05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

29. mál, fé tannverndarsjóðs

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svör hennar. Það er ljóst að þó að meiri nýting hafi orðið á fé sjóðsins og þá til jákvæðari starfa en áður og tilvist hans virðist vera farin að vera ljós og fé hans hreyfanlegra heldur en áður, það er sannarlega jákvæð þróun, þá er ekki nærri nóg að gert. Því að það hefur orðið mjög lítil breyting á tannheilbrigði Íslendinga undanfarin tíu ár.

Ég vil vekja athygli á því, sem kom fram í fsp. minni á síðasta þingi, að Alþjóðaheilbrigðismáfastofnunin hefur sett sér stórhuga áætlun sem nefnist „Heilbrigði fyrir alla árið 2000.“ Í samræmi við þessa áætlun hafa alþjóðasamtök tannlækna sett sér sérstök markmið til að stuðla að heilbrigði í munnholi fyrir alla árið 2000. Og ég vil undirstrika að við Íslendingar erum aðilar að þessari samþykkt.

Áhugi tannlækna beinist því í auknum mæli að fyrirbyggjandi aðgerðum til tannverndar. Sem dæmi má nefna fund forustumanna tannlækna á Norðurlöndum sem haldinn var hérlendis í júní s.l., en meginviðfangsefni hans voru þær opinberu aðgerðir, og ég vek athygli á því, þær opinberu aðgerðir sem nú er unnið að og dregið geta úr tannskemmdum og munnsjúkdómum. Sömuleiðis var tannvernd meginmál ársþings Tannlæknafélags Íslands sem haldið var nú í október.

Eitthvað hefur verið skrifað í dagblöð um tannlæknaþjónustu og tannvernd á s.l. ári. M.a. kom fram í grein eftir Sigurjón Benediktsson tannlækni á Húsavík að fræðslunefnd tannlækna var neitað um styrk úr tannverndarsjóði með bréfi frá heilbrrn. í júní s.l. Fræðslunefndin ráðgerði herferð gegn ofneyslu sykurs nú í haust og sótti um 1 millj. kr. styrk úr tannverndarsjóði, en tannlæknar og fyrirtæki áttu að leggja fram um 60% kostnaðar.

Ég mundi gjarnan vilja bæta þessari spurningu við fyrri fsp. mína og benda á þarna kjörinn vettvang þar sem hægt væri að verja fé tannverndarsjóðs, því sem er í sjóðnum á þessu ári og bætist við á næsta.