10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3617 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta var nokkuð fróðleg ræða hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. og sérstaklega var athyglisvert þegar hann spurði: Það er fallegt að setja á blað hugmynd um 80% lán, en hver á að borga? Það hefði verið fróðlegt ef hann hefði spurt sjálfan sig þessarar spurningar þegar þeir sjálfstæðismenn fóru með loddaraskap hér yfir landið fyrir síðustu kosningar og sögðu að þeir ætluðu að tryggja 80% húsnæðislán. Og þáv. formaður Sjálfstfl. skrifaði breiðsíður í Morgunblaðið hverja á fætur annarri þar sem hann lýsti þessu yfir og taldi það hina mestu fjarstæðu að ekki væri hægt að ná 80% húsnæðislánum.

Síðan gerist það að hv. þm. Halldór Blöndal, sem var hugmyndafræðingur þessarar umræðu í Sjálfstfl. á sínum tíma, kemur hér móður eftir nokkurra ára veru í stjórn með Framsfl. og spyr eins og barn: Ja, þetta er falleg hugsun, en hvernig á að borga? Hann spurði aldrei að þessu í kosningabaráttunni 1983.

Ég vil í tilefni af þessum umræðum taka það fram að það er ljóst að okkar skoðun er sú að það beri að drífa í gegn samkomulag aðila vinnumarkaðarins og setja það í lög. Mér er jafnljóst að það er ekki nægilegt að setja lög á grundvelli þess samkomulags um húsnæðislánakerfið vegna þess fyrst og fremst að nýja lánakerfið mun hafa í för með sér margs konar afleiðingar fyrir húsnæðislánakerfi landsins að öðru leyti, sem verður auðvitað að skoða, m.a. hvernig félagslega íbúðarbyggingakerfið mun tengjast almenna húsnæðislánakerfinu þegar það verður orðið jafngott og aðilar vinnumarkaðarins hafa gert samning um.

Í tilefni af ræðu hv. 2. landsk. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vil ég vekja athygli á því að í 3. tölulið í till. þm. Alþfl. stendur: „Lánað verði úr Byggingarsjóði ríkisins 80% af byggingarkostnaði til 40 ára og beri lánin 3,5% vexti. Skal fækka almennum lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins í hlutfalli við fjölda kaupleiguíbúða sem byggðar eru á hverju ári“. Ja, lái mér hver sem vill þó að ég skilji þetta eins og ég gat um hér áðan, þ.e. svona:

Segjum að lán til almennra íbúðarbygginga séu 1500 á ári. Verði byggðar 600 kaupleiguíbúðir þá á að fækka hinum almennu íbúðarlánum úr 1500 niður í 900. Ef þetta er ekki ætlunin heldur að þetta verði hrein viðbót þá erum við farin að byggja býsna mikið hér á landi. Segjum að við byggjum eftir sem áður 1500 íbúðir í almenna kerfinu, segjum að við byggjum 300 íbúðir í verkamannabústaðakerfinu og segjum að við byggjum 600 kaupleiguíbúðir fyrir utan íbúðir fyrir aldraða, þá værum við komin upp í 2400 íbúðir á ári. Og í spá, sem Framkvæmdastofnun ríkisins gerði fyrir nokkrum árum um nauðsyn íbúðarbygginga hér á landi, þá taldi hún að það væri nauðsynlegt að hér yrðu byggðar 2200 íbúðir á ári. Ég hef alltaf dregið þá tölu í efa. En ef það er svo að kaupleiguíbúðirnar 600 á ári í 10 ár eigi að bætast við allt það íbúðakerfi sem fyrir er, þá erum við komin með byggingartölu í 10 ár, herra forseti, sem er hærri en nokkurn tímann hefur verið hérna. Og mér er spurn: Ef þetta er svona hvernig á að borga brúsann? Því að í samningum aðila vinnumarkaðarins er gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir fjármagni stórkostlega lánahækkun Byggingarsjóðs ríkisins. Þar er ekki beinlínis kveðið á um félagslega íbúðarbyggingakerfið þó að í þeim samningum öllum sé gengið út frá því að félagslega íbúðarbyggingakerfið hafi eftir sem áður 33% af nýbyggingum í landinu.

Með öðrum orðum, herra forseti, ég vil taka það fram að ég tel að þessi till. sé góður og skynsamlegur umræðugrundvöllur, hér sé hreyft mjög þörfu máli. En framsetning hennar vekur spurningar, sem eru settar hér fram í fullri vinsemd, og vafalaust er hægt að taka til frekari athugunar við frekari meðferð málsins hér á hv. Alþingi.

Ég vil síðan að lokum, herra forseti, af því að nú hefur gengið í salinn hæstv. félmrh. inna eftir því hvenær þess sé að vænta að nýtt frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins, á grundvelli samninga ASÍ og VSÍ, sjái dagsins ljós og hvort það sé ekki alveg 100% klárt af hálfu ríkisstj. að ekki sé ætlun hennar að slíta þingi öðruvísi en að þetta frv. verði að lögum.