tekjuskattslöggjöfinni, afskriftir á bústofni o.s.frv., gera það að verkum að þessi stétt, og það jafnvel í býsna mörgum tilfellum, - þó þeir búi mun betur, einstakir bændur, en almennir launamenn, hafi kannske tvisvar sinnum meiri tekjur, - er tekjuskattslaus. Látum vera hvort þetta er rétt hagstjórnartæki eða hvort þetta þarf að vera svo til þess að bjarga landbúnaði. Engu að síður er þetta staðreynd. Það er ekki til staðar einhver fastur, óumbreytanlegur stóri sannleikur um hverja beri að skattleggja og hvernig og alla eftir sömu reglum. Fyrirtæki hafa fengið hverjar breytingarnar á fætur öðrum. Um það er mjög mikið deilt. Tekjuskattur fyrirtækja hefur lækkað bæði vegna afskrifta, kaupa á hlut í fyrirtækjum o.s.frv. Það er frádráttarbært til skatts upp að einhverri ákveðinni upphæð. Skattalög fyrirtækja hafa verið þeim ákaflega hagstæð. Og þegar farið er innan fyrirtækjanna sjálfra er líkt á komið. Það var t.d. lengi vel þannig í sambandi við launaskatt að útgerð borgaði ekki launaskatt. Sjónarmiðin voru þau að útgerð væri það mikil undirstöðuatvinnugrein, stæði það illa, að eðlilegt væri að hún væri undanskilin launaskatti. Við skulum því ekki vera með miklar fullyrðingar um að í þessu felist einhver stóri sannleikur. Fordæmin þarna eru fjöldamörg. Við deilum um skatt í sambandi við bændur. Við deilum um hvort fyrirtæki hafi fengið nægilegan skattfrádrátt. Við getum þó ekki deilt um að það hefur verið liðkað mjög verulega til o.s.frv.

Hv. 10. landsk. þm., sem talaði á undan mér, var að tala um uppgjöf verkalýðshreyfingarinnar í sambandi við tillögur hv. 5. þm. Vestf. og mínar. Það er sennilega fyrir æsku sakir að hv. þm. er ekki kunnugt um hvernig þessi skattur kom til. Hann kom til 1954 eða 1956, einhvern tíma á þeim áratug, - og hvernig kom hann? Skyldu hafa risið upp einhverjir hv. alþm. eða göfugir ráðherrar? Nei, það var samið um þetta í kjaradeilu og það var sá virðulegi forsrh. Ólafur heitinn Thors sem samdi við sjómenn um þetta. Allar skattabreytingar og launahækkanir sjómanna hafa komið fram og verið umsamdar í kjaradeilum. Síðast á s.l. vetri, þegar beinn skattfrádráttur sjómanna var hækkaður úr 10 í 12, var það þáverandi fjmrh. sem lofaði að flytja það sem stjfrv.

Hvort uppgjöfin hafi verið svo mikil í verkalýðshreyfingunni á þessum árum veit ég ekki. Sjálfsagt er að taka undir að verkalýðshreyfingin hafi aldrei verið nægilega hörð. En sagan um skattafrádrátt sjómanna, sem hefur aukist með árunum og er það vel, er samofin kjarasamningum í öllum tilfellum. Það hafa aldrei staðið upp göfugir fjmrh. eða forsrh. eða þingnefndir og sagt: Nú viljum við breyta þessu. Það fást ekki menn til sjós, í þennan grunnatvinnuveg. - Þetta hefur verið lausn á kjaradeilum, þrýstingur frá samtökum sjómanna sem ríkisstj. hefur látið undan. Ég hygg að það mundi engin stjórnmálaflokkur leggja til að sjómenn væru sviptir þessum skattaívilnunum.

Hvernig er þá ástandið í sambandi við fiskiðnað? Eitt er víst, að ef íslenskur fiskiðnaður dregst meira saman mundi íslenskt efnahagslíf hrynja. Ástandið er þannig nú að þeir sem flýja þessa atvinnugrein eru fyrst og fremst þjálfað og vant fólk. Ef farið er um landsbyggðina t.d. að sumarlagi er það ekki óvanaleg sjón að meiri hluti starfsfólks í frystihúsi sé undir 16 ára aldri. Ef það losnar eitthvert starf í viðkomandi byggðarlagi, meira að segja illa launað starf, er aðsókn mikil. Síðast í fyrravetur eða fyrrahaust, fyrir rösklega ári, var stofnsett nýtt atvinnufyrirtæki á Akranesi, saumastofa. Meira en helmingur umsækjenda, - ég held það hafi verið auglýst eftir fólki í u.þ.b. 20 störf en verið yfir 60 umsækjendur - um 40 af umsækjendunum, voru þrautþjálfaðar fiskverkunarkonur. Nákvæmlega sömu sögu er að segja ef komið er t.d. til Hafnarfjarðar. Að vísu voru þar ákveðnir erfiðleikar. Þar er stór hluti af þjálfaðasta og reyndasta fólkinu í fiskiðnaði kominn í annað. Það er starfsfólk á sjúkrahúsum, dvalarheimili aldraðra o.s.frv. Hver sá sem reynir að mótmæla því að flótti sé úr þessari atvinnugrein er að neita þeim staðreyndum sem blasa við í lífinu. En hver er afleiðingin af þessu? Afleiðingin er sú að mörg gróskufyllstu sjávarpláss á landinu búa við fólksflótta vegna þess að þessi einhæfu störf eru illa launuð. Það eru nokkrir sem ná nokkuð háum launum vegna þess að unnið er í bónus. Það er að vísu rangt hjá hv. 10. landsk. þm. að bónuskerfi sé ekki í iðnaðinum að verulegu leyti líka, en ekki í jafnstórum stíl. En í þessum gróskufullu sjávarplássum, þar sem gjaldeyrisframleiðsla er með eindæmum, fækkar fólki. Ætlum við að horfa upp á það og láta okkur nægja hátíðlegar ræður um vöruvöndun, um að sjávarútvegurinn sé undirstaðan, en horfa á eftir öllu þessu þjálfaða og reynda fólki burtu og láta unglinga, sem er hreint mannréttindabrot, allt niður í 12 ára, það er misjafnt eftir stöðum, vinna 10-12 tíma á dag í bónus í fiski og sjávarafurðum hvers konar? Ef þessir unglingar væru ekki til staðar væri fiskvinnslan meira og minna lömuð í heilum landsfjórðungum. Hvaða þjóð haldið þið að mundi leyfa sér þá ósvinnu að undirstaðan undir gjaldeyrisframleiðslu viðkomandi þjóðar sé þannig að fólk yfirgefi þá atvinnugrein í stórum stíl og velji allt annað en undirstöðuna sjálfa? Þróun sem heldur þannig áfram leiðir ekki nema til eins. Hún leiðir til hruns í gjaldeyrisframleiðslu okkar og hún leiðir til afturhvarfs í atvinnulífi okkar.

Við færðum út landhelgi í 12 mílur, í 50 mílur og 200 mílur og vítt og breitt um landið hefur verið rekin síðan öflug útgerð og fiskvinnsla sem er orðin yfirgnæfandi meginþorri af sjávarframleiðslu Íslendinga. En erum við ekki núna farin að flytja landhelgina að nokkru leyti út í gámum? Ég segi að við séum að flytja landhelgina út í gámum því að við höfum áratugareynslu fyrir því, Íslendingar, að markaður er hvort sem er í Bretlandi eða Þýskalandi. Það vantar ekki að því er slegið upp í fréttum ef eitthvert skip nær hagstæðri sölu. En það hefur aldrei reynst til langframa. Þetta gæti verið aukabúgrein undir vissum kringumstæðum, en til langframa hefur sjávarútvegur aldrei getað byggt afkomu sína, nema einhvern lítinn hluta af árinu, á sölu á ferskum fiski eða ísuðum fiski á Evrópumarkaði. Við höfum hins vegar unnið okkur mjög trausta markaði í Bandaríkjunum og víðar í Evrópu og við stöndum þannig nú að við getum ekki uppfyllt þá samninga.

Vita menn að það sem af er þessu ári höfum við orðið af gjaldeyrisverðmæti, ekki í hundruðum milljóna heldur sennilega milljörðum eða milljarði a.m.k., vegna þess að við höfum orðið að vinna fiskinn á ódýrari og verðminni hátt? Hvar sem komið er í sjávarpláss, ef hæstv. samgrh. og hv. forseti Sþ. koma til Vestfjarða ganga á fund þeirra fjölmennar sendinefndir. Þessir ágætu menn búast við að það sé flokkshylling eða verið að þakka þeim góð störf. Nei, það er þá undirskriftalisti frá fiskverkunarfólki um að það verði ekki skattlagt eftir þeim heimskulegu skattalögum sem nú gilda. Sannleikurinn er sá að samkvæmt þessum skattalögum eru menn komnir í hátekjuskatt ef þeir leggja á sig mikla nætur- og helgidagavinnu, bónusvinnu o.s.frv. og eru þá komnir í 44% tekjuskatt. Þetta fólk er algerlega að gefast upp. Vissulega þarf að skipuleggja þennan atvinnuveg betur, það er ákafleg vanþróun í því, en sjávarútvegur er þannig að það er ekki hægt að reka hann í einu og öllu eins og iðnfyrirtæki þó að það sé hægt í stærri stíl en núna er gert. Ef það kemur aflahrota á vertíð, halda hv. alþm. þá að fólk segi: Nei, ég vinn bara mína átta tíma. Mig varðar ekkert um þó að 100 tonn af spriklandi þorski eyðileggist. Mínum vinnutíma er lokið.? - Öðru nær. Þetta fólk leggur nótt við dag og það lítur á þetta eins og það sé að bjarga sínu eigin skinni. Það er alið upp við að bjarga þessum verðmætum. Krafa þess er sú að eftirvinna, næturvinna og helgidagavinna sé ekki skattlögð. Það boðar að vísu ákveðnar hættur, að menn stundi minna dagvinnu og meira eftir- og nætur- eða helgidagavinnu. Þess vegna höfum við flm. farið þessa leið. En eins og fyrri flm. tók fram erum við fúsir til að ræða þetta mál. Ef það er einhver ákveðin upphæð sem menn vilja hafa til frádráttar er sjálfsagt að afhuga það, ef farnar eru einhverjar aðrar leiðir í sambandi við skattamálin.

Þetta fólk kemst með ærinni vinnu og ótrúlegum þrældómi oft í nokkuð háar tekjur, en þá er það líka komið í hátekjuskatt fyrir það að vilja ekki hlaupa frá síld ósaltaðri, að vilja ekki hlaupa frá óunnum fiski. Engu að síður er ástandið þannig að fleiri hundruð tonn á s.l. sumri, sem hefðu getað farið í gæðapakkningar sem hefðu verið tvisvar, þrisvar sinnum meira gjaldeyrisaukandi, varð að setja í ódýrustu framleiðslu. Það sem hefði verið hægt að setja í neytendaumbúðir var ekki mannafli til að vinna í þær. Þær eru fólksfrekari. Fiskurinn lá í landi og var mokað upp í frystihúsin. Og þó að fólk ynni myrkranna á milli fékkst ekki fólk til þessara starfa þó þeir ynnu lengi sem í því væru: Í staðinn fyrir að hráefnið færi í ákveðnar gæðapakkningar var það saltað rétt áður en það hefði orðið að setja það í gúanó. Úr þessu varð þriðja og fjórða flokks saltfiskur. Slík vinnubrögð, slíkur framleiðslumáti sýnir náttúrlega að kvótinn, þó ég vilji ekki vera að blanda honum hér saman við, hefur alls ekki leyst vandann. Það liggur fyrir og mundi vera viðurkennt, ekki síst af frystihúsaeigendum, og hefur verið sýnt fram á það af ýmsum tæknimönnum sjávarútvegsins, að það borgaði sig að afla minna og fá verðmætari vöru með verðmætari vinnslu vegna þess að það fæst ekki fólk til starfans.

Sem betur fer, þó að það sé of fljótt um það að spá, standa yfir samningaviðræður núna milli Verkamannasambandsins og Vinnuveitendasambandsins um að þetta fólk fái viðurkenningu sem sérþjálfað fiskverkunarfólk og fái ákveðna umbun í launum. Það er líka verið að ræða um að afnema þá ósvinnu að hægt sé að segja fólki upp með viku fyrirvara hvort sem það hefur starfað í þrjá mánuði eða 30 ár í viðkomandi starfsgrein.

Þetta ber allt að sama brunni. Núverandi ástand stenst alls ekki. Það er sagt: Það á að láta atvinnurekendur borga þetta. Jú, gott og vel. Víst er það. En þó svo að ég telji óumflýjanlegt að fólk í fiskverkun verði að fá gerbreytt launakjör skulum við viðurkenna að þeir sem eru í útflutningsframleiðslugreinum geta ekki bara hækkað verðlagið eins og gert er hér í iðnaði, byggingarstarfsemi, verslun og þjónustu hvers konar. Þar eru kauphækkanir oft beinn gróðavegur. Við skulum segja að kaup hækki um 6%, kaupið er 30% af kostnaðinum við framleiðsluna. Þá selja þeir útselda þjónustu með 6% hækkun, en hirða mismuninn í eigin vasa. Sjávarútvegurinn er útflutningsgrein. Hann er háður verðlagi á erlendum mörkuðum og það hjálpar þá til þeirra bráðabirgðaógæfuráðstafana að hann verður að svara þeim með gengislækkun. Mér dettur ekki til hugar að segja að það megi ekki reka sjávarútveg, og það verður að reka hann svo, mörgum sinnum betur, bæði veiðar og vinnslu, en sjávarútvegurinn á engu að síður í erfiðleikum. Hið lága kaup eykur erfiðleika hans. En ríkið kemur þarna á móti. Vandinn er ekki leystur, en ríkisvaldið leysir hann að hluta með því að að hluta til sé dregið úr skatti á þessa miklu vinnu þannig að hin ranglátu skattalög bitni ekki á þessu fólki. Hvað hugsa hv. þm. sér ef vara á þá við að vera að bera saman einstakar greinar? Ef þetta fólk hættir störfum, ef það hættir að vinna í fiskiðnaði, hvað skeður þá? Það skeður einfaldlega einn hlutur. Sjávarútvegur er með yfir 70% af gjaldeyrisframleiðslu þjóðarinnar og ekki er nema örlítið brot sem hægt verður að sigla með á erlendan markað. Algert hrun yrði í íslenskri gjaldeyrisframleiðslu og íslenskum þjóðarbúskap. Verða menn ekki hreinlega að viðurkenna þetta?

Ég bind nokkrar vonir við að fyrir tilstuðlan nefndar sem er starfandi, skipuð fulltrúum Verkamannasambandsins, Vinnuveitendasambandsins og sjútvrn., takist að lengja uppsagnarfrest þessa starfsfólks og að með verklegum og bóklegum námskeiðum sem haldin væru í vinnutíma tækist að lyfta þessari grein upp á hærra stig. Fólk á ekki að taka svona til orða um grunnframleiðslu þjóðarinnar: Ef maður hittir einhverja unga og elskulega stúlku og spyr: Hvað starfar þú í dag? Maður orðar þetta kannske ekki svona hátíðlega. Maður segir: Hvað ert þú að vinna í dag, góða? Þá segir hún afsakandi: Ja, ég er bara í fiski núna, en ég ætla í annað í haust, banka, verslun o.s.frv. Hvað er að ske? Sjá ekki allir á þessum viðbrögðum hvað er að ske? Það er nauðung að vinna við þá grunnframleiðslu sem okkar þjóðartekjur byggjast á.

Ég vil nú spyrja hv. alþm.: Er glóra í þessu? Verður ekki að reyna hvort tveggja í senn: að lyfta verkmenningu í þessum greinum á hærra stig og að gera þessi störf eftirsóttari? Það er þjóðin sem græðir. Framleiðslan verður meiri, framleiðslan verður vandaðri og það fólk sem leggur á sig langan og strangan vinnudag fær einhverja umbun. Ríkið tekur þátt í þessu. Þetta er þáttur í að efla sjávarútveginn. Ég segi aðeins að í sambandi við ást á einhverjum öðrum atvinnugreinum, sem er fjarri mér að leggja eitt eða neitt til, getur sjávarútvegurinn með bættum vinnubrögðum og bættum rekstri borgað betra kaup. En hann keppir ekki við þjónustu og verslun eins og nú standa leikar.

Hafa hv. alþm. áttað sig á að þeir eru að leggja í rúst hægt og sígandi ýmis gróskufyllstu sjávarpláss á landinu? Það er ekki þessu viðkomandi. Ég tek sem dæmi stað eins og Ólafsvík þar sem er geysilega vel vinnandi fólk. Hann verður fyrir áfalli, þ.e. sjávarútvegurinn og togaraútgerð. En fólkið sem í þessu vinnur og hefur lagt á sig ótrúlega mikið starf - hvert flytur það? Er hagkvæmara að hrekja það til Reykjavíkur? Ef togari er seldur frá Húsavík, 2500 manna byggðarlagi, þar sem er ákaflega athyglisverður atvinnurekstur og gróska í atvinnulífi mætti segja mér að þar fækkaði um svona 500 manns. Hvert skyldi fólkið fara? Hingað á höfuðborgarsvæðið. Hvar skyldi vera mest von um laun? Í verslun og þjónustu. Að vísu er ég kominn þarna út í nokkuð annan hlut, þ.e. hvernig útgerð stendur og hvernig búið hefur verið að henni.

