08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3536 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

382. mál, alþjóðasamþykkt um öryggi fiskiskipa

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í þáltill. á þskj. 699 fer ríkisstj. þess á leit við Alþingi að Alþingi heimili fullgildingu svonefndrar Torremolinosalþjóðasamþykktar frá 2. apríl 1977 um öryggi fiskiskipa. Alþjóðasamþykktin, sem hér um ræðir, er fyrsti milliríkjasamningurinn sem gerður hefur verið á vegum Alþjóðasiglingamálstofnunarinnar sérstaklega um fiskiskip. Samþykktin er árangur 15 ára starfs nefndar sem einmitt Íslendingur, Hjálmar R. Bárðarson fyrrv. siglingamálastjóri, veitti forstöðu.

Í viðauka við samþykktina eru reglur um smíði og búnað fiskiskipa. Flest ákvæði þeirra hafa nú þegar verið sett inn í íslenskar reglur, t.d. reglur um stöðugleika og öryggi fiskiskipa. Íslenskar reglur um radíóbúnað og fjarskipti ganga lengra en ákvæði samþykktarinnar. Æskilegt hefði verið að fullgilda samninginn fyrr, en þýðing samþykktarinnar yfir á íslensku krafðist mikillar vinnu sem aðeins var unnt að inna af hendi í hjáverkum viðkomandi embættismanna. Ríkisstj. telur nú rétt að samþykktin verði fullgilt sem allra fyrst.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.

Umr. (atkvgr.) frestað.