10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3609 í B-deild Alþingistíðinda. (3290)

403. mál, réttur launafólks til námsleyfa

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir jákvæðar undirtektir við till. þessa og þau orð sem hann lét falla um hana. Ég geri mér ljóst að orðalagið, eins og það er í fyrri málsgr. , gæti valdið misskilningi, eins og hann benti hér á.

Það sem ég var með í huga þegar ég samdi þessa tillögu var fyrst og fremst það að texti hennar væri tiltölulega opinn í upphafi þannig að við reyrðum okkur ekki á neitt. En það er rétt sem hann sagði að í samþykkt sambandsstjórnar Alþýðusambandsins er gert ráð fyrir því að um verði að ræða fullar bætur fyrir þann tíma sem menn eru fjarri sinni launavinnu. Það sem ég er með í huga - þannig að það komi skýrt fram - er það að menn njóti þess sem kallað hefur verið staðgengilslaun, þ.e. þeir fái þau laun sem staðgenglar þeirra hafa í því starfi sem þeir yfirgefa þann tíma sem þeir eru í námi.

Það var mjög nauðsynlegt að þessi spurning kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. og ég vil þakka honum fyrir hana. Það var gott að fá tækifæri til að koma þessari athugasemd á framfæri.