Ég er ekki að segja, með því að nota það sem rök að ekki sé hægt að greiða fiskvinnslufólki betri laun, að það hafi orsakað að þessi byggðarlög hafa misst þessa togara. Ég er aðeins að segja og taka undir með samflutningsmanni að þarna er í einum þætti komið til móts við fiskvinnslufólkið. Það er hárrétt að það þarf mikið meira að koma til. En þarna sýnir ríkið þó lit. Í mörgum tilfellum kemst þetta fólk kannske í nokkuð há árslaun. En vinnudagurinn sem er að baki er langur. Fiskverkunarfólk getur ekki sagt: Ég hætti 10 mínútur fyrir 5. Það verður oft að vinna alla nóttina og kannske langt fram á kvöld dag eftir dag. Við því er ákaflega erfitt að gera - þó að megi stjórna þessu í mörgum tilfellum mikið betur - vegna þess hve afli getur verið misjafn. Þetta er fjarvera frá heimilum líka.

11 þús. ársverkum er reiknað með í fiskiðnaði. Sennilega vinna einhvers staðar milli 6 og 7 þúsund manns við þetta að staðaldri en það koma við í starfsgreininni u.þ.b. 16 þúsund manns. Hefur ekki verið framið meira óréttlæti á Íslandi en að tekið sé tillit til þjóðhagslegs gildis starfs þess fólks sem hlotið hefur þjálfun í þessari starfsgrein, sem kann til verka og hefur í gegnum árin, misjafnlega mörg, lagt á sig langan og strangan vinnudag? Á meðan ekki er hægt - og þó hægt væri - að lyfta launum þess ætti ríkið að koma á einhvern hátt til móts við það. Ég er sannfærður um að það mundi hafa ákaflega örvandi áhrif fyrir fólk sem í þessum störfum vinnur. Ég verð að segja að ef áfram á svo að ganga að þjálfað fólk flýi þessa atvinnugrein og fleiri milljónir eða milljarðar fari í ódýrari vöru og pakkningar vegna skorts á fiskverkunarfólki held ég að það sé endanleg sönnun þess að við kunnum ekki að reka atvinnulíf á Íslandi.

Það er athyglisvert að í mörgum þessum plássum eru meðalárslaun ekki lág. Vinnan er ákaflega einhæf og fólk vinnur undir ákaflega miklu álagi, í bónusvinnu í frystihúsum. Það vinnur óreglulegan vinnutíma. Þess vegna sækir það í önnur störf. Mér er til efs að aðrir vinni öllu meira á Íslandi en fiskverkunarkonur sem vinna í bónus kannske 8-10 tíma og heimilisstörf þar á eftir. Ákveðnar vertíðir á vissum stöðum á landinu þar sem er unninn mjög langur vinnutími í 2-3 mánuði - t.d. síldarvertíð sem nú stendur yfir - færu illa ef fólk segði bara: Ég er ráðinn upp á mína 4 tíma, ég er ráðinn upp á mína 8 tíma, og síldin getur átt sig. Þannig hugsar ekki íslenskt verkafólk. Þess vegna mega alþm. á Alþingi Íslendinga ekki hugsa öðruvísi en þannig. Við verðum að koma á móti þessu fólki. Ríkið þarf að gera sínar ráðstafanir til að tryggja að þessum grunnatvinnuvegi haldist á sínu fólki og að ungt fólk sæki í hann. Hitt er svo annað mál hvort vinnutími þessa fólks er ekki allt of langur og hvort bónuskerfin skapi ekki of mikið álag.

Síðast af öllu skulum við svæfa þessa tillögu eða láta sem allt sé í lagi. Fólk er að streyma frá uppsprettu framleiðslunnar á Íslandi og við skulum ekki láta eins og okkur komi það ekki við. Það er búið að vera þjóðinni dýrt og verður henni enn þá dýrara ef áfram er haldið.