09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

401. mál, söluskattur

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um söluskatt með síðari breytingum sem orðið hafa á þeim lögum, en með frv. þessu er að því stefnt að skjóta styrkari stoðum undir ríkjandi framkvæmd við álagningu og innheimtu söluskatts af eigin þjónustu með því að kveða skýrar á og á víðtækari hátt en verið hefur um þessi atriði.

Allt frá því að lög um söluskatt tóku gildi hefur sú meginregla verið leidd af ákvæðum 2. og 4. gr. þeirra að eigin þjónusta rekstraraðila væri skattskyld með sama hætti og sambærileg aðkeypt þjónusta. Ástæðurnar að baki þessarar reglu eru augljósar. Henni er beinlínis ættað að tryggja eftir því sem kostur er jafna samkeppnisstöðu rekstraraðila um leið og stuðlað er að eðlilegri sérhæfingu og hagræðingu innan hinna ýmsu atvinnugreina. Ef reglu þessari væri ekki fyrir að fara er ljóst að fyrirtæki sæju sér augljóst skattalegt hagræði í að kaupa ekki að söluskattsskylda þjónustu heldur sinna þessari þjónustustarfsemi sjálf vegna eigin rekstrar. Þar með væri búið að kippa grundvellinum undan rekstri ýmissa sérhæfðra þjónustufyrirtækja.

Á undanförnum árum hafa komið upp nokkur tilvik þar sem vafi hefur þótt leika á um skattskyldu eigin þjónustu. Þá hafa nokkrir úrskurðir ríkisskattanefndar á liðnum árum haft í för með sér auknar efasemdir um gildi framangreindrar meginreglu. Í þessu sambandi skal einkum nefndur úrskurður ríkisskattanefndar frá 17. okt. 1985, þar sem nefndin féllst á kröfur Eimskipafélags Íslands hf. um að álagning söluskatts á vinnu og verkstæði félagsins um viðgerðir á bifreiðum og tækjum, vinnu við járn- og stálviðgerðir, seglasaum, svo og eigin notkun fyrirtækisins á krönum yrði felld niður. Úrskurði þessum hefur verið skotið til almennra dómstóla í því skyni að fá honum hnekkt.

Í framhaldi af nefndum úrskurði ríkisskattanefndar hafa mér sem fjmrh. borist áskoranir og ályktanir ýmissa hagsmunasamtaka um aðgerðir til þess að eyða þeirri réttaróvissu sem upp virðist komin í þessum efnum.

Í bréfi Meistarafélags járniðnaðarmanna frá 11. nóv. s.l. segir m.a. frá einróma ályktun sem gerð var á aðalfundi félagsins 9. nóv., en þar segir með leyfi forseta:

„Það hefur jafnan verið meginstefna í íslenskri skattalöggjöf að reyna að tryggja sem kostur væri samræmi og óhlutdrægni í skattheimtunni. Hefur þetta að sumu leyti tekist en nokkru miður í öðrum tilvikum og verður það sjálfsagt bæði rakið til efnis laga og þeirra sem framfylgja eiga lögum.

Í lögum um söluskatt hefur frá upphafi verið að finna ákvæði þess efnis að þjónusta viðgerðarverkstæða vegna eigin rekstrar skuli söluskattsskyld. Er það í samræmi við yfirlýsta stefnu laganna að álagning söluskatts eigi ekki að skapa ósamræmi eða ójafna samkeppnisstöðu milli einstakra fyrirtækja. Samkvæmt laganna bókstaf ætti þannig starfsemi viðgerða- og viðhaldsdeilda fyrirtækja og stofnana að vera söluskattsskyld rétt eins og starfsemi verkstæða sem sérhæfa sig í því að veita slíka þjónustu.

Til skamms tíma virðist ekki hafa verið mikill ágreiningur um túlkun þessa ákvæðis þótt á hinn bóginn hafi ýmislegt mátt finna að framkvæmdinni og eftirliti með því að þessar viðhalds- og þjónustudeildir stæðu skil á söluskatti á sama hátt og hin almennu verkstæði. Nú ber hins vegar svo við að ríkisskattanefnd úrskurðar, án þess að fyrrgreindum lagaákvæðum hafi verið breytt og án verulegs rökstuðnings, að umfangsmikil viðgerðarstarfsemi fyrirtækis nokkurs á eigin bifreiðum, vélum og tækjum skuli ekki söluskattsskyld. Þessi afstaða ríkisskattanefndar leiðir til slíkrar mismununar að rekstrargrundvöllur fjölmargra vélsmiðja er nú brostinn. Það er því skýlaus krafa að fjmrh. og önnur stjórnvöld grípi strax til viðeigandi ráðstafana til þess að jafna samkeppnisstöðuna á þessu sviði. Annaðhvort verður slíkt að gerast með enn ótvíræðari lagasetningu um söluskattsskyldu eigin þjónustu eða þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í að veita viðhalds- og viðgerðarþjónustu verði einnig undanþegin söluskatti af slíkri starfsemi.“

Í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á undanförnum árum verður ekki fram hjá því litið að allveruleg réttaróvissa virðist ríkja á þessu sviði, einkum í kjölfar framangreinds úrskurðar. Breytir í því sambandi litlu þó að skattyfirvöld séu þess fullviss að umræddum úrskurði verði hnekkt fyrir almennum dómstólum og miði því framkvæmd laganna enn við umrædda meginreglu.

Sem dæmi um þá erfiðleika og óvissu sem framangreint ástand skapar nægir að nefna að ýmsir stærri rekstraraðilar, sem hafa þjónustu á eigin vegum eða á svipaðan hátt og um er rætt í nefndum úrskurði, hafa þegar tilkynnt viðkomandi skattstjórum að þeir hyggist framvegis haga söluskattsgreiðslum í samræmi við úrskurð ríkisskattanefndar. Ef að líkum lætur verður alllöng bið eftir endanlegri dómsniðurstöðu í framangreindu máli. Hagsmunir þeir sem eru í húfi, bæði ríkissjóðs og fjölmargra þjónustufyrirtækja, eru geysilega miklir. Af þessum sökum þykir ekki verða hjá því komist að eyða þeirri réttaróvissu, sem nú er komin upp í þessum efnum, með því að kveða skýrar á um skattskyldu eigin þjónustu en nú er gert í lögum um söluskatt og fyrir því er þetta frv. lagt hér fram.

Ég vænti þess að góð samstaða geti tekist um að afgreiða það á þessu þingi þó skammt lifi eftir þinghaldsins því að hér eru miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir þau fyrirtæki sem í hlut eiga þannig að fyllsta réttlætis sé gætt í skattheimtu eftir rekstrarfyrirkomulagi og eins með tilliti til hagsmuna ríkissjóðs.

Ég legg því til, frú forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar.