10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3604 í B-deild Alþingistíðinda. (3284)

7. mál, skipulag svæðisins umhverfis Gullfoss og Geysi

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur haft til meðferðar þáltill. um þjóðgarð við Gullfoss og Geysi. Nefndin hefur leitað umsagna um þetta mál og einnig fengið til viðræðu oddvita Biskupstungnahrepps og Hrunamannahrepps ásamt skipulagsstjóra ríkisins. Fyrir liggur að það er sameiginlegur áhugi fyrir því að vinna að skipulagsmálum á þessu svæði á þann veg að nægilegt rými verði um ókomna framtíð fyrir útivistarsvæði í nágrenni Gullfoss og Geysis.

Nefndin leggur því til að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta skipuleggja svæðið umhverfis Gullfoss og Geysi í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Verði Skipulagi ríkisins falin framkvæmd málsins í samvinnu við viðkomandi sveitarstjórnir, Náttúruverndarráð og Geysisnefnd.

Skipulagið miðist við það að tryggja að umhverfi Gullfoss og Geysis verði ekki raskað með mannvirkjagerð, að nauðsynleg ferðamannaþjónusta verði byggð upp á einum stað á svæðinu og að byggingar og samgönguleiðir falli sem best að umhverfinu.“

Fyrirsögn tillögunnar verði: "Till. til þál. um skipulag svæðisins umhverfis Gullfoss og Geysi.“

Fjarverandi lokaafgreiðslu málsins voru Eggert Haukdal, Birgir Ísl. Gunnarsson og Stefán Benediktsson.

Undir þetta rita Ólafur Þ. Þórðarson, Pétur Sigurðsson, Eiður Guðnason og Guðmundur J. Guðmundsson